Pétur Erlendsson fæddist 14. ágúst 1929 á Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi í Hnappadalssýslu. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 16. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Erlendur Ólafsson skrifstofumaður í Reykjavík, f. 10. október 1897, d. 28. febrúar 1994, og Anna Jónsdóttir húsmóðir, f. 14. október 1904, d. 29. desember 1999. Systkin Péturs voru Ólafur, f. 1926, Halla Guðný, f. 1928, og Agatha Heiður, f. 1933. Þau eru öll látin.

Fyrstu æviárin bjó Pétur með foreldrum sínum á Jörfa í Kolbeinstaðahreppi en árið 1935 flutti fjölskyldan til Reykjavíkur og bjó þar síðan.

Pétur lauk stúdentsprófi frá MR árið 1950 og prófi í viðskiptafræði (cand. oecon.) frá Háskóla Íslands árið 1954. Hann starfaði sem skrifstofumaður hjá Eimskipafélagi Íslands frá námslokum til 30. september 1957. Frá 1. október 1957 til ársloka 1964 starfaði Pétur sem skrifstofumaður hjá Olíufélaginu hf. Í ársbyrjun 1965 hóf hann störf sem skrifstofustjóri hjá Samvinnubankanum. Árið 1981 tók hann við starfi aðstoðarbankastjóra Samvinnubankans og var í því starfi til ársloka 1989. Við sameiningu Samvinnubankans og Landsbanka Íslands varð Pétur aðstoðarbankastjóri hjá Landsbanka Íslands frá 1989 til ársloka 1997 er hann lét af störfum. Pétur sat í samninganefnd bankanna í mörg ár. Hann var í stjórn Reiknistofu bankanna um tíma.

Pétur kvæntist 7. júlí 1956 Áslaugu Andrésdóttir húsmóður, f. 26. mars 1929. Foreldrar hennar voru Andrés Björnsson verkamaður í Borgarnesi, f. 27. nóvember 1892, d. 17. febrúar 1967, og Stefanía Ólafsdóttir húsmóðir í Borgarnesi, f. 30. nóvember 1900, d. 16. nóvember 1982. Pétur og Áslaug bjuggu lengst af í Safamýri 29, í tæp 60 ár.

Synir þeirra eru: 1) Stefán lyfjafræðingur, f. 8. september 1955, búsettur í Danmörku, giftur Puk Egekvist, f. 2. apríl 1954 og eiga þau tvær dætur: a) Kirstin, f. 1983, börn hennar og Martin Dietz eru: Lóa, f. 2013, Leander, f. 2016, og Lærke, f. 2021, b) Maja, f. 1987, maður hennar er Magnus Edinger. Börn þeirra eru tvö: Saga, f. 2017, og Balder, f. 2019.

2) Erlendur tölvunarfræðingur, f. 22. janúar 1957, sambýliskona Halldóra Þórarinsdóttir, f. 9. apríl 1961. Börn þeirra eru: a) Pétur, f. 1990, b) Áslaug, f. 1991, og c) Guðrún f. 2003.

Útför Péturs fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 26. janúar 2024, klukkan 13.

Tengdafaðir minn Pétur Erlendsson er fallinn frá á 95. aldursári. Langri og farsælli lífsgöngu er lokið. Hann fæddist í torfbæ í gamla bænum á Jörfa, næstyngstur fjögurra systkina. Fyrstu æviárin bjó hann í Kolbeinsstaðahreppi en fluttist með fjölskyldunni til Reykjavíkur árið 1935 og bjó þar síðan.

Árið 1956 giftist Pétur Áslaugu Andrésdóttur. Það var mikil gæfa þeirra beggja og þekktu þau flestir sem „Ásu og Pétur“. Þau ferðuðust víða, jafnt innanlands sem utan. Oft slógumst við fjölskyldan með í för og á ég margar góðar minningar af ferðalögum með þeim. Árlega fóru þau til Danmerkur að heimsækja Stefán son sinn og árin okkar í Svíþjóð komu þau árlega í heimsókn. Þau voru með árskort í bæði leikhúsin og sáu flestar sýningar sem settar voru upp. Pétur var farsæll í lífi og starfi. Hann var mikill fjölskyldumaður og leið vel með sínum og var það gagnkvæmt. Hann var einstaklega geðgóður og með hlýtt viðmót. Hann sýndi alltaf mikinn áhuga á því sem við fjölskyldan höfðum fyrir stafni og studdi okkur í einu og öllu. Hann var mikið snyrtimenni, reglusamur, vanafastur og heilsuhraustur alla tíð.

