Matthildur Jóhanna Jónsdóttir fæddist á Akureyri 31. október 1933. Hún lést á Hrafnistu Hafnarfirði 10. janúar 2024.

Foreldrar Matthildar voru Sigurlaug Jónsdóttir, f. 26. febrúar 1912, d. 14. október 1996, og Jón Pétursson, f. 8. júní 1912, d. 5. nóvember 2001. Stjúpfaðir Matthildar var Magnús Lúðvíksson, f. 5. júlí 1904, d. 12. maí 1970.

Sammæðra systkini hennar eru: Svanhvít Magnúsdóttir, f. 1940, Hulda Magnúsdóttir, f. 1941, Lúðvík, f. 1943, Jón Matthías, f. 1944, Erla, f. 1948, Hólmgrímur, f. 1950, d. 1951.

Samfeðra systkin eru: Pétur, f. 1943, Fróði, f. 1953, og Sigurður, f. 1961.

Maki Matthildar frá því 31. október 1964 var Halldór Pálsson rafvirki, f. 24. nóvember 1930, d. 14. ágúst 2021. Hann var sonur Sigríðar Jennýjar Halldórsdóttur, f. 1899, d. 1983, og Páls Böðvarssonar, f. 1892, d. 1956. Hann átti einn bróður, Ólaf Pálsson, f. 1929, d. 2018.

Börn Matthildar og Halldórs eru: 1) Ólafur Ragnar, f. 7. september 1965, maki Sigurveig Sigurdórsdóttir, f. 19. nóvember 1970. Börn þeirra eru: a) Ragnar Páll, f. 9. september 1994, maki Kelly Taft, f. 30. apríl 1997, og b) Elísabet Ósk, f. 26. júní 2001.

2) Sigríður Jenný, f. 11. ágúst 1967, maki Guðjón Steinar Sverrisson, f. 29. nóvember 1968. Börn þeirra eru: a) Halldór, f. 28. desember 1990, maki Sissel Ranheim Sæther, f. 21. september 1982. Halldór á tvö börn. b) Steinunn, f. 24. nóvember 1994, maki Aron Tjörvi Gunnlaugsson, f. 9. janúar 1996. Þau eiga eina dóttur. c) Hildur, f. 10. október 2001, maki Bjarki Svavarsson, f. 11. maí 1999.

Fyrir átti Matthildur börnin: 3) Margréti Sigurlaugu Jónsdóttur, f. 31. október 1953. Dætur hennar eru: a) Svanhildur Dóra Björgvinsdóttir, f. 9. október 1976, maki Auður Ýr Guðjónsdóttir, f. 29. júlí 1988. Svanhildur á þrjá syni. b) Eva Hrönn Morales, f. 4. júní 1980. Hún á eina dóttur. c) Anna Teresa Morales, f. 29. maí 1985, maki Robert Bartoszewicz, f. 30. júlí 1996. Anna á tvö börn.

4) Grétu Kjartansdóttur, f. 7. nóvember 1958. Kjörforeldrar hennar voru Kjartan Þorsteinsson, f. 1910, látinn 1970, og Maren Kristín Þorsteinsson, f. 1919, d. 2021. Maki Grétu er Matthías Hannes Guðmundsson, f. 6. maí 1958. Börn þeirra eru: a) Kjartan Hrafn, f. 29. nóvember 1984, maki Sigurbjörg Eyjólfsdóttir, f. 14. júlí 1984. Þau eiga tvo syni. b) Kristín Ásta, f. 19. júlí 1988, maki Jón Þorgrímur Stefánsson, f. 21. maí 1975. Kristín Ásta á tvö börn.

5) Birgi Svan Eiríksson, f. 3. október 1960. Hans börn eru: a) Alma, f. 10. janúar 1988. Hún á einn son. b) Eiríkur Hrannar, f. 2. febrúar 1993, maki Kristrún Birgitta Hreinsdóttir, f. 18. ágúst 1982. Þau eiga tvö börn.

Matthildur átti 16 langömmubörn.

Útför Matthildar fór fram í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 23. janúar 2024.

Elsku mamma mín hefur nú kvatt okkur. Ég var alls ekki tilbúin að kveðja hana en hún var orðin þreytt. Lífið hennar var alls ekki auðvelt framan af og ekki fæddist hún með silfurskeið í munni en aldrei kvartaði hún eða talaði um það. Hún eignaðist tvær dætur sem hún aðstæðna sinnar vegna gat ekki haft og það markaði hana alla tíð. Eldri son sinn, Birgi Svan, þurfti hún að setja í fóstur í skamman tíma til þeirra Ellenar Marie og Jóhanns. Með þeim myndaðist vinátta sem aldrei bar skugga á og studdu þau mömmu á erfiðum tímum. Eftir að mamma giftist pabba tók hún Birgi til sín og pabba og ólst hann upp með mér og Ólafi bróður mínum.

Mamma var heimavinnandi húsmóðir meðan við systkinin voru yngri og var ég orðin 14 ára þegar hún fór út á vinnumarkaðinn aftur. Þá fór hún að vinna í þvottahúsinu á St. Jósefsspítala og vann þar í hópi góðra kvenna þar til hún hætti í byrjun árs 2002 vegna aldurs.

