Karphúsið Frá fundi í kjaraviðræðunum fyrr í mánuðinum.
Karphúsið Frá fundi í kjaraviðræðunum fyrr í mánuðinum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Breiðfylking stéttarfélaga gerir þá kröfu að launahækkanir í nýjum kjarasamningum gildi afturvirkt frá 1. janúar. Samtök atvinnulífsins vilja aftur á móti að launahækkanirnar gildi frá 1. febrúar. Þetta kemur fram í myndbandi sem Efling birti á vef…

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Breiðfylking stéttarfélaga gerir þá kröfu að launahækkanir í nýjum kjarasamningum gildi afturvirkt frá 1. janúar. Samtök atvinnulífsins vilja aftur á móti að launahækkanirnar gildi frá 1. febrúar. Þetta kemur fram í myndbandi sem Efling birti á vef sínum í gær þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar fer yfir stöðu kjaraviðræðna. Sólveig sagði í samtali við mbl.is í gær að breiðfylkingin myndi funda saman á næstu dögum.

Í fyrrakvöld slitnaði upp úr viðræðum breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins og hefur kjaradeilunni verið vísað til ríkissáttasemjara. Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að mikill ágreiningur væri uppi um ákveðin atriði í kjaraviðræðum samningsaðilanna. Hann kveðst þó hafa fengið til sín mál sem eru í töluvert meiri hnút en þessi deila. Hann sagði að lítið hefði breyst sem olli því að kjaraviðræðurnar súrnuðu. Við fyrstu sýn hefði svo virst sem allir væru á sama báti, en svo hefði komið á daginn á síðustu vikum að svo væri ekki alveg. Hann telur þó að enn sé fullt tilefni til jákvæðni. Ekki hefur verið ákveðið hvenær næsti fundur í kjaradeilunni verður.

Samningar renna út eftir sex daga og segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að samtalið haldi áfram. Það sé núna formlega á borði ríkissáttasemjara en hafi hingað til verið undir leiðsögn hans. Hún vonast til þess að boðaður verði fundur sem fyrst svo hægt verði að vinna verkefnið áfram.

Höf.: Guðmundur Hilmarsson