Kristín Björg Helgadóttir fæddist á Sauðárkróki 26. desember 1946. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki 13. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Sigríður Ögmundsdóttir, f. á Sauðárkróki 2. maí 1921, d. á Sauðárkróki 19. ágúst 2000, og Helgi Einarsson, f. á Akranesi 2. maí 1912, d. á Sauðárkróki 9. janúar 1964. Systkini Kristínar voru: 1) Ögmundur f. 28. júlí 1944, d. 8. mars 2006, eiginkona hans var Ragna Ólafsdóttir, f. 7. maí 1944, d. 10. ágúst 2011. 2) Halldóra, f. 25. nóvember 1945, eiginmaður hennar er Ingimar Pálsson. 3) Einar, f. 3. desember 1949, eiginkona hans var Brynja Jósefsdóttir, f. 16. júní 1948, d. 6. apríl 2023. 4) Magnús Halldór, f. 14. janúar 1962, eiginkona hans er Dísa María Egilsdóttir.

Hinn 31. desember 1969 giftist Kristín Ingimar Jóhannssyni, f. 9. október 1949 á Ljósalandi í Lýtingsstaðahreppi. Foreldrar hans voru María Benediktsdóttir, f. 12. maí 1919, d. 14. janúar 2000, og Jóhann Hjálmarsson, f. 27. nóvember 1919, d. 22. maí 1990. Börn Kristínar og Ingimars eru: 1) Árni, f. 10. desember 1968, d. sama dag. 2) Júlíana, f. 24. mars 1974, sambýlismaður hennar er Jón Brynjar Kristjánsson, f. 5. febrúar 1969. Sonur þeirra er Samúel Ingi, f. 12. júlí 2007. 3) Salóme Sóley, f. 13. nóvember 1986, sambýliskona hennar er Una Sjöfn Liljudóttir, f. 19. september 1977. Sonur Salóme og Báru Kristínar Skúladóttur er Ingimar Skúli, f. 18. janúar 2012.

Kristín ólst upp hjá foreldrum sínum á Sauðárkróki og lauk þar grunnskóla en varð gagnfræðingur frá Akranesi 1964. Hjúkrunarfræðingur frá HSÍ í júní 1970. Starfandi hjúkrunarfræðingur á Blönduósi 1970, síðan á Sauðárkróki frá 1.1. 1971-2012, að undanteknum þremur mánuðum ársins 1973, þá á Sjúkrahúsinu á Blönduósi. Kristín fór ung
að vinna við barnapössun,
þá starfaði hún af og til í Sauðárkróksbakaríi þar sem hún sagðist hafa lært að vinna, þá starfaði hún einnig við
fiskvinnslu, umönnun sjúklinga og fleira. Kristín söng í Kirkjukór Sauðárkrókskirkju í 20 ár og starfaði töluvert með Félagi eldri borgara í Skagafirði.

Útför verður gerð frá Sauðárkrókskirkju í dag, 26. janúar 2024, og hefst athöfnin kl. 14. Streymi:

https://www.mbl.is/go/fcxtp

Til himnaríkis ég sendi

þér kveðju mamma mín.

Á því virðist enginn endi

hve sárt ég sakna þín.

Þú varst mín stoð og styrkur,

þinn kraftur efldi minn hag.

Þú fældir burtu allt myrkur,

með hvatningu sérhvern dag.

Nú tíminn liðið hefur,

en samt ég sakna þín.

Dag hvern þú kraft mér gefur,

ég veit þú gætir mín.

(Steinunn Valdimarsdóttir)

Það var farið að birta af degi, fyrstu sólargeislarnir voru að koma upp í suðrinu og flæddu yfir fjörðinn okkar fagra. Sólin hækkaði hægt og sígandi og varpaði geislum sínum inn um gluggann á sjúkrastofunni, á andlit móður okkar sem stuttu áður hafði kvatt hið jarðneska líf á sjúkrahúsinu sem hún hafði starfað á í rúm fjörutíu ár og alltaf gengið glöð til vinnu. Við systurnar sátum enn við dánarbeð mömmu og sólin lýsti upp andlit hennar. Friður og ró færðist yfir hana og fyllti stofuna. Hún var laus undan illskeyttum þrautum briskrabbameinsins sem hafði hrjáð hana allt síðasta ár og nú var ferðin hafin til sólfagra landsins.

