Leó Ásgeirsson fæddist 27. mars 2001. Hann lést á heimili sínu 4. janúar 2024.

Foreldrar hans eru Arnhildur María Reynisdóttir flugfreyja og Ásgeir Ragnarsson lögfræðingur.

Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 26. janúar 2024, klukkan 13.

Síminn hringir, harmafregn.

Minningarnar streyma fram. Agnarsmár, ljós og fagur Leó í fangi mömmu sinnar. Hann er augasteinn. Afmæli með afa Reyni sem leikur á nikkuna meðan litli kútur ferðast glaður um húsið og lætur reyna á stiga og stóla. Leó með kisu, tvö lítil ljón – leikur og fjör, en líka hlýja og natni. Fallegur unglingur sem kíkir í tjaldið með vinunum á Þjóðhátíð. Seinna pælingar um framtíðina og skemmtileg samtöl við einstakan ungan mann sem er óhræddur við að fara sínar eigin leiðir. Hugrakkur í ólgusjó sinnar baráttu, ákveðinn í að ná landi. Æðrulaus í storminum, í von um að holskeflunum linni – og hann fái að vakna með sól að morgni.

Góðar stundir í bland við erfiðar, alltaf er skjól í hlýjum móðurfaðmi. Arnhildur og Leó, Leó og Arnhildur – samband þeirra er fallegt, milli þeirra er órjúfanlegur strengur, endalaus ást og umhyggja. En lífið er hverfult og á nýhöfnu ári er elskaður Leó kvaddur burt. Leó sem er að hefja lífið … fullur metnaðar og drauma.

Lamandi sorg.

Hjartans samúð elsku Arnhildur mín, kæra fjölskylda og vinir – ljós og kærleikur umvefji ykkur öll og styrki á þessum erfiðu tímum.

Minningin lifir um vininn okkar góða.

Eva og
fjölskylda.

Elsku besti vinur.

Elsku Leó. Það er ótrúlega ósanngjarnt að þurfa kveðja besta vin sinn svona ungan. Við héldum alltaf að við myndum sitja með þér í pottinum í sundi að ræða pólitík eða hvor liðin okkar eru betri í fótbolta. Við héldum einfaldlega að þú myndir lifa að eilífu. En nú þurfum við að kveðja þig og við viljum segja þér hvað þú þýddir og þýðir mikið fyrir okkur.

Takk Leó fyrir endalausar minningar sem við fengum að búa til með þér, þú gast gert alla daga að sögum sem við getum rætt í framtíðinni. Þú gjörsamlega lýstir upp herbergi þegar þú labbaðir inn í það með sjarmanum þínum, með brosinu þínu og hlátri. Að hafa átt þig að sem vin voru forréttindi, þú varst til staðar þegar maður var ekki upp á sitt besta og þú varst alltaf með réttu orðin til að segja.

Takk fyrir öll símtölin þar sem þú hringdir bara til að heyra hvernig maður hefði það, myndum gera allt til að bara fá eitt símtal frá þér og heyra í röddinni þinni. Þú varst svo falleg sál sem við eigum eftir að sakna endalaust.

Þangað til næst,

bless Leó.

Þínir bestu vinir,

Stefán Steinsen jr. og
Davíð Jóhann Diego.