Gylfi Már Jónsson fæddist á Akureyri 8. júní 1947. Hann lést í faðmi ástvina á Landspítalanum við Hringbraut 13. janúar 2024.
Foreldrar hans voru Jón Magnús Árnason verksmiðjustjóri, f. 19. júní 1911, d. 18. október 1962, og Dagmar Sveinsdóttir, f. 22. apríl 1913, d. 6. júlí 1997. Systkini Gylfa eru: Sveinn (látinn), Árný, Ragnheiður, Jóhanna (látin) og Árni.
Eiginkona Gylfa er Sigrún S. Hrafnsdóttir, f. 6. ágúst 1947. Börn Gylfa eru Jóhann, f. 1964, maki Bylgja Arnfjörð Sigurgarðarsdóttir, Hrafn Ómar, f. 1968, maki Þórdís Örlygsdóttir, og Dagmar Íris, f. 1976, maki Sindri Sigurjónsson. Barnabörnin eru átta og langafabörnin þrjú.
Gylfi Már ólst upp á Akureyri og gekk þar í barna- og gagnfræðaskóla og lauk þar landsprófi. Árið 1966 flutti hann ásamt Sigrúnu til Noregs þar sem hann stundaði nám í tæknifræði við Tækniskólann í Osló og lauk þar námi árið 1968 og fluttu þau þá aftur heim til Íslands.
Gylfi vann hjá Símanum alla sína starfsævi en meðfram störfum sínum þar kenndi hann í nokkur ár við Tækniskóla Íslands og Símvirkjaskóla Íslands.
Útförin fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 26. janúar 2024, klukkan 13.
Það er mikil breyting á lífi okkar sem áttum þig að, nú þegar þú ert ekki lengur hér. Þú fylgdist alltaf vel með okkur fólkinu þínu. Hringdir reglulega til að heyra í okkur hljóðið, að kanna hvernig við hefðum það og fá fréttir af því sem við vorum að fást við hverju sinni.
Ég er mjög lánsamur að hafa átt þig sem pabba. Þú varst góð fyrirmynd og það var alltaf gott að geta leitað til þín til að ræða málin, og fá ráðleggingar ef svo bar undir. Þá varst þú alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd þegar á þurfti að halda.
Þú varst minnugur, kunnir margar skemmtilegar sögur frá liðinni tíð sem þú deildir gjarnan með okkur og gerðir það eftirminnilega, enda kunnir þú þá list vel. Það var alltaf gott að vera í kringum þig og oftar en ekki líflegt, enda varstu einstaklega glaðlyndur og stutt í húmorinn.
Þú fékkst í vöggugjöf alveg ótrúlegt jafnaðargeð sem við sem stóðum þér næst dáðumst að og það þurfti mikið að ganga á áður en þú misstir þolinmæðina. Þessi eiginleiki þinn fór ekki fram hjá neinum sem fylgdist með því hvernig þú tókst á við þau erfiðu veikindi sem að lokum höfðu betur.
Þær eru margar minningarnar sem gott verður að geta yljað sér við um ókomna tíð, líkt og veiðiferðirnar, heimsóknir ykkar mömmu í bústaðinn, útilegurnar og allar þær yndislegu samverustundir sem við áttum fjölskyldan.
Elsku pabbi, þú varst einstaklega góður faðir, afi og langafi. Þín verður sárt saknað en minningin um þig lifir í hjörtum okkar.
Hver minning dýrmæt perla að
liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug
þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að
kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Jóhann.
Ég á frekar erfitt með að setja niður orð til að minnast þín pabbi, þar sem söknuður brýst mjög fljótt fram og tár fylla augun, en á móti kemur að það er mjög auðvelt að rifja upp góðu stundirnar með þér, þar sem af nægu er að taka. Ef ég væri beðinn að lýsa þér í örfáum orðum, þá hljómaði það þannig að þú værir einstaklega umhyggjusamur, ljúfur, þolinmóður, glaðlegur og hjálpsamur maður, með góða kímnigáfu og frábæra nærveru. Fyrir mér varst þú hinn fullkomni faðir og ekki til betri fyrirmynd.
Ég á óendanlega margar góðar minningar frá ferðalögum með ykkur mömmu, innanlands og erlendis, veiðitúrum, gönguferðum o.s.frv. sem færa mér gleði, þessar minningar kitla oft hláturtaugarnar, þar sem þú hafðir einstakt lag á að sjá spaugilegu hliðarnar á hinum ýmsu uppákomum.