Hún mamma okkar var einstök manneskja. Frá því að við komum í heiminn snerist allt hennar líf um velferð okkar systra og síðan um syni okkar til hinsta dags. Hún var ósérhlífin og tók alltaf þarfir okkar fram yfir sínar. Henni var sérstaklega umhugað um að við borðuðum hollan og góðan mat í æsku og eyddi ómældum tíma í að svo væri. Hún hafði ákveðnar skoðanir og vildi hafa hlutina í föstum skorðum. Allt hirðuleysi, óheiðarleiki og óstundvísi var henni ekki að skapi en alltaf stóð hún þétt við bakið á okkur ef eitthvað bjátaði á. Hún gladdist innilega með okkur, bæði í smáum og stórum sigrum í lífi okkar, og hvatti okkur alltaf áfram. Ávallt var hægt að hringja í hana og fá aðstoð, hvort sem um var að ræða bakstur, matargerð, stafsetningu eða ritgerðir. Hún var einstakur dýravinur og kenndi okkur að umgangast dýr og margar eru minningarnar frá samverustundum með þér og öllum kisunum og hundunum sem við höfum átt. Eftir því sem árin liðu varð okkur alltaf betur og betur ljóst hvað við áttum þér mikið að þakka elsku mamma. Þú varst kletturinn í lífi okkar alla tíð og vísaðir okkur rétta veginn. Fyrir það verðum við ávallt þakklátar. Takk fyrir allt elsku mamma, við munum sakna þín sárt.

Júlíana og
Salóme Sóley.

Nú hefur mín kæra, góða systir kvatt þetta jarðlíf eftir snarpa glímu við illvígan sjúkdóm. Margs er að minnast frá morgni lífs okkar. Við fjögur elstu systkinin ólumst upp saman, fyrst á Aðalgötu 7 á Sauðárkróki eða til 1958. Fluttumst við þá til Akraness í eitt ár og síðan aftur til baka á Krókinn. Fjölskyldan keypti Skógargötu 9 og þar bjuggum við til fullorðinsára. Magnús bróðir okkar fæddist árið 1962 og vorum við hin systkinin þá nær fulltíða. Stína var snemma dugleg og ákveðin, passaði börn og fór í fisk á sumrin. Þröngt var oft á fjölskyldunni þegar búið var á Aðalgötunni og sofið var í kojum. Efst Dóra, síðan Stína og þá ég, örverpið, í neðstu kojunni en bróðir okkar Ögmundur svaf annars staðar í húsinu. Auk pabba og mömmu ólu okkur upp móðurfaðir okkar Ögmundur Magnússon og Magnús Ögmundsson móðurbróðir okkar og mun Stína verða lögð til hinstu hvílu við hlið hans. Þessi stóra fjölskylda var samhent og mikil vinátta ríkti þótt við krakkarnir rifumst stundum eins og kemur fyrir á bestu bæjum. Öll bárum við mikla umhyggju fyrir yngsta bróður okkar Magnúsi og ekki síst Stína. Fékk hann og fjölskylda hans að dvelja hjá henni og hennar góða manni, Ingimar, þegar hann heimsótti Krókinn nú á seinni árum.

Stína tók gagnfræðapróf á Akranesi og bjó þar í skjóli föðurmóður sinnar, Halldóru Helgadóttur, og reyndist okkar fólk á Akranesi henni mjög vel.

Faðir okkar og móðurbróðir höfðu andast á þessum árum og fjölskyldan var í miklum sárum. Eftir gagnfræðapróf, 1964, fór Stína í Hjúkrunarskólann og kynntist um svipað leyti ungum manni, Ingimar Jóhannssyni, sem varð hennar lífsförunautur og lifir hann eiginkonu sína.

