EM 2024
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Íslenska karlalandsliðið í handknattleik náði sér aldrei almennilega á strik á nýliðnu Evrópumeistaramóti sem fram fór í Þýskalandi.
Ísland lék í C-riðli keppninnar sem leikinn var í Ólympíuhöllinni í München ásamt Ungverjalandi, Serbíu og Svartfjallalandi.
Íslenska liðið slapp svo sannarlega með skrekkinn í fyrsta leik gegn Serbíu þar sem leiknum lauk með jafntefli, 27:27, og Sigvaldi Björn Guðjónsson jafnaði metin á lokamínútunni.
Fyrsti sigur Íslands kom gegn Svartfjallalandi og þar skoraði Gísli Þorgeir Kristjánsson sigurmarkið þegar 40 sekúndur voru til leiksloka eftir kaflaskiptan leik, lokatölur 31:30.
Lokaleikur liðsins í riðlakeppninni var gegn Ungverjalandi þar sem tvö stig í milliriðli voru í húfi. Eftir jafnan fyrri hálfleik stakk Ungverjaland af í upphafi síðari hálfleiks og fagnaði átta marka sigri, 33:25.
Fyrsti leikur Íslands í milliriðlakeppninni var gegn Alfreð Gíslasyni og lærisveinum hans í Þýskalandi þar sem Þjóðverjar fögnuðu sigri, 26:24, eftir mjög jafnan og spennandi leik.
Næst voru það Frakkar og þar mætti Ísland ofjörlum sínum en Frakkar fögnuðu öruggum sigri, 39:32.
Fyrsti sigur Íslands í milliriðlakeppninni kom svo gegn Króatíu, 35:30, og var þetta jafnframt fyrsti sigur Íslands gegn Króatíu á stórmóti. Síðari hálfleikurinn var langbesti hálfleikur Íslands á mótinu en liðið vann hann 19:12.
Íslenska liðið mætti svo Austurríki í lokaleik sínum en liðið þurfti fimm marka sigur til þess að halda möguleikum sínum á lífi um sæti í undankeppni Ólympíuleikanna. Ísland leiddi 14:8 í hálfleik en liðið skoraði eitt mark á fyrstu fjórtán mínútum síðari hálfleiks og fagnaði naumum sigri, 26:24.
Yfirlýst markmið liðsins fyrir mótið var að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna en tveggja marka sigur gegn Austurríki þýddi að Ungverjaland þurfti að taka stig af Frakklandi í næsta leik dagsins til þess að halda ólympíudraumi Íslendinga á lífi. Frakkar fögnuði þriggja marka sigri gegn Ungverjum, 35:32, og draumurinn var þar með úr sögunni.
Slæm nýting Íslendinganna
Tilfinningin eftir mótið er vægast sagt skrítin enda býr ótrúlega margt í íslenska liðinu og lykilmenn liðsins eru allir í stórum hlutverkum hjá sínum félagsliðum sem eru mörg hver með þeim betri í heiminum.
Íslenska liðið átti einn hálflleik á öllu mótinu þar sem allt small og það var síðari hálfleikurinn gegn Króatíu.
Það var í raun eini hálfleikurinn þar sem allir leikmenn liðsins spiluðu á pari og sýndu góða frammistöðu, allir sem einn.
Það sama verður ekki sagt um hina leikina, því miður, og tilfinningin er sú að margir leikmenn liðsins hafi og eigi mjög mikið inni eftir Evrópumótið.
Aron og Viggó bestir
Aron Pálmarsson og Viggó Kristjánsson voru jafnbestu leikmenn Íslands á mótinu en Aron skoraði 25 mörk úr 42 skotum, var með 60% skotnýtingu ásamt því að gefa 21 stoðsendingu og draga vagninn þegar mest á reyndi með mikilvægum mörkum og mikilvægum augnablikum í leikjunum. Hans besta stórmót í langan tíma. Viggó skoraði 29 mörk á mótinu og var markahæsti leikmaður liðsins með 69% skotnýtingu. Hann gaf líka 13 stoðsendingar, það næstmesta á eftir Aroni.