Þú varst einstaklega hjálpsamur og þar sem eitthvað stóð til, hvort sem það var byggingarvinna, bílavesen, bókhald, sendast, eða bara hlusta, þá varst þú tilbúinn til aðstoðar.
Þolinmæði þín og rólyndi áttu sér engin takmörk, sem lítið dæmi má nefna að þegar krakkarnir höfðu hent niður styttum, vösum eða brotið eitthvað, þá sópaðir þú saman brotunum, settist blístrandi við eldhúsborðið og fórst að líma saman brotin. Þar sem óhöppin urðu mörg, og hlutirnir marglímdir, þá fyrst kom örlítil þreyta í þolinmæðina, hún braust þó ekki út með boðum og bönnum, heldur fórstu í fyrirbyggjandi aðgerðir og festir hlutina við hillurnar svo þær gætu ekki dottið.
Það er yndislegt að eiga allar þessar góðu minningar um þig.
Elsku pabbi ég kveð þig að sinni, takk fyrir allt.
Hrafn Ómar.
Elsku pabbi, mikið er erfitt að skrifa þetta og reyna að útskýra í orðum hversu mikið skarð þú skilur eftir í hjarta mínu og okkar allra. Að eiga fyrirmynd eins og þig hefur verið mín lífsins gæfa því þolinmóðari, hjálpsamari og betri mann er erfitt að finna.
Að missa þig er eins og að missa hluta af sjálfri mér. Þú hefur alltaf verið svo stór partur af mínu lífi og barnanna minna. Við eigum erfitt með að horfa fram á við og geta ekki hringt í þig til að fá ráð varðandi hvað sem það er erum við erum að brasa í það skiptið. Hvort sem það er að fá ráð með bíla, tengja rafmagn, smíða eitthvað eða bara kaupa nýja þvottavél. Ég á svo margar góðar minningar um þig þar sem þú varst til staðar þegar ég þurfti á þér að halda. Þegar ég var yngri hringdir þú í mig til að minna mig á fiðluæfingar sem ég þóttist gjarnan gleyma, skutlaðir mér í ballett út á Nes þótt við byggjum í Grafarvogi og þegar ég lenti í einhverjum vandræðum eins og þegar við vinirnir festum bílinn á kafi í snjó í Heiðmörk um miðjan desember þá voru allir sammála um að hringja í þig því að við vissum að þú myndir vita hvað ætti að gera. Þú varst alltaf fyrsta símtal. Ég gæti haldið áfram endalaust, það vita allir sem þekktu þig.
Þegar strákarnir mínir fæddust varstu stoltur af þeim frá því að þú sást þá fyrst. Þeir áttu alltaf vin í þér og hringdu fyrst í þig til að fá ráð með bílakaup eða viðgerðir. Þegar þeir þurftu aðstoð með námið þá hjálpaðirðu þeim með þinni einstöku þolinmæði.
Þolinmæði, þrautseigja, jafnaðargeð, góðmennska, verklagni, gáfur og húmor eru þau orð sem mér detta í hug þegar ég hugsa um þig elsku pabbi minn. Það var alltaf svo gott að leita til þín, þú gast alltaf séð björtu hliðarnar á lífinu. Birtan og ástin frá þér mun lifa áfram með okkur og veita styrk út í lífið.
Dagmar Íris Gylfadóttir.
Ég á svo margar góðar minningar um hann afa. Sumar af þeim bestu tengjast útilegum með ömmu og afa og við fórum í göngutúra með með fuglabókina við hönd og flettum upp hverjum einasta fugli sem varð á vegi okkar.
Öll þau skipti sem ég átti í erfiðleikum með eitthvað, hvort sem það var lærdómur í skóla eða læra á eitthvað tengt bílum, var hann alltaf tilbúinn að hjálpa, sama þótt það væri eitthvað sem hann kunni ekki sjálfur, þá var hann fljótur að fræða sig um efnið til þess eins að geta aðstoðað mann.