Stína og Ingimar eignuðust árið 1968 dreng sem dó samdægurs. Það var mikil sorg og þau syrgðu hann alla tíð. Stína og Ingimar eignuðust tvær dætur, Júlíönu og Salóme Sóleyju. Stína reyndist fólkinu sínu mjög vel, bæði í veikindum og í persónulegu lífi. Hún þótti nærfærin við sjúklinga og var vel liðin af samstarfsfólki sínu. Stína og Ingimar voru einnig miklir dýravinir, áttu ketti og hunda og leið öllum þessum ferfætlingunum vel hjá þessu ágæta fólki.

Þegar móðir okkar systkinanna dó, árið 2000, og Árni seinni maður hennar gat ekki búið einsamall sökum heilsubrests tóku Stína og Ingimar hann til sín og bjó hann hjá þeim þar til hann fór á sjúkrahús.

Ég og mín fjölskylda minnumst fjölmargra ánægjustunda með Stínu, Ingimar og fjölskyldu þeirra.

Vertu svo sæl kvödd elsku systir,

Þinn bróðir,

Einar Helgason.

Ég leit eina lilju í holti,

hún lifði hjá steinum á mel.

Svo blíð og svo björt og svo auðmjúk

en blettinn sinn prýddi hún vel.

Ég veit það er úti um engi

mörg önnur sem glitrar og skín.

Ég þræti ekki um liti né ljóma

en liljan í holti er mín.

(Þorsteinn Gíslason)

Lagið um liljuna ómar mér í eyrum nú þegar Stína frænka mín hefur sofnað í hinsta sinn og minningarnar hrannast upp. Liljan í holti er samofin mörgum gleðistundum bernskunnar á Króknum þegar fjölskyldan kom saman. Gítarspil ómaði þegar Stína, pabbi, systkini þeirra og makar sungu og trölluðu hvítasunnulög æsku sinnar í sambland við Elvis-lögin sem þau kunnu utanbókar. Þegar árin liðu sungum við svo Liljuna saman í gleðinni, í brúðkaupum og í afmælum og enn syngjum við Liljuna en nú í sorginni.

Líf Stínu frænku minnar var samtvinnað gleði og sorg eins og líf okkar flestra. Hún fékk ung sorgina sem förunaut en hún átti svo sannarlega innihaldsríkar gleðistundir. Stína tók börn, sem á þurftu að halda, í fóstur til lengri og skemmri tíma og opnaði þeim hjarta sitt, hún veitti skiptinemum frá fjarlægum löndum heimili og óteljandi dýr, hundar og kettir fengu heimkynni á Suðurgötunni og áttu þar líf sem konungborin væru. Þegar árin færðust yfir ferðaðist Stína um heiminn vítt og breitt, heimsótti lönd og heimsálfur að ógleymdu sjálfu Graceland, höfuðbóli átrúnaðargoðsins Elvis Presleys. Aldrei lét frænka mín hjá líða að sækja veislur og viðburði til að vera með sínu fólki í gleði en ekki síður var hún til staðar í sorg og veikindum. Það gustaði oft af Stínu en öllu þessu lífshlaupi sem og uppeldi dætranna deildi hún með Ingimar sínum. Saman fóru þau í ferðalög og á hestamannamót, fóru í útilegur og göngur um landið þvert og endilangt, áttu gestkvæmt heimili, stóran vinagarð og alltaf var tími og rými fyrir okkur öll.

Í minningahöll bernsku minnar á Sauðárkróki var Stína frænka drottningin sem allt gat og lét alla drauma rætast. Hún var liljan í holtinu og einn minn allra öflugasti liðsmaður jafnt í æsku sem á fullorðinsárum. Hún var mín sterkasta taug við Skagafjörð og í augum drengjanna minna var hún Skagafjörður. Ég mun aldrei geta fullþakkað Stínu allt sem hún gerði fyrir mig og strákana mína og mun sakna hennar um ókomna tíð. Ég votta Ingimar, Júlíönu, Sóleyju og fjölskyldum dýpstu samúð.

Hvíl í friði elsku hjartans frænkan mín og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Soffía Einarsdóttir.

Látin er á Sauðárkróki kær vinkona, Kristín Björg Helgadóttir, eftir erfið veikindi. Náin kynni okkar og hjónanna Stínu og Ingimars hafa staðið í áratugi. Nálgun Stínu við fatlaða dóttur okkar sem og aldraðan frænda í nágrenni hennar við götuna sýndi svo ekki varð um villst að starfsval hennar var ekki tilviljun. Stína sá hvorki fötlun né önnur ytri einkenni fólks sem ráðandi við mat hennar. Ekki heldur eitthvað sem aðrir kalla sérkenni.