Pétur las mikið, skáldsögur, ljóð og ýmsan fróðleik, en sérstakt dálæti hafði hann á Íslendingasögunum. Hann var einnig áhugasamur um þjóðmál og fylgdist vel með stjórnmálum. Pétur átti traustan vinahóp. Hann hélt ætíð góðu sambandi við gamla MR-skólafélaga og ferðaðist með þeim jafnt innan- sem utanlands árum saman. Oft hittust félagar í súpu í hádeginu. Pétur spilaði brids einu sinni í mánuði við Brynjólf Sandholt, Ragnar Halldórsson og Þorkel Jóhannesson. Pétur var í hópi gamalla starfsfélaga úr Samvinnuhreyfingunni sem oft gengu vítt og breitt um nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Auk þess fór Pétur daglega í göngutúra um hverfið sitt og í Kringlunni ef illa viðraði.

Ég kynntist Pétri fyrst þegar ég kom í Safamýrina fyrir 35 árum. Þau hjónin tóku mér vel frá fyrsta degi og sýndu mér hlýhug og umhyggju sem hefur haldist fram á þennan dag. Ég minnist Péturs sem einstaklega skapgóðs manns og ég minnist þess ekki að hann hafi nokkurn tíma skipt skapi. Hann var líka einstaklega greiðvikinn og mátti alltaf leita til hans ef á þurfti að halda.

Það var mikil gleði þegar okkur Erlendi fæddist sonur 14. ágúst árið 1990 á afmælisdegi Péturs afa síns. Hann var að sjálfsögðu skírður í höfuðið á afa sínum, alnafni með sama fæðingardag. Var ætíð mikill kærleikur milli þeirra nafna og var Pétur yngri aldrei kallaður annað en nafni í Safamýrinni.

Pétur og Ása hafa reynst börnunum mínum alveg einstaklega vel og hafa alltaf verið mikil og sterk tengsl milli þeirra. Þegar börnin voru yngri var alltaf mikil tilhlökkun að gista í Safamýrinni og var fastur liður að fara í sunnudagssteik í Safamýrina.

Ég minnist allra samverustundanna með hlýhug og þakklæti.

Blessuð sé minning Péturs.

Halldóra Þórarinsdóttir.

Elsku afi okkar er nú fallinn frá. Þegar við hugsum um afa þá fyllist hjarta okkar af hlýju og þakklæti. Alla tíð var afi stór partur af okkar lífi, hann hafði alltaf mikinn áhuga á því sem við tókum okkur fyrir hendur hvort sem það var nám, vinna, áhugamál eða ferðalög.

Afi og amma vildu allt fyrir okkur barnabörnin gera og var mikið dekrað við okkur, sérstaklega þegar við komum í heimsókn í Safamýrina. Við eigum margar hlýjar minningar úr Safamýrinni, það var alltaf spennandi að fá að gista hjá þeim en þá fékk maður að fylgja rútínunni hans afa. Hann var mjög vanafastur, reglusamur og allt í föstum skorðum. Það var farinn göngutúr um hverfið, fiskur í hádeginu með hádegisfréttirnar í bakgrunni og bláberjaskyr með rjóma í desert. Ef maður var heppinn rétti afi manni tannstöngul og maður fékk einnig að velja sér sveskju.

Afi sótti alltaf mikið í okkar félagsskap og voru okkar uppáhaldsstundir að fá að spila saman og tefla en hann kenndi okkur mannganginn.

Þegar við komum í heimsókn í seinni tíð var alltaf það fyrsta sem hann sagði: „Jæja, nafni eða nafna, eitthvað að frétta?“ og var hann alltaf mjög áhugasamur um okkar líf.

Afi var frábær ferðafélagi og mjög fróður um land og staðhætti og miðlaði hann þeirri visku til okkar á ferðum um landið.

Afi var mikil fyrirmynd og studdi okkur í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Hann lagði mikið upp úr lestri og hvatti okkur mikið til hins sama og var alltaf til í að hjálpa okkur með heimanám.

Afi var ávallt mjög vel til fara og virðulegur. Hann var hjálpsamur, gjafmildur og aldrei var skortur á þolinmæði gagnvart okkur barnabörnunum. Hann var mjög hlýr og góður við okkur og sýndi okkur mikla væntumþykju.

Fráfall afa skilur eftir mikið tómarúm og munum við ævinlega sakna hans. En fyrst og fremst erum við þakklát fyrir langan, góðan og kærleiksríkan tíma sem við áttum saman.

Pétur, Áslaug og Guðrún.