Ég mun sakna allra þeirra skipta sem hann hringdi bara til að kanna hver staðan væri á manni og hvort það væri eitthvað skemmtilegt að frétta. Hann var alltaf tilbúinn að hjálpa manni og ég man bara allt frá því í barnæsku að þegar eitthvert dót sem manni þótti vænt um brotnaði þá var maður fljótur að hugga sig við það að afi myndi nú geta límt þetta. Ef það gekk ekki þá var það endanlega ónýtt.
Minningarnar okkar afa eru endalausar og ég gæti skrifað endalaust.
Það verður skrítið að geta ekki heyrt í afa og spjallað um allt og ekkert eins og við höfum mikið gert í gegnum tíðina og erfitt að geta ekki lengur leitað til hans með öll heimsins vandamál.
Jón Gylfi.
Ég á bara góðar minningar um hann afa, hann var svo góður í sér. Þegar við bjuggum á Kristnibrautinni þá var alltaf gott að kíkja niður til afa og ömmu í afagraut eða vöfflur og þegar mamma vildi ekki fara með okkur í ísbíltúr þá var alltaf hægt að plata afa með. Ef maður vildi gista var afi ekki lengi að rífa fram beddann.
Ég á líka margar minningar frá skemmtilegum ferðalögum á sumrin með ömmu og afa og löngum göngutúrum í hverfinu.
Afi á stóran þátt í því að ég útskrifaðist í vor því þegar námið þyngdist þá sátum við afi stundum tímunum saman á kvöldin og klóruðum okkur í skallanum yfir námsefninu, það var alltaf hægt að treysta á hann með að aðstoða mann ef á þurfti að halda.
Þegar maður var í bílahugleiðingum þá var síminn á milljón og afi að hjálpa við að finna rétta bílinn.
Elsku afi takk fyrir allt
Eiður Logi.
Að missa tvo bræður á fjórum mánuðum er sárt en þá reyni ég að hugsa hversu þakklát ég er fyrir að hafa átt þessa yndislegu bræður.
Þegar ég var sex ára var okkur systkinum sagt að við myndum eignast lítið systkini sem var ákaflega spennandi. Þegar flutningabíll síðan stöðvaðist fyrir utan Eyrarveginn og stór trékassi var borinn inn á þvottahúsgólfið var ég viss um að þarna væri barnið. Ég settist nálægt kassanum og man vonbrigðin þegar úr kassanum kom gul Rafha-þvottavél.
Litli bróðir Gylfi Már kom svo í heiminn þann 8. júní 1947. Hann varð strax mikið uppáhald og gleðigjafi og fimm árum seinna bættist Árni í systkinahópinn. Mikil breyting varð þegar elsku pabbi lést úr krabbameini aðeins 51 árs árið 1962. Mamma, sem hafði verið heima að hugsa um börn og bú, fór þá að vinna úti en við eldri systkinin þrjú vorum búin að stofna heimili í Reykjavík. Þá var Árni aðeins 10 ára og sótti mikinn styrk til Gylfa sem hann sá fyrir sér að yrði honum alltaf við hlið. Einn daginn spurði hann því: „Gylli ef þú giftist, viltu þá giftast mér?“
Þegar Gylfi var 16 ára hitti hann Sirru (Sigrúnu) sína á æskulýðsmóti og saman hafa þau gengið lífsveginn í 60 ár. Eignast þrjú yndisleg börn, barnabörn og langömmu- og langafabörn. Þau hafa alltaf verið mikið fjölskyldufólk og heimilið opið þeim öllum.
Það sem einkenndi Gylfa var hans einstaklega góða skap og það hvað hann tókst á við allt af jákvæðni. Það var því alltaf létt á hjalla í kringum hann og ráðagóður var hann með eindæmum. Eitt dæmi þess var fyrir mörgum árum þegar þau Sirra áttu gamlan Skoda-bíl og halda skyldi í honum til fjölskyldu Sirru á Akureyri. Jóhann og Hrafn Ómar voru settir lausir í aftursætið eins og tíðkaðist á þeim tíma. Veðrið var vont og slæm veðurspá en G.M.J. eins og við kölluðum hann oft lét það nú ekki aftra för sinni. Þegar komið var að Holtavörðuheiði var allt stopp, brjálað veður og heiðin ófær. Gylfi brá sér þá út og þegar hann kom til baka var hann búinn að semja við flutningabílstjóra um að festa Skodann aftan í flutningabílinn og yfir heiðina fóru þau og komust heil á húfi til Akureyrar. Mikið er búið að hlæja að þessari sögu í fjölskyldunni.