Hornamenn Íslands, sem eru allir í heimsklassa, náðu sér ekki á strik en Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði átta mörk úr átta skotum í lokaleiknum gegn Austurríki og endaði með 68% skotnýtingu. Bjarki Már Elísson var með 58% skotnýtingu á mótinu, Stiven Tobar Valencia var með 17% skotnýtingu og Óðinn Þór Ríkharðsson endaði með 65% skotnýtingu eftir að hafa skorað eitt mark í fyrstu fimm leikjunum, úr þrettán skotum.
Illa farið með dauðafærin
Illa farið með dauðafærin og slæm vítanýting. Þetta var saga íslenska liðsins allt mótið en Ómar Ingi Magnússon, sem alla jafna er mjög örugg vítaskytta, skoraði úr átta vítum af fimmtán, Bjarki Már skoraði úr tveimur vítum af fjórum og Viggó skoraði úr 10 vítum af 13.
Þetta var ekki mótið hans Ómars Inga sem átti einn góðan leik á mótinu, gegn Svartfjallalandi, en annars náði hann sér engan veginn á strik.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var loksins að finna taktinn þegar hann meiddist gegn Króatíu en hann er að koma til baka eftir að hafa farið úr axlarlið í úrslitum Meistaradeildarinnar síðasta sumar og ef til vill treysti landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson of mikið á hann.
Viktor Gísli Hallgrímsson var með 31% markvörslu og Björgvin Páll Gústavsson var með 26% markvörslu en Björgvin Páll skoraði eitt mark, úr einu skoti, og var með 100% skotnýtingu, sá eini í liðinu. Næsti maður á eftir honum var Viggó Kristjánsson.
Það segir sig sjálft að það er erfitt að vinna handboltaleiki þegar nýtingin er ekki betri en þetta.
Íslenska liðið skapaði sér hins vegar urmul færa, þótt sóknarleikurinn hafi verið stirður til að byrja með, en dauðafærin og vítanýtingin var akkilesarhæll liðsins í ár.
Náðu ekki vopnum sínum
Ásamt því að ná aldrei vopnum sínum almennilega var íslenska liðið líka of lengi í gang á mótinu og það er einfaldlega ekki í boði þegar komið er á stórmót þar sem er leikið þétt.
Stuðningurinn og stemningin í kringum liðið voru mikil og Íslendingar áttu höllina í München þar sem þeir voru alltaf í miklum meirihluta.
Það hefur svo sannarlega færst í vöxt að Íslendingar flykkist á stórmót til þess að fylgja liðinu eftir en um 5.000 Íslendingar voru mættir til München þegar mest lá við.
Það er búið að tala og fjalla mikið um núverandi leikmannahóp liðsins og kröfurnar eru miklar, kannski of miklar?
Það setur enginn meiri pressu á liðið en leikmenn liðsins og þetta var líka fyrsta stórmót þjálfarans Snorra Steins Guðjónssonar. Það hefur eflaust enginn lært meira á þessu móti en hann.
Jákvæðu fréttirnar fyrir landsliðið okkar eru þær að liðið endaði í 10. sæti mótsins, þrátt fyrir að eiga bara einn frábæran hálfleik, og með sigri á Þjóðverjum hefði Ísland leikið til undanúrslita á mótinu, ef horft er til þess hvernig milliriðillinn spilaðist.
Það mætti því segja að liðið hafi verið í dauðafæri til þess að leika um verðlaun en það er stutt á milli feigs og ófeigs í handbolta og liðið náði ekki markmiðum sínum þegar allt kemur til alls.
Það er samt engin ástæða til þess að hætta að tala handboltalandslið okkar upp, það er bara það gott, og sýndi það svo sannarlega með frábærum köflum í Þýskalandi, sem voru bara því miður allt of fáir, og því fór sem fór.