Eins og séra Guðmundur var frændi minn Pétur Erlendsson af höfðingjaættum að vestan. Í ætt við Laxness, skapara þeirra Bjarts í Sumarhúsum og séra Guðmundar. Afbragðsmaður er orðið yfir Pétur frænda sem er jarðsunginn í dag. En hann verður áfram í hugarheimi okkar er honum kynntumst. Ættarhöfðingi og aldursforseti okkar karlanna í Jörfaættinni. Pétur fæddist á Jörfa í Kolbeinsstaðarhreppi, í kreppunni, að hluta til inn í bændasamfélag fyrri tíma. En var svo heppinn að fá allt það besta úr sínum ættum, fluggáfaður, minnugur, glettinn og góðviljaður geðprýðismaður. Pétur kvæntist frænku okkur Ásu Andrésdóttur og var jafnræði með þeim hjónum. Við sem þekkjum Ásu frænku skiljum til hlítar merkingu orðsins sómakona. Pétur var fyrstur í Jörfaættinni til að ljúka háskólanámi og við þökkum þessum uppáhaldsfrænda okkar samfylgdina, skemmtun og holl ráð sem hann veitti af miklum velvilja. Við, margir ættliðir úr Melgerðinu, þökkum Pétri, og hans fólki, elskusemi þeirra Ásu sem verið hafa sem eldri systkin móður minnar alla tíð. Ómetanleg ráð og stuðningur endranær og hvað þá þegar staðið var í húsnæðiskaupum eða byggingarframkvæmdum. Að ráðagerð lokinni fékk maður dásamlegar skemmtisögur í kaupbæti. Á þessum tímamótum sendum við okkar elsku frænku Ásu og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Viggó Jörgensson.

Fundum okkar Péturs Erlendssonar bar fyrst saman í mars 1944 í undirbúningsdeild sem Einar Magnússon menntaskólakennari starfrækti fyrir þá sem hugðust sækja um inngöngu í Menntaskólann í Reykjavík. Þegar skólinn svo hófst um haustið urðum við Pétur sessunautar og vorum það síðan alla sex veturna til stúdentsprófs. Slíkar aðstæður eru fallnar til að leiða til náins kunningsskapar og óslitgjarnrar vináttu og sú varð líka raunin um okkur Pétur.

Áður en langt um leið varð ég heimagangur heima hjá Pétri. Þangað var gott að koma og það nýtti ég mér ótæpilega, kannski úr hófi fram. Fjölskyldan hafði flust frá átthögunum á Snæfellsnesi til Reykjavíkur á kreppuárunum upp úr 1930 og þurft að kljást við kröpp kjör þess tíma. En því fór fjarri að andblær liðinnar kreppu hvíldi yfir heimilinu. Foreldrar Péturs, Anna Jónsdóttir og Erlendur Ólafsson, voru höfðingjar í sjón og raun og heimilisbragurinn einkenndist af glaðværð og umhyggju þar sem hver og einn heimilismanna átti sinn þátt í notalegu andrúmslofti. Gestakomur voru tíðar, m.a. komu þar við sögu gamlir sveitungar úr Kolbeinsstaðahreppi. Óvíða hef ég séð gleggri sönnun þess að húsrúm og hjartarúm verður ekki mælt á sama kvarða.

Úr þessu umhverfi hafði Pétur sinn heimanbúnað sem reyndist haldgóður. Honum sóttist námið vel, bæði í menntaskóla og í Háskóla Íslands þar sem hann lauk prófi í viðskiptafræði. Í menntaskólanum var hann fljótlega valinn umsjónarmaður í bekk okkar og síðar, eftir útskrift, fulltrúi okkar í bekkjarráði árgangsins, sem stóð fyrir sameiginlegum ferðum og samkomum. Var þó langt frá því að hann sæktist eftir vegtyllum, en það var engu líkara en að hann bæri utan á sér að þar færi maður sem vert væri að treysta.

Traust er einmitt orðið sem kemur fyrst upp í huga minn þegar ég hugsa til þess hvað einkenndi Pétur og framgöngu hans, traust og staðfesta. Hann brást hvorki öðrum né sjálfum sér. Hann hafði ákveðnar skoðanir á ýmsum efnum og var ekki líklegur til að hvarfla frá þeim án fullnægjandi rökstuðnings. En hann var enginn öfgamaður og hafði gott skopskyn sem kom sér vel í samræðum.

Pétur var mikill fjölskyldumaður. Samferð þeirra Áslaugar eiginkonu hans var orðin löng og umhyggja Áslaugar brást ekki þegar heilsu Péturs tók að hnigna fyrir nokkrum árum. Við fráfall Péturs eru Ásu, sonum þeirra Stefáni og Erlendi og fjölskyldum þeirra færðar innilegar samúðarkveðjur og velfarnaðaróskir.

Það kann að virðast vera orðið um seinan að koma á framfæri þökkum fyrir nær ævilanga vináttu. En hvað sem því líður ætla ég að treysta því að Pétri hafi verið ljóst hve vinátta hans var mér mikils virði. Í sjóði minninganna er hún meðal þeirra verðmæta sem ég vildi síst hafa farið á mis við.

Árni Gunnarsson.