Með árunum eignuðust Gylfi og Sirra síðan góða bíla og húsbíla og nutu þess mikið að ferðast um landið. Á seinni árum var Gylfi einnig duglegur að ganga sér til heilsubótar og fór jafnvel á fjöll. Þessi alvarlegu veikindi sem hann þurfti að takast á við núna komu okkur því á óvart. Hann hafði reyndar áður glímt við alvarleg veikindi en eins og með allt annað tókst hann á við þau af miklu æðruleysi og steig alltaf sterkari upp fyrir vikið. Áfram var hann fyrstur til að rétta hjálparhönd hvar sem hennar þurfti við og umvafði fjölskylduna sína alla tíð.
Hann var því sjálfum sér líkur til hinsta dags, kvartaði aldrei og gerði að gamni sínu. Sem betur fer fékk hann að vera mest heima undir lokin þar sem hann vildi helst af öllu vera. Guð vaki yfir ykkur elsku Sirra, Jóhann, Hrafn Ómar, Dagmar Íris og fjölskyldum ykkar.
Þín systir,
Árný.
Með fráfalli Gylfa Más Jónssonar svila míns og mágs Örnu minnar er genginn einhver heilsteyptasti og heiðarlegasti maður sem við höfum kynnst.
Gylfi var í okkar huga einhvern veginn eins og klettur sem aldrei braut á, sama hvað var, og alltaf var hann svo gegnheill í orði og verki og við bæði tvö, ég og Arna mín, erum sammála um að ef hægt er að kalla fólk fölskvalaust með öllu, þá er Gylfi Már Jónsson fremstur þar meðal jafningja.
Glettinn, einkar viðræðugóður og skemmtilegur, þessir þrír eiginleikar lýsa Gylfa Má vel og aldrei kom maður að tómum kofunum hjá honum, alltaf var hann til í spjall og þessi einstaka hlýja nærvera sem frá honum geislaði var þannig að manni leið alltaf vel í návist hans.
Eins var það einstakt að horfa á þau hjónin Sirru og Gylfa og samrýndari hjón eru vart hér til og þar einmitt komu í ljós þessir miklu mannkostir og manngæska Gylfa svo af bar og í rúma sex áratugi hafa þau hjón, Sirra og Gylfi, fetað lífsins veg og með sanni má segja að sé til lífsins lottó, þá unnu þau hjónin sannarlega stóra vinninginn daginn þann er leiðum þeirra bar saman.
Eins verður að nefna það hér hversu mikill pabbi og afi Gylfi Már var. Samband hans við börnin sín þrjú og svo barnabörnin var einstakt og Gylfi vissi alltaf allt sem börnin voru að fást við á hverjum tíma og studdi hann þau í orði og verki og sannarlega hafa þau öll, Jóhann, Hrafn Ómar og Dagmar, erft alla þá góðu mannkosti pabba síns, og nú á þessari sorgarstund þegar viðskilnaðurinn verður ekki umflúinn geta þau öll staðið stolt og hreykin af því að vera Gylfabörn.
Gylfi Már Jónsson er maður sem við gleymum aldrei. Í mínum huga er hann einfaldlega stórmenni og þannig munum við minnast hans og ég veit að svo er um marga aðra sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast honum og umgangast.
Genginn er yndislegur drengur góður og við Arna kveðjum með sorg og söknuði í hjarta, en um leið með innilegu þakklæti fyrir kynnin.
Elsku Sirra, Jóhann, Ommi og Daddý, sem og barnabörn og barnabarnabörn.
Minningin um einstakan mann sem skildi eftir sig svo mikið af gæðum mun hjálpa ykkur í gegnum þessa dimmu janúardaga.
Að fylgjast með baráttunni síðustu vikur í veikindum Gylfa Más hefur tekið á.
Mest er því um vert kæra fjölskylda að nú eru allar þrautir hans að baki og við skulum trúa því að almættið velji honum nú stórt og gott hlutverk í sólarlandinu eilífa sem honum sannarlega ber.
Blessuð sé minning Gylfa Más Jónssonar.
Sigfús Ólafur Helgason, Arna Hrafnsdóttir.