Þau fannst Stínu alltaf „flott“. Einungis persónan skipti máli fyrir Stínu.

Þannig kom hún fram við alla, hrein og bein, sannarlega með stórt hjarta. Enginn fór í grafgötur um skoðun Stínu.

Þau Stína og Ingimar hafa séð sorgir og gleði. Afstaða Stínu sem og rólyndi og jafnvægi Ingimars hafa sannarlega gefið mikla gleði, ekki minnst við uppeldi dætranna sem báðar hafa notið eiginleika foreldranna og komist vel til manns, þrátt fyrir mikið andstreymi í upphafi lífs.

Framlag Stínu og Ingimars við frænda, síðustu og erfiðu elliár hans, þegar tilfallandi búseta okkar erlendis kom í veg fyrir nálægð okkar, verður aldrei fullmetið. Ekki síður við okkur á meðan á endurgerð gamla fjölskylduhússins stóð, gisting alltaf sjálfsögð, smíðar, matur og kaffi, raunar allt sem hugsast getur. Fyrir það allt er nú þakkað frá dýpstu hjartarótum.

Blessuð sé minning Kristínar Bjargar Helgadóttur.

Gísli og Sigrún
í Ártúni.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um hana Stínu vinkonu mína er svalur andblær. Kælir mann þegar manni er heitt og hitar manni ef manni er kalt.

Við Stína vissum alltaf hvor af annarri frá frumbernsku. Enda slitum við báðar barnsskónum undir Nöfunum með Tindastól í bakgrunni og eyjarnar í sjónmáli úti á firðinum fagra. Og fallegasta sólsetur sem til er.

En Skaginn átti samt alltaf sinn sess. Ég flutti á Akranes og hún tengdist þangað ættarböndum. Hálfur Skagamaður og hálfur Króksari.

Vinkonur urðum við hins vegar á unglingsárum. Þegar Stína kom í gaggó á Akranesi. Hún hafði afráðið að verða hjúkrunarfræðingur og til að fylgja vinkonu minni þá ákvað ég að gera eins. Hún fylgdi því eftir en ég hætti við. Hún útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur. Og þar var Stína mín á réttri hillu. Líkna og hjálpa.

Þetta voru skemmtilegir tímar. Fullir af fyrirheitum og skemmtilegheitum.

En við áttum okkur líka annað áhugamál. Við ortum ljóð. Ég á fulla stílabók af ljóðum sem við ortum. Við vorum eiginlega talandi skáld. Ég ætlaði alltaf að koma með þessa stílabók norður og við að lesa hana yfir saman en það varð aldrei. Brosa saman eða skellihlæja yfir þessu öllu.

Svo héldum við á vit ævintýranna og enskunnar, það þurftu allir helst að geta bjargað sér á því góða máli. Hún fór til Bandaríkjanna og ég til Englands. Við skrifuðumst á. Og bréfin urðu mörg. Þar gátum við fylgst með hvað á dagana dreif. Margt var öðruvísi en við vorum vanar. Svolítið frábrugðið því sem við áttum að venjast á Króknum eða á Skaganum. Þetta var lærdómsríkt og það var líka gaman.

Stína mín varð snemma á lífsleiðinni fyrir sorg. Ung missti hún föður sinn og hún og Ingimar misstu son. En það var líka gleði, hún hóf búskap á Króknum með honum Ingimar sínum. Svo bættust við tvær dætur, þær Júlíana og Sóley. Síðan barnabörnin, þeir Samúel og Ingimar.

Hún starfaði um tíma á Héraðshælinu á Blönduósi og þá tókst vinskapur með þeim Eyrúnu systur minni og henni Stínu. Báðar sjúkrakonur, eins og dætur mínar sögðu þegar þær voru litlar. En starfsvettvangur Stínu var Sjúkrahúsið á Sauðárkróki.

Það var alltaf gott að koma á Krókinn til Stínu og Ingimars. Alltaf tekið vel á móti manni.

