Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, og HB Heiði ehf., sem er eigandi jarðarinnar Heiðar í Skaftárhreppi, hafa gert með sér samning um samstarf um verndun Fjaðrárgljúfurs og uppbyggingu innviða þar.
Landeigandinn tekur þar með við verkefnum sem varða verndun náttúru og landvörslu á svæðinu, ásamt umsjón, viðhaldi og rekstri innviða og þjónustu. Auk þess mun hann byggja upp ýmsa þjónustu við ferðamenn sem heimsækja Fjaðrárgljúfur, t.d. snyrtingar og gestaaðstöðu, og innheimta bílastæðagjöld til að standa straum af uppbyggingu og rekstri. Samningurinn er nánari útfærsla á samkomulagi sem gert var á milli þessara aðila árið 2022 þegar HB Heiði eignaðist jörðina sem fól í sér að ráðuneytið og landeigendur muni í sameiningu vinna að verndun og friðlýsingu Fjaðrárgljúfurs.
Í tilkynningu segir að vinsældir svæðisins séu miklar og hafi aukist mjög á síðari árum. Fjöldi þeirra sem sæki staðinn heim hafi jafnvel leitt til þess að loka hafi þurft svæðinu tímabundið vegna ágangs. Mikil þörf sé á uppbyggingu innviða til verndar náttúru og til að auka öryggi.