Ingólfur Kristinn Rögnvaldsson fæddist á Hvammstanga þann 20. maí 1959. Hann lést á heimili sínu 27. desember 2024.

Foreldrar hans voru Sigríður Jóna Ingólfsdóttir og Rögnvaldur Ingvar Helgason. Ingólfur var yngstur fimm systkina og átti tvær eldri hálfsystur. Eftirlifandi systkini eru: Ester, Dagmar, Helgi og Anna Inga. Systur hans Gunnhildur og Valgerður Ásta eru látnar. Systkinin fimm ólust upp á Borðeyri, Hrútafirði.

Fyrri eiginkona Ingólfs er Fríður Norðkvist Gunnarsdóttir. Dætur þeirra eru Sigríður Jóna, gift Gísla Stefánssyni, börn þeirra eru Gunnhildur Hrefna og Arnold Falk. Fyrir átti Sigríður Andreu Önnu Norðkvist Einarsdóttur. Þau búa í Hellatúni í Ásahrepp. Yngri dóttir þeirra er Magnhildur, gift Thisile Mtyeku, synir þeirra eru Ayola Kristinn og Inathi Kristberg. Þau eru búsett í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Seinni eiginkona Ingólfs er Sigurborg Chyntia Karlsdóttir og á hún þrjá syni, Davíð Hinriksson, Andrés Pablo Hinriksson og Karl Júlíus Hinriksson. Karl Júlíus á dótturina Taríel Ísadóru. Ingólfur hafði búið á Hellu í rúm 40 ár og lengst af rekið Trésmiðju Ingólfs.

Útförin fór fram frá Oddakirkju 13. janúar 2023.

Laugardaginn 13. janúar var borinn til grafar yngsti bróðir minn Ingólfur Kristinn Rögnvaldsson. Ekki óraði mig fyrir því þegar ég hitti hann
á Þorláksmessu að það yrði
í síðasta skipti sem við hittumst.

Ég var að verða níu ára þegar þú fæddist og tók ég strax miklu ástfóstri við þig og urðum við mjög náin uppvaxtarárin þín. Þegar ég fór svo í skóla að heiman kom ég alltaf með gjöf fyrir litla bróður þegar ég kom heim í helgar- og hátíðarfrí. Þegar ég svo eignast frumburð minn varst þú til staðar fyrir litla frænda sem leit mjög upp til þín, enda fékk hann bíladelluna frá
þér. Þegar þú fékkst svo bílprófið bauðstu litla frænda á rúntinn á kagganum inn í Brú. Ekki get ég neitað því að mömmuhjartað tók nokkur aukaslög þegar ég horfði á ykkur bruna í burtu.

Þú kláraðir skólana svo með glæsibrag og lagðir fyrir þig trésmíði, eftir það gerðist allt frekar hratt, en þú náðir þér í konu og fluttir austur og stofnaðir eigin fyrirtæki.

Þú varst alltaf mikill gleðigjafi þegar stórfjölskyldan kom saman, þú spilaðir á skemmtara og gítar og hélst uppi fjörinu. Þegar kveikt var upp í kolagrillinu safnaðist ungviðið í kringum þig og þá logaði alltaf glatt. Allt sem þú hefur tekið þér fyrir hendur gerðir þú alltaf hundrað prósent.

Ég var mjög stolt stóra systir og sjá hve snyrtilegt verkstæðið þitt var og hversu vel var hugsað um bílana, og þú sjálfur alltaf svo snyrtilegur og flottur.

Ég þakka þér fyrir samfylgdina sem hefur verið góð og skemmtileg en hefði mátt vera lengri. Ég votta dætrum þínum, eiginkonu og stjúpsonum mína dýpstu samúð. Hvíldu í friði elsku bróðir.

Takk fyrir allt.

Þín stóra systir,

Anna Inga.