Ég minnist Stínu með þakklæti í huga fyrir allt og allt. Og ég get heyrt hláturinn hennar sem sagði stundum meira en orð. Nú hefur hún haldið á vit nýrra ævintýra en ég veit að hún verður samt alltaf nálæg og fylgist með sínu fólki. Og hjálpar til ef hún getur.

Það er Stína.

Ingimar, Júlíana, Sóley og drengirnir ykkar. Eitt stórt faðmlag.

Anna Jóna Gísladóttir.

Það hefur verið tómlegt í Suðurgötunni undanfarna mánuði. Við höfum verið nágrannar Stínu og Ingimars í yfir 40 ár. Nú söknum við Stínu. Stínu með gömlu Brönu sína í fanginu. Stínu með nýju Brönu á leiðinni í göngu eða yfir til Júlíönu dóttur sinnar. Alltaf glöð, alltaf til í spjall. Samband okkar var með þeim hætti að við vorum ekki „inni á gafli“ hvor hjá annarri þótt við fengjum okkur stundum kaffibolla saman heldur spjölluðum við, gjarnan daglega, á gangstéttinni eða yfir grindverkið hjá þeim. Þetta spjall gat alveg tekið dágóða stund, því þegar við töldum að við værum búnar mundi Stína gjarnan eftir einhverju sem skipti máli og kom á eftir mér yfir götuna, fór svo aftur af stað en sneri við og kom með annað og rauk svo hlæjandi af stað með sínum smitandi hlátri. Hún gaf okkur öllum mikið á sinn einstaka hátt og á sterk ítök í krökkunum okkar. Fylgdist með hvað þau voru að fást við í sínu lífi. Einn þeirra var heimagangur hjá Stínu í mörg ár. Fyrir jólin sendi hún hann gjarnan heim með brúntertu því hún vorkenndi honum því að mamma hans bakaði ekki svoleiðis góðgæti.

Stína og Ingimar voru samhent hjón, ræktuðu garðinn sinn og sinntu sínu. Það var falleg sjón að horfa á eftir þeim ganga út Suðurgötuna, arm í arm, Ingimar á sinn rólega hátt og Stína létt á fæti og í fasi.

Við þökkum Stínu fyrir góða og hressilega samveru öll þessi ár, samskipti sem aldrei bar skugga á og kveðjum hana með hlýju og virðingu. Megi góðar minningar styrkja Ingimar, Júlíönu, Sóleyju og þeirra fjölskyldur.

Ásdís S. Hermannsdóttir.

Við hittumst fyrst í BNA, þá báðar 18 ára au pair. Í rauninni bara algjörar sveitastelpur komnar í nýtt og allt annað umhverfi en við vorum vanar.

Frá þessum tíma er margs að minnast. Við bjuggum í rólegu úthverfi Chicago-borgar og urðum því að vera áræðnar og stundum bara svellkaldar til að gera einfalda hluti, s.s. að taka lestina til Chicago, sem hvorug okkar kunni neitt á. Síðan náttúrlega lærðum við á lestina og gátum spreytt okkur á strætum stórborgarinnar.

Seinna þegar við skemmtum okkur við að rifja upp ævintýrin þá guðuðum við okkur stundum smá og töldumst góðar að hafa sloppið með skrekkinn.

Það samband sem þarna myndaðist fyrir 59 árum þróaðist í einlæga og góða vináttu. Við gátum talað um allt. Sorgir, gleði, hversdagslega smámuni til dýpstu raka tilverunnar.

Stína var létt, skemmtileg, með góðan húmor og gaman var að vera samvistum við hana. Hún var mikil fjölskyldukona, var vakin og sofin yfir sínu fólki öllu og ekki bara fólki heldur dýrum líka og í raun öllu sem lifir. Við vini sína var hún greiðvikin, hjálpleg og umhyggjusöm.

Í gegnum tíðina höfum við stöllur ásamt mökum okkar gert ýmislegt skemmtilegt, bæði utan- og innanlands. Við Örn erum afar þakklát fyrir þær stundir sem við höfum átt með þeim góðu hjónum, Stínu og Ingimar.

Það er sannarlega margs að minnast og því erfitt að kveðja. Við sem eftir sitjum erum á sama tíma bæði sorgmædd og þakklát.