Gylfi frændi var í miklum metum hjá okkur öllum í fjölskyldunni. Hann hafði rólegt og vingjarnlegt yfirbragð en undir niðri ólgaði kímnin og þessi léttleiki sem einkenndi svo daglegt yfirbragð hans. Hann stendur manni því ljóslifandi fyrir hugskotssjónum þegar hann hallaði undir flatt með glettni í augunum, hló og sagði eitthvað sem kætti alla í kring. Einmitt svona eru allar minningarnar um hann að segja sögur af hversdagslegum uppákomum sem hann setti í þann búning að allir veltust um af hlátri.
Sögurnar voru þó iðulega um hann sjálfan eða eitthvað sem hafði á daga hans drifið en svo sannarlega ekki á kostnað annarra enda var hann svo ljúfur og gegnheill maður.
Það var sama hvort maður hitti hann á förnum vegi eða í fjölskylduboðum að af hans fundi fór maður glaður og bjartsýnni á lífið og tilveruna. Mikill er missirinn fyrir hans nánustu fjölskyldu en líka systkinahópinn sem nú hefur misst eldri bræðurna tvo með nokkurra mánaða millibili. Elsku frændi lifir í minningunni, kátur og hress, gleðigjafi í hvívetna.
Þínar frænkur,
Þórunn Elva og
Ragný Þóra.
Horfinn er til hins eilífa austurs bróðir okkar og vinur, Gylfi Már Jónsson, eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm sem að lokum hafði betur.
Gylfi gekk í Alþjóða Samfrímúrararegluna Le droit humain og stúkuna Ósíris nr. 1221 þann 7. nóvember 1989. Frá þeim tíma og allt fram á síðustu vikur fyrir andlát sitt vann hann ötullega að hugsjónum reglunnar um frelsi, jafnfrétti og bræðralag allra manna. Á ferli sínum tók hann öll stig á leið frímúrarans sem lauk með vígslu hans á 33. og síðasta stig á fundi Hins háa ráðs Alþjóða Samfrímúrarareglunnar í París 26. janúar 2020. Á ferli sínum gegndi hann fjölbreyttum embættisstörfum auk þess að leggja af mörkum ómælda vinnu við húsnæði reglunnar og umbúnað allan. Þegar stúkan Ósíris var flutt á Selfoss fylgdi hann henni úr hlaði og lagði ítrekað á sig ferðir á fundi til þess að tryggja góða lendingu stúkunnar á nýjum stað. Hann flutti sig síðan í stúkuna Ljósfara nr. 1676 haustið 2022 þar sem þau systkin sem fyrir voru fengu að kynnast gegnheilum og góðum manni sem þau minnast með mikilli hlýju og kærleika.
Þegar ég sjálfur gekk í Samfrímúrararegluna upp úr 1995 og kynntist Gylfa var eins og við hefðum þekkst alla tíð, nærvera hans, hlýja og manngæska var nánast áþreifanleg. Mannkostir hans voru óumdeildir. Hann var einstaklega heilsteyptur einstaklingur, einlægur og samkvæmur sjálfum sér og ætíð gott að leita til hans með þau mál sem leysa þurfti. Fljótlega fór það svo að í hlut okkar Gylfa kom að sjá um rekstur og viðhald húsnæðis reglunnar á Skerjabraut 2 og síðar að leiða byggingu nýrra höfuðstöðva á Kirkjustétt 6. Verkaskipting okkar var skýr. Hann sá um allt sem viðkom rafmagni og hljóðkerfum en ég kom meira að verkum sem viðkomu öðrum iðnþáttum og alltaf gáfum við okkur tíma til að ræða saman um góðar lausnir á þeim vandamálum sem upp komu. Verkefnin voru óþrjótandi því í mörg horn var að líta. Ég dáðist að því hvað Gylfi var alltaf yfirvegaður og fljótur að finna lausnir á þeim vandamálum sem upp komu. Vandamál í hans augum voru verkefni sem þurfti að vinna en ekki erfiðleikar. Við Lauga, Gylfi og Sigrún, eftirlifandi eiginkona hans, áttum ánægjulega samleið í gegnum árin. Sönn vinátta myndaðist á milli okkar og margir kaffibollar drukknir heima hjá okkur og uppi í sumarbústað. Við fórum í ófáar ferðir til Akureyrar og Parísar á frímúrarafundi þar sem kærleikur, gleði og sönn vinátta voru allsráðandi.
