Látlaust „Árstíðirnar var þétt og sterkt verk á hógværan og látlausan hátt. Það er svona verk sem mann langar til að sjá helst strax aftur,“ segir í rýni.
Látlaust „Árstíðirnar var þétt og sterkt verk á hógværan og látlausan hátt. Það er svona verk sem mann langar til að sjá helst strax aftur,“ segir í rýni. — Ljósmynd/Axel Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarleikhúsið Árstíðirnar ★★★½· Höfundar: Valgerður Rúnarsdóttir og Snædís Lilja Ingadóttir. Tónlist og hljóðmynd: Áskell Harðarson. Sviðsmynd: Rebekka Austman Ingimundardóttir. Ljós: Katerina Blahutova. Búningar: Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir. Flytjendur: Árni Pétur Guðjónsson, Harpa Arnardóttir, Eydís Rose Vilmundardóttir, Inga Maren Rúnarsdóttir, Sarah Fisher Luckow, Shota Inoue, Lea Alexandra Gunnarsdóttir, Sara Lind Guðnadóttir, Kría Valgerður Vignisdóttir og Lára Ísadóra Hafsteinsdóttir, Bergþóra Sól Elliðadóttir, Diljá Þorbjargardóttir, Emma Eyþórsdóttir, Hafey Lipka Þormarsdóttir, Hanna Hulda Hafþórsdóttir Hekla Ýr Þorsteinsdóttir, Kristína Rannveig Jóhannsdóttir, Lára Stefanía Guðnadóttir, Melkorka Embla Hjartardóttir, Oliver Alí Magnússon, Steinunn Þórðardóttir og Sunna Mist Helgadóttir. Vala Rúnarsdóttir og Snædís Lilja Ingadóttir í samstarfi við Íslenska dansflokkinn og MurMur Productions frumsýndu á Stóra sviði Borgarleikhússins laugardaginn 13. janúar 2024.

Dans

Sesselja G.

Magnúsdóttir

Dansverkið Árstíðirnar byrjaði fallega þar sem skuggamynd tveggja stúlkna birtist á gagnsæju tjaldi fremst á Stóra sviði Borgarleikhússins. Stúlkurnar skoppuðu hlæjandi og skríkjandi um sviðið og léku sér að því að skapa nýjar og skemmtilegar skuggamyndir með líkömum sínum og höndum. Shota Inoue og Eydís Rósa Vilmundardóttir tóku svo við með hugljúfan dúett áður en sviðið fylltist af ungu fólki, meðlimum Forward Youth Company, með risastórar blöðrur. Þau héldu leik áfram, nú með blöðrunum, fyrst hægt og af ró en smátt og smátt af meiri ákefð og gleði. Blöðrurnar svifu um loftin en voru einnig nýttar til að mynda falleg mynstur kyrrstæð eða á hreyfingu svona eins og í kínverskum drekadansi. Lýsingin sem lék stórt hlutverk í öllu verkinu var sérstaklega áhugaverð í þessari senu því að hún gaf blöðrunum líf og liti á einkar fallegan hátt. Leikurinn með blöðrurnar og ekki síst lífið og gleðin sem einkenndi atriðið kom mjög skemmtilega út. Punkturinn yfir iið var svo innkoma Ingu Marenar Rúnarsdóttur dansara í Íslenska dansflokknum en hreyfingar hennar, markvissari og þyngri en hinna, og notkun hennar á gólfinu sem dansfélaga skapaði spennu og mótvægi við annars létt og leikandi andrúmsloftið. Inga Maren virðist verða eins og gott rauðvín, bara betri með árunum. Það var unun að horfa á hana dansa. Blöðrurnar tóku svo lokahreyfingar kaflans baðaðar marglitum ljósum, einkar vel til fundið.

