Janus Guðlaugsson
Janus Guðlaugsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nauðsynlegt er fyrir stjórnendur heilbrigðiskerfisins að finna jafnvægi milli þeirra aðferða sem beitt er, þ.e. áhættuskimunar fyrir einstaklinga og heilsutengdra forvarna.

Janus Guðlaugsson

Steinunn Þórðardóttir, öldrunarlæknir og formaður Læknafélags Íslands, hittir naglann á höfuðið í viðtalsgrein í Morgunblaðinu 30. desember þar sem hún segir: „Helstu framfarir í málaflokki aldraðra séu í forvörnum og margir vonast til þess að auknar forvarnir á grundvelli lýðheilsu geti að einhverju leyti tekið á vandamálunum sem fylgja hækkandi meðalaldri þjóðarinnar þannig að við verðum bara frískari, eldri og meira sjálfbjarga“

Hér á landi er nægjanleg þekking fyrir hendi til að festa í sessi markvissar heilsutengdar forvarnir. Hægt er að byggja á íslenskum gagnreyndum aðferðum sem á einfaldan hátt má innleiða og fylgja eftir í sveitarfélögum landsins með litlum tilkostnaði. Það fjármagn sem eldri borgarar greiða með útsvarstekjum sínum á meðal annars að nýta til fjárfestingar í heilsutengdum forvörnum fyrir þennan sama hóp. Hvernig er því fjármagni varið innan sveitarfélaga landsins sem kemur frá útsvarstekjum þeirra sem eru 67 ára og eldri og eru enn í sjálfstæðri búsetu?

Greinarhöfundur hefur á síðustu 25 árum sinnt heilsutengdum forvörnum, lýðheilsutengdum gagnreyndum inngripum sem byggjast á hreyfingu, næringu og fræðsluerindum sem ætluð eru almenningi, sér í lagi eldri aldurshópum. Með markvissri vinnu og skipulagi hefur tekist vel til og nokkur sveitarfélög lagt starfsemi heilsutengdra forvarna lið gegnum verkefnið Fjölþætt heilsuefling 65+ í sveitarfélögum – leið að farsælum efri árum. Bestu þakkir til þeirra fyrir framsýni. Því miður hefur ríkið enn ekki séð sér hag í að leggja þessu málefni lið þó að eftir því hafi verið leitað og lagaákvæði kveði á um slíkt. Ætli það stafi af skorti á þekkingu af hálfu ráðherra eða sérfræðinga hans um ávinning af gagnreyndri heilsueflingu fyrir eldra fólk í sjálfstæðri búsetu?

Ein ánægjulegasta niðurstaða af mörgum jákvæðum í okkar verkefni er að með markvissri heilsueflingu, sér í lagi styrktar- og þolþjálfun og ráðgjöf um næringu, hefur mat einstaklinga á eigin heilsu aukist jafnt og þétt á tveggja ára tímabili. Þessar breytingar færu að öllum líkindum halloka með hækkandi aldri ef ekkert væri að gert. Hér er um að ræða niðurstöður um mat þátttakenda á eigin heilsu eftir alþjóðlegum spurningalista, svonefndum EQ-5D-5L. Hann var lagður fyrir þátttakendur í heilsueflingu fimm sinnum yfir tveggja ára tímabil (sjá mynd).

Niðurstöður sýna að líkamleg, andleg og félagsleg heilsa hækkar um 15 stig á tveimur árum. Hér er um einstakar niðurstöður að ræða og að öllum líkindum, þó að ekki sé það staðfest, mætti yfirfæra þessa hækkun yfir í fleiri ár í sjálfstæðri búsetu. Slíkt er ekki svo óraunhæft ef marka má þekktan ávinning af markvissri gagnreyndri heilsueflingu eldri aldurshópa. Hver vill ekki búa 15 árum lengur í sjálfstæðri búsetu? Spurning hvort stjórnendur sveitarfélaga átti sig á að fjármagn til þeirra gegnum útsvarsgreiðslur 67 ára og eldri íbúa mun einnig margfaldast í kjölfarið.

Því er nauðsynlegt fyrir stjórnendur heilbrigðiskerfisins að finna jafnvægi milli þeirra aðferða sem beitt er, annars vegar áhættuskimunar fyrir einstaklinga og hins vegar heilsutengdra forvarna eða lýðheilsutengdra gagnreyndra inngripa sem snúa að öllum almenningi, ekki síst eldra fólki. Hér ríkir mikið ójafnvægi sem að öllum líkindum er orsök þess vanda sem heilbrigðiskerfið glímir við í dag.

Gleymum ekki að rannsóknir hafa sýnt fram á að lýðheilsutengd inngrip eru bæði fljótleg, árangursrík og ódýr leið til að draga úr langvinnum sjúkdómum en geta um leið dregið úr því mikla álagi sem er á heilbrigðiskerfinu. Slík heilsuefling, byggð á gagnreyndum aðferðum, er einföld og skilvirk öldrunarþjónusta.

Það fjármagn sem varið er í heilsutengdar forvarnir skilar sér um fjórtánfalt til baka samkvæmt rannsóknum. Þar fyrir utan má auka lífsgæði fólks, bæta heilsu þess og auka fjármagnsstreymi til sveitarfélaga í gegnum útsvarstekjur sjálfstætt búandi eldri einstaklinga. Aukið fjármagn til heilsutengdra forvarna, þó ekki væri nema 2,5-3% af heildarfjármagni til heilbrigðismála, gæti leyst vanda heilbrigðiskerfisins til næstu áratuga. Hér þurfa heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra í samvinnu við forsætisráðherra, landlækni og sérfræðinga ráðuneyta og stofnana að þora inn á nýjar brautir og skapa nýja vídd í heilbrigðismálum.

Höfundur er PhD-íþrótta- og heilsufræðingur.

Höf.: Janus Guðlaugsson