Gulli og perlum að safna sér

sumir endalaust reyna.

Vita ekki að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

(H.F.)

Ingimar, Júlíönu, Sóleyju, ömmustrákunum og öllum öðrum ástvinum vottum við fjölskyldan okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning kærrar vinkonu, Kristínar Helgadóttur.

Rósa Hilmarsdóttir.

Elsku Stína mín á Króknum var ein af þessum merkilegu konum sem gefa meira en fólk hefur hugmynd um. Jarðbundin og praktísk. Hjálpsöm og umhyggjusöm. Ávallt til staðar fyrir dýrin og mannabörnin. Mikið sem ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vera undir kærleiksríkri leiðsögn Stínu sem barn í nokkra mánuði, þrátt fyrir erfiðleikana sem leiddu mig til hennar.

Ég kynntist Stínu sem tímabundinni fósturmóður minni. Níu ára gömul var ég send til þeirra Ingimars yfir heila skólaönn og fékk að kynnast öðru umhverfi en ég var vön. Mér þótti strax gott að vera hjá þeim á Suðurgötunni.

Þeirra rólega umhverfi, með eina „stóra systur“ mér við hlið, ásamt hundi og kisu. veitti mér fljótlega það öryggi sem ég þurfti á að halda. Stína var alltaf að spyrja hvað mig vantaði og hvað mig langaði að gera. Ég var frekar feimin að biðja um og skilja mínar eigin þarfir, en Stína var ekki lengi að hjálpa mér með það og seinna meir sagði hún mér sögur af hvernig ég var farin að biðja um allt milli himins og jarðar og lærði því líka hvar mörkin voru dregin. Allt í góðu jafnvægi þar. Ég lærði ýmislegt gott meðan á dvöl minni stóð.

Samskipti okkar minnkuðu svo aðeins með árunum en ég hugsaði oft til þeirra og vissi inni í mér að ég var ekki gleymd. Með tilkomu samfélagsmiðla hittumst við svo aftur og urðum góðar vinkonur á ný.

Hún fylgdist alltaf vel með mér úr fjarska, eins og verndarengill, ávallt tilbúin að hjálpa ef á þurfti að halda. Ég gleymi aldrei hvernig hún endurtók setninguna „æi, það er svo vont að missa mömmu sína“ þegar móðir mín lést árið 2015. Svo einlæg, sönn og hjartahlý var hún.

Síðastliðið sumar átti ég dýrmæta stund með Stínu uppi á spítala, þar sem þrátt fyrir mikil veikindi hún að sjálfsögðu var með allt á hreinu. Ávallt spennt fyrir lífinu og forvitin að eðlisfari gat hún Stína haldið uppi hverjum samræðunum á eftir öðrum. Ég náði henni líka í eitt gott vídeóspjall bara nokkrum dögum fyrir fráfall hennar. Skyndileg löngun mín til að sýna henni fallega „ömmutréð“ mitt hér nálægt heimili okkar í Kaliforníu varð að ómetanlegu samtali okkar, um meðal annars dvöl hennar í Ameríku forðum daga og söguna af hvernig hún og Ingimar voru gift í messu á gamlárskvöld fyrir 54 árum. Það merkilega gerðist svo að við maðurinn minn völdum einnig gamlársdag fyrir okkar giftingardag 44 árum síðar og eigum við því sameiginlegan merkisdag í minningunni.

Elsku besta Stína mín! Okkar sérstöku tengsl munu alltaf lifa með mér og nú geturðu kannski kíkt á mig af og til af himnum ofan og gefið mér góð ráð um samband hunds og kattar, en það er pínu eins og þú hafir haft einhver áhrif þar hér í byrjun árs rétt fyrir fráfall þitt, er við Erik tókum þá ákvörðun að bæta kisu í litla hópinn okkar.

Ég trúi því að þú sért umkringd fallegum sálum dýra þinna og ástvina. Á góðum stað þar sem sólin skín og fuglarnir syngja.

Elsku Ingimar, Júlíana og Sóley, við Erik sendum ykkur og fjölskyldum ykkar okkar einlægustu samúðarkveðjur.