Haust og svo kom vetur

Í næsta kafla yfirgáfu blöðrurnar sviðið en í staðinn komu allir flytjendur verksins inn á fyrir utan litlu stúlkurnar og komu sér fyrir í einum hnapp öðrum megin á sviðinu. Ný árstíð hófst, hraðari og kröftugri. Hópurinn bærðist og fauk til og frá eins og lauf í vindi en öðru hvoru fóru einstaklingar eða pör út úr hópnum og dönsuðu sinn dans en sameinuðust svo hinum á ný. Það voru oftast dansarar Íslenska dansflokksins eða nemar frá Dansdeild Listaháskóla Íslands sem fengu að njóta sín í þessum litlu sólóum og um leið áhorfendur að njóta hæfileika þeirra. Um tíma leystist hópurinn upp, sviðið fór að snúast, dansararnir að hlaupa í hringi, sameinast og sundrast í pör eða litla hópa, orkan jókst, gleði tók völd og áhorfendur hrifust með. Það var ekki síst gefandi að sjá svona marga dansara á sviði í einu, bara fjöldinn gaf verkinu vigt. Leikararnir Árni Pétur Guðjónsson og Harpa Arnardóttir aldursforsetar sýningarinnar gáfu þessum hluta senunnar skemmtilegan blæ. Hæglátari og sjarmerandi hreyfingar þeirra voru krydd í þann hluta senunnar sem mest gekk á og lítill dans sem Árni Pétur bauð Oliver Alí Magnússyni upp í greip augað. Sviðssjarma Árna Péturs og Hörpu, sem er mikill, hefði mátt nýta á markvissari hátt en ekki bara blanda þeim inn í dansarahópinn því þó að dans sé þeim greinilega í blóð borinn þá liggur styrkur þeirra og þjálfun ekki þar. Þau vantaði fleiri tækifæri til að skína á eigin forsendum eins og litlu stúlkurnar fengu. Þáttur þeirra í verkinu var ótrúlega fallegur og þjónaði sýningunni fullkomlega vegna þess að þær hvíldu í eigin styrk. Rýnanda þótti hæfileikar Shota Inoue, eins sterkasta dansara Dansflokksins, líka vannýttir í þessum kafla. Dúett hans og Hörpu kom ágætlega út en vitandi hvað í Shota býr þyrsti rýnanda í að sjá hann mæta Ingu Maren í þess konar dúett þar sem þau fengju að sprengja upp senuna eitt augnablik og hverfa svo inn í fjöldann. Rétt eins og innkoma Ingu Marenar í atriðinu á undan skapaði spennu og dýpt þá myndu þannig sprengjur gera góða senu enn betri.

Veturinn kom með snjó og kulda og snjóhengju sem að lokum féll yfir allt sem hreyfðist á sviðinu. Senan var falleg eins og froststillur. Það var töfrandi hvernig lýsingin breytti stemningunni á sviðinu þannig að ekki var um að villast hvaða árstíð hafði tekið yfir. Yfir fyrrihluta þessa kafla hvíldi ró en þó ógn sem raungerðist í flóðinu. Í kjölfarið var það risastór koddi sem átti sviðið og náði nánast yfir allt gólfið. Dansararnir hurfu á bak við hann þar sem þeir framkölluðu hreyfingar hans. Áhugavert að leyfa hlutgerðri hreyfingu að lifa þó nokkurn tíma án sýnilegrar mannlegrar nærveru. Undan koddanum virtist svo lífið fæðast á nýjan leik. Árni Pétur og Harpa birtust með dúettinn sinn, einkar fallegt, og Inga Maren þaut undan honum og tók að glíma við hann. Birting Ingu Marenar var ekki síst óvænt og spennandi og mann langaði að sjá meira svoleiðis. Hringrás árstíðanna hófst svo á ný þegar litlu stúlkurnar mættu á sviðið og héldu áfram að skapa skuggamyndir, nú á hvítum fleti koddans.

Þétt framvinda

Árstíðirnar var þétt og sterkt verk á hógværan og látlausan hátt. Það er svona verk sem mann langar til að sjá helst strax aftur. Lýsingin var eftirtektarverð en hún var notuð til að skapa stemninguna sem einkenndi hvern kafla. Með því að hafa bæði sviðsmynd og búninga fallega hvíta var hægt að beita henni á einkar áhrifaríkan hátt. Sviðsmyndin og búningarnar voru einföld en þjónuðu hlutverki sínu mjög vel. Búningarnir í vetrinum voru t.d. sérstaklega vel til fundnir og koddinn sem byrjaði sem snjóhengja verulega flottur. Tónlist Áskels Harðarsonar var fáguð og faglega unnin. Árstíðir Vivaldis voru notaðar á skemmtilegan hátt. Þær vöktu hugrenningatengsl áhorfenda og gáfu tónlistinni ákveðinn blæ án þess að taka yfir hljóðheiminn í heild.