Mamma og pabbi keyptu sér lítinn bústað árið 1993 á Þingvöllum, í Miðfellslandi. Ég og Guðjón keyptum hluta í bústaðnum með þeim og vorum við þar saman flestallar helgar á sumrin að stækka húsið og rækta lóðina. Við Guðjón keyptum síðan bústaðinn af mömmu og pabba og héldum áfram að rækta lóðina og hlúa að húsinu. Við mamma fórum alltaf eina ferð á sumri í bústaðinn eftir að þau pabbi seldu okkur hann, svo hún gæti fylgst með trjánum sem hún hafði gróðursett. Við fórum í síðustu ferðina okkar þangað í júlí sl.

Rætur mömmu voru á Akureyri og þar átti hún móður, systkini og dóttur. Það var því farið á hverju sumri til Akureyrar í heimsókn. Alltaf var tekið vel á móti okkur og mamma talaði um það alla tíð með stolti að hún væri frá Akureyri.

Mamma var mikil amma og eiga börnin mín öll bara góðar minningar um ömmu sína. Hún vildi allt fyrir þau gera og var alltaf til í að fá þau í heimsókn og leyfa þeim að gista. Hún fylgdist vel með hvernig þeim gekk í skólanum og íþróttum og var dugleg að hrósa þeim.

Mamma datt í byrjun ágúst og mjaðmabrotnaði. Eftir það var hún bundin við hjólastól en við fórum samt út í göngu saman þegar vel viðraði eins og við höfðum gert fyrir fallið hennar. Fannst henni reyndar miður að komast ekki lengur upp í kirkjugarð til að vitja pabba.

Við systkinin ásamt okkar fjölskyldu héldum afmælisboð fyrir hana í lok október þegar hún fagnaði 90 ára afmæli sínu. Fannst henni sá dagur virkilega skemmtilegur og talaði mikið um það hvað það hefði verið gaman að hitta fólkið sitt.

Um og eftir jól fór að draga úr krafti hjá henni sem endaði með því að hún kvaddi okkur 10. janúar. Vil ég þakka starfsfólki Bylgjuhrauns kærlega fyrir þeirra umhyggju við mömmu. Nú breytist veruleikinn hjá mér þar sem ég hafði farið til hennar nánast daglega í mörg ár til að athuga hvort ekki væri allt í lagi hjá henni og pabba meðan hann var á lífi og síðan mömmu eftir að pabbi lést 2021.

Elsku mamma, takk fyrir lífið sem þú gafst mér. Takk fyrir ástina og umhyggjuna. Takk fyrir alla hjálpina sem þú veittir mér endalaust. Ég elska þig.

Þín dóttir,

Sigríður Jenny.

Elsku amma Matta.

Við systkinin viljum minnast þín með nokkrum orðum og byrja á að segja þér hvað við vorum þakklát að þú varst amma okkar. Þú varst risastór karakter, ótrúlega fyndin, stríðin og skemmtileg. Yfirleitt þegar við systkinin vorum öll saman með þér þá fórstu í einhvern gír og reyttir af þér brandarana. Þú varst aldrei með neinn filter á þér og sagðir alltaf nákvæmlega það sem þér fannst. Þú varst alltaf svo stolt af okkur barnabörnunum og hafðir svo mikinn áhuga á öllu sem við gerðum, hvort sem það var handboltinn, skólinn eða vinna. Þú varst líka svo stolt af langömmubörnunum þínum, Magnúsi, Mathilde og Júlíönu og það lifnaði alltaf yfir þér þegar þau komu í heimsókn. Við höfum líklegast öll erft forvitnina frá þér en þú máttir ekki missa af neinu og það klikkaði ekki þegar maður kom í heimsókn til þín að þú sast í glugganum og fylgdist með öllu sem fór fram úti og vissir nákvæmlega hver ætti hvaða bíl sem keyrði framhjá.

Þú elskaðir að fara með okkur á rúntinn um bæinn, keyra niður Köldukinnina þar sem þú áttir heima eða keyra Strandgötuna og skoða bæinn. Oftar en ekki baðstu okkur um að stoppa og kaupa ís eða kíkja í Dalakofann, þar sem þú elskaðir að skoða og máta föt. Þú varst algjör skvísa og fórst ekki út úr húsi án þess að greiða þér og setja á þig varalit.

Þegar við komum í heimsókn til þín og afa var alltaf hægt að treysta á að fá ís eða pizzu úr frystinum og þegar við vorum orðin eldri þá fannst þér aldrei leiðinlegt þegar við stungum upp á því að fá okkur KFC, því þú elskaðir að fá þér kjúkling, franskar og hrásalat með okkur.

Elsku amma Matta okkar, mikið eigum við eftir að sakna þín en núna ertu komin til afa í sumarlandið og þið getið loksins verið saman aftur. Takk fyrir allt elsku amma, við elskum þig.

Þín barnabörn,

Halldór, Steinunn og Hildur.