Þörf vinna er hafin í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra frá rannsókn sem hann lét gera á svokallaðri gullhúðun frumvarpa á vegum ráðuneytisins á undanförnum árum. Niðurstaðan er sú að gullhúðun var beitt í 11 stjórnarfrumvörpum af 27 á tímabilinu 2010 til 2022, sem gerði regluverkið meira íþyngjandi en þörf var á. Þetta vandamál fer síst minnkandi, því að á árunum 2019-2022 var gullhúðun beitt í helmingi tilvika.

Guðlaugur nefnir sem dæmi um þessa gullhúðun að í tilskipun Evrópusambandsins sé þess krafist að lagning leiðslna í jörð skuli fara í umhverfismat séu þær lengri en 40 kílómetrar en hér hafi verið sett í lög að miða skyldi við einn kílómetra. Með þessu er verið að leggja aukinn kostnað á framkvæmdir hér á landi miðað við samanburðarríki. Kostnaðinn ber almenningur.

Guðlaugur segir að ekki liggi fyrir hver kostnaðurinn við gullhúðunina í ráðuneyti hans hafi verið, enda eflaust erfitt og nánast ómögulegt að meta slíkt af nokkurri nákvæmni. Það jákvæða er hins vegar að hann segist ætla að „afhúða regluverkið“ og að fyrst verði farið í endurskoðun á löggjöf um mat á umhverfisáhrifum.

Miklu skiptir fyrir samkeppnishæfni Íslands og þar með lífskjör hér á landi að ráðist verði í slíka afhúðun á þeirri lagasetningu sem þegar hefur tekið gildi en vitaskuld einnig að þess verði vandlega gætt að lauma ekki nýjum íþyngjandi séríslenskum reglum inn í þær tilskipanir sem hér eftir verða leiddar inn í íslensk lög.

Og þetta þarf að gera í öllum ráðuneytum og ætti að vera ákvörðun ríkisstjórnar í heild sinni og sameiginlegt átak ráðherra hennar. Verði það ekki gert situr íslenskur almenningur uppi með óþarfa kostnað á flestum sviðum um langa framtíð.