Aldrei heyrði ég Gylfa hallmæla nokkrum manni og fyrir mér var hann lifandi dæmi um sannan frímúrara með hjarta úr gulli. Ég kem til með að sakna þess að fá ekki símhringingu frá mínum kæra bróður sem byrjaði alltaf svona „sæll kæri bróðir“.
Systir Sigrún og fjölskylda. Fyrir hönd Samfrímúrarareglunnar á Íslandi, og okkar Laugu, er nú kærum bróður þakkað framlag hans í þágu mannræktar og dýrmæt og ógleymanleg samfylgd um leið og við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra. Minning um ljúfan og góðan dreng mun lifa með okkur um ókomna tíð.
Örn Sævar Ingibergsson.
Sumir samferðamenn eru minnisstæðari en aðrir. Gylfi Már var einn þeirra.
Við Gylfi kynntumst fyrir margt löngu þegar við unnum hjá Símanum. Við fyrstu kynni vakti það athygli mína hve Gylfi var aðlaðandi í framkomu, glaðlyndur og háttvís; hafði fágæta persónutöfra. Hann var sömuleiðis afburðafær og framsýnn tæknimaður – vildi aðlaga fjarskiptalausnir þeirra tíma að nýrri tölvu- og rafeindatækni sem þá var að ryðja sér til rúms hér heima og erlendis.
Gylfi var í raun frumkvöðull í sínu starfi, stóð fyrir vöruþróun og auknu framboði tæknilausna Símans, m.a. fyrir skipaflota landsmanna, lausna á borð við fjarskiptatengingar um farsíma- og gervihnattakerfi sem gerði kleift að koma upp símstöðvakerfum um borð í öllum gerðum sjófara, allt frá smábátum upp í stærstu gerðir farskipa. Gylfi lagði sig í líma við að koma til móts við óskir viðskiptavina Símans þótt slíkt útheimti útsjónarsemi og ómælda vinnu. En hann var líka snjall í viðskiptum með gott nef fyrir viðskiptatækifærum. Þar lá drifkraftur okkar manns.
Ég var svo heppinn að fá að taka þátt í nokkrum þessara verkefna. Og Gylfi horfði ekki bara til heimamarkaðar fyrir nýsköpunarlausnir sínar heldur var allur heimurinn undir. Af því tilefni þurfti að markaðssetja og kynna þessar lausnir erlendis. Af því tilefni var ferðast um Evrópu til að hitta viðskiptavini Símans og mögulega umboðsaðila þessara fjarskiptalausna. Þessar ferðir skiluðu viðskiptasamböndum sem entust árum saman, allt Gylfa að þakka.
Í ferðum okkar Gylfa var ljóst að hann þekkti persónulega flesta lykilaðila hjá fjarskiptafyrirtækjum og framleiðendum notendabúnaðar á Norðurlöndunum enda var honum ávallt tekið opnum örmum hvar sem hann fór og greinilegt að þessir aðilar báru ómælda virðingu fyrir mannkostum Gylfa.
Þetta voru ánægjulegar ferðir þar sem oft gafst tóm til að ræða allt milli himins og jarðar enda Gylfi fróður um margt. Í samtölum okkar kom berlega í ljós hve fjölfróður hann var og ekki síður hve mikill mannvinur hann var enda hallaði hann ekki orði á nokkurn mann – aldrei.
Stundum voru konur okkar með í ferð og þá höfðu Gylfi og Sigrún gert ráðstafanir varðandi leikhúsferðir ef áhugaverðar sýningar voru í boði í þeim borgum sem áð var í. Minnisstæð er ferð til Lundúna í kringum aldamótin þar sem bæði var farið á óperusýningu og svo á söngleikinn Mamma Mia sem þá var nýsettur á fjalirnar. Sömuleiðis höfðu verið frátekin borð á bestu veitingahúsum í hverri borg. Þetta allt höfðu Gylfi og Sigrún skipulagt í undanfara ferðarinnar, útvegað miða og annað sem til þurfti sem ekki var einfalt í þá daga.
Það er mikil eftirsjá að góðum og klárum mönnum eins og Gylfa Má Jónssyni, sem í margra huga var nánast engill í mannsmynd. Votta ég Sigrúnu, börnum og barnabörnum, sem og öðrum ættingjum og vinum Gylfa, samúð mína.
Óskar H. Valtýsson.