Minning Stínu vakir með okkur að eilífu. Meira á https://www.mbl.is/andlat

Jóhanna Guðleif
Jóhannesdóttir.

Á leið minni til Sauðárkróks um daginn sá ég þyrpingu hrafna. Hrafnaþing. Mig langaði að staldra við og segja þeim að ef þeir væru svangir væru hjónin á Suðurgötu búin að fara með myndarlegt æti handa þeim upp á Nafir.

Kristín Björg var vinkona mín. Hún hafði ánægju af því að spjalla og blanda geði við fólk. Hún var málkunnug mörgum og heimili hennar var ávallt opið ættingjum og vinum. Þau hjónin voru höfðingjar heim að sækja. Hellt var upp á kaffi og kleinur teknar úr frosti.

Kristín hélt mikið upp á konung rokksins, sjálfan Elvis Presley. Þannig bar litli Skódinn hennar heitið Elvis. Henni til mikillar gleði, og stundum undrunar, flaug Elvis alltaf í gegnum árlega bifreiðaskoðun. Elvis fór víða og lét enga ófærð stöðva sig. Oftar en ekki kom hann við hjá sundlaugum því sundlaugarnar löðuðu okkur Kristínu að sér og gátum við legið langtímum saman í heita pottinum. Að sjálfsögðu stóð alltaf til að dýfa tám í svala sundlaugina en eftir veru okkar í heita pottinum vorum við oft og tíðum svo dasaðar að við áttum fullt í fangi með að koma okkur í gegnum búningsklefann. Í næstu sundferð skyldi svo farið beinustu leið út í laug og látið sem við sæjum ekki gufuna sem ryki upp úr sundlaugarpottunum.

Kristín var trúuð og henni þótti vænt um kirkjuna sína. Þar átti hún átti samfélag.

Ég þakka Drottni mínum fyrir að hafa kynnst Kristínu Björgu. Hún var mér dýrmæt vinkona. Ég þakka fyrir líf hennar og það sem hún af óeigingirni gaf mér af tíma sínum. Ég mun minnast þín þegar hrafna ber við himin.

Hvíldu í friði, kæra vinkona.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Ættingjum Kristínar færi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hulda.

Alltaf sá ég Stínu fyrir mér í líki Beatrix Potter, fjörgamla sitjandi við glugga í risinu á Suðurgötuhúsinu, skrifandi bækur um dýrin sín stór og smá. Markhópurinn börn og fullorðnir. Sú varð ekki raunin, og engar bækur skrifaðar, en frásagnir af dýrunum hennar eru ferskar og fjörugar í minninu. Stína var einstakur dýra- og mannvinur. Hún mátti í rauninni ekkert aumt sjá, alltaf tilbúin að liðsinna og hjálpa, án þess að krefjast endurgjalds eða hróss. Hún var traustur og góður hjúkrunarfræðingur, sem lét sér annt um skjólstæðinga sína. Hún hafði einkunnarorðin „hugur – hjarta – hönd“ að leiðarljósi í störfum sínum og vann þau með sóma. Það var aldrei leiðinlegt að vera nálægt henni í vinnunni, og þá voru sagðar sögur af dýrum, ekki kanínum eins og hjá Beatrix, heldur eðalbornum köttum, sem stundum stálust og urðu kettlingafullir, og í ævintýralegri frásögn skipti ekki máli hvort læða væri eða högni. Hundarnir voru sömuleiðis dekraðir sem prinsar í ævintýrum, glæsilegir og báru af öðrum ferfætlingum.

Stína átti traustan og góðan lífsförunaut, Ingimar, sem ásamt þeirra góðu dætrum Júlíönu og Sóleyju, sem hún var svo stolt af, gerði henni kleift að vera heima svo lengi sem raun varð á.

Við leiðarlok eru þökkuð góð kynni. Síðustu skilaboðin sem milli okkar fóru var „ég er þakklát“. Skildi það svo að hún þakkaði fyrir lífið, fjölskylduna og dýrin sín stór og smá.

Þá trú hef ég að Stína svífi nú um á vængjum Guðs um geim með lítinn dreng í fangi.

Innileg samúð til fjölskyldunnar allrar.

Birgitta.