Keflavíkurflugvöllur Landamæraverðir á flugvellinum standa í ströngu vegna skorts á upplýsingum um farþega.
Keflavíkurflugvöllur Landamæraverðir á flugvellinum standa í ströngu vegna skorts á upplýsingum um farþega.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Íslensk yfirvöld vinna að því að ná samningum um að hér gildi sömu reglur og í stórum hluta Evrópu þar sem flugfélög þurfa að skila svokölluðum PNR-upplýsingum um farþega. Unnið er að lausn málsins og vonumst við til þess að það gerist fljótlega. Eftir stendur að beita þeim úrræðum sem lög mæla fyrir um ef ákjósanleg niðurstaða fæst ekki í málinu,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í skriflegu svari til Morgunblaðsins.

Hún var spurð hvernig ráðuneytið hygðist bregðast við því ástandi sem við er að eiga á landamærunum á Keflavíkurflugvelli, þar sem tíu nafngreind flugfélög afhenda lögregluyfirvöldum ekki lista yfir farþega, en lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur þungar áhyggjur af ástandinu og segir farþegaeftirlit í skötulíki og hending ráði hvort brotamenn séu stöðvaðir á landamærunum, þar sem hefðbundið eftirlit sé ekki til staðar á innri landamærum Schengen.

Tryggja öryggi landsmanna

Um það segir dómsmálaráðherrann að sín stefna sé að auka og tryggja öryggi landsmanna með sem öflugustum hætti. „Til að tryggja það markmið þurfum við m.a. að styrkja lögregluna og auka heimildir henni til handa. Þá er eitt mikilvægasta úrræði stjórnvalda til að hafa eftirlit með landamærum farþegaupplýsingar frá flugfélögum auk þess að fullnýta þau úrræði sem Schengen-samstarfið býður upp á,“ segir hún og kveðst sammála því að ekki sé gott að ástandið sé með þessum hætti.

„Samkvæmt nýjum heildarlögum um landamæri er flugfélögum skylt að afhenda lögreglu upplýsingar um farþega og áhöfn. Nær öll flugfélög afhenda þessi gögn að beiðni lögregluyfirvalda. Þessar upplýsingar ná til nánast allra þeirra farþega sem hingað koma til landsins. Á því eru þó undantekningar en við erum ekki eina landið sem er í þeirri stöðu. Við vinnum til dæmis með Norðmönnum sem eru í svipaðri stöðu,“ segir Guðrún.

Spurð hvort hún taki undir áhyggjur lögreglustjórans á Suðurnesjum svarar hún því til að hafa verði í huga að Evrópuþjóðir séu með opin landamæri sín á milli. „Og þar er einfaldlega ekki möguleg sú krafa að yfirvöld viti um hvern einasta einstakling sem ferðast á milli landa. Við erum í sérstakri stöðu, um 95% af þeim sem fara yfir landamæri okkar gera það með viðkomu á Keflavíkurflugvelli. Það er hins vegar ljóst að við það verður ekki unað við að félögin afhendi ekki þær upplýsingar sem lögregla fer fram á samkvæmt íslenskum lögum. Þótt það sé heimilt að beita sektum þá er það ekki ákjósanlegt fyrsta úrræði gagnvart þessum félögum,“ segir Guðrún.

Úrræðin eru í tollalögum

„Ég er sammála því að það er ekki gott að þetta sé svona. Samkvæmt lögum um landamæri sem heyra undir dómsmálaráðuneytið er það alveg skýrt að þeir sem standa fyrir flutningum á frakt og fólki eigi að gefa þær upplýsingar sem lögregla og tollur þurfa að hafa. Sambærilegar heimildir eru í tollalögum sem heyra undir fjármálaráðuneytið. Þetta er til að tryggja að lögregla og tollayfirvöld geti fylgst með flutningi yfir landamæri. Það er þarna sem úrræðin liggja,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.

Um hvort til greina komi að svipta þau flugfélög lendingarleyfi sem afhenda ekki farþegalista segir hann: „Það er einfaldlega þannig að ef flugfélag flýgur hingað og er með flugrekstrarleyfi þá eru önnur lög og vægari til að taka á því. Það væri umtalsvert inngrip að taka flugrekstrarleyfi af fyrirtækjum á þessum grundvelli þegar menn hafa ekki beitt vægari úrræðum sem eru í lögum.“

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrvals-Útsýnar:

Stjórnvöld verða að gyrða sig í brók

„Okkar flugfélag hefur gert allt sem í valdi þess er til að verða við óskum um að afhenda farþegaupplýsingar, en til að svo megi verða þurfa íslensk yfirvöld að klára samning svo félagið geti afhent persónuupplýsingar,“ segir Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrvals-Útsýnar, en flugfélagið NEOS er í leiguflugi á vegum ferðaskrifstofunnar til Íslands og frá.

Neos er eitt þeirra tíu flugfélaga sem afhenda ekki íslenskum yfirvöldum upplýsingar um þá flugfarþega sem koma hingað til lands eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær.

Þórunn segir að reglur Evrópusambandsins heimili ekki að persónuupplýsingum sé miðlað til þriðja aðila nema gerður hafi verið sérstakur samningur þar um. Þar á Þórunn við reglur um nafnaskrár farþega, svokallaðar PNR-reglur [e. Passenger Name Records]. Segir hún að NEOS hafi afhent gögn til júlí 2022, en þá hafi Evrópusambandið bannað miðlun slíkra trúnaðaruppýsinga vegna skorts á téðum samningi.

„Evrópusambandið bannar flugfélögunum að afhenda umræddar persónuupplýsingar nema umræddur samningur verði gerður,“ segir Þórunn og nefnir einnig að forsvarsmenn NEOS-flugfélagsins hafi margoft bent íslenskum stjórnvöldum á nauðsyn þess að undirrita áðurnefndan PNR-samning.

„Stjórnvöld verða að gyrða sig í brók og skrifa undir saminginn svo unnt sé að skila gögnunum til yfirvalda,“ segir hún.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson