Jóhanna Arnleif Gunnarsdóttir fæddist 5. mars 1956. Hún lést á 2. janúar 2024. Útför fór fram 25. janúar 2024.

Það var glaðvær hópur fullur eftirvæntingar sem hóf nám í matvælafræði haustið 1977. Við komum sitt úr hvorri áttinni, ólík um margt en úr varð þéttur og góður hópur sem við Jóhanna tilheyrðum. Þessi samhenti hópur átti góð þrjú ár saman í náminu og heldur að hluta til hópinn enn þann dag í dag í formi saumaklúbbs sem ég er stoltur aukameðlimur í. Sumarferðir hópsins eru margar og minnisverðar jafnt innanlands sem utan. Alltaf skemmtilegar hvort sem var norður í Hvalvatnsfirði eða suður í Afríku og allt þar á milli. Jóhanna og Vilbergur oftast með, góðir vinir, glaðvær, skemmtileg og samheldin.

Jóhanna ræðst til Nóa Síríusar 2009 og vinnur þar til ársins 2019 er hún ákveður að fylgja Vilbergi sínum og fara á eftirlaun heldur fyrr en venja er til þess að eiga meiri tíma fyrir sig og fjölskylduna og gleðjast yfir barnabörnunum. Sannarlega rétt ákvörðun þótt við öll teldum að skammtaður tími yrði lengri en raun varð á.

Að fá Jóhönnu í gæðamálin hjá Nóa Síríusi var mikill fengur. Reynsla hennar og þekking var víðtæk og var hún jafn vel að sér hvort sem um var að ræða lög og reglugerðir, umbúðamerkingar, hreinlæti, umgengnisvenjur, umbótastarf eða staðla og vottanir. Að þessum málum vann hún hjá Nóa Síríusi af þekkingu, alúð og nákvæmni auk þess að vera góður félagi á vinnustað. Í svona löngu og nánu samstarfi gat okkur greint á um úrlausn mála eins og eðlilegt er en alltaf var stutt í lausnina enda gekk okkar samstarf afar vel og var farsælt.

Í febrúar 2013 nánast skipar hún mér að mæta á kóræfingu hjá kórnum sínum. Í þeim öfluga félagsskap vorum við samferða í rúm 10 ár. Jóhanna hafði yndi af söng og tónlist. Hún söng sópran í Harmóníukórnum, áður Landsvirkjunarkórnum, frá stofnun 1991. Þar gegndi hún trúnaðarstörfum sem voru leyst af kostgæfni og nákvæmni. Hún var drjúg við að leggja gott til málanna í starfi kórsins. Eftir að ég varð formaður kórsins gat ég alltaf treyst á góð ráð og stuðning við komandi verkefni. Hún var ekki í rónni nú í haust fyrr en hennar verk voru komin í góðar hendur arftaka. Kórkjólnum ætlaði Jóhanna ekki að skila því enginn bilbugur var á okkar konu, hún ætlaði að skreppa út til Lundar í smá aðgerð og mæta svo galvösk á kóræfingar nú eftir áramótin. En þau áform gengu ekki eftir og við verðum að láta bíða eitthvað með að taka saman lagið í góðum hópi.

Takk fyrir samfylgdina mín kæra, hvíl í friði. Vilbergur, Gunnar og Þórunn, samúðarkveðjur til ykkar og fjölskyldunnar.

Jómundur Rúnar
og Ragnheiður.

Í dag kveðjum við Jóhönnu A. Gunnarsdóttur, kæra söngsystur okkar í Harmóníukórnum. Okkar kynni hófust árið 1991 þegar Landsvirkjunarkórinn var stofnaður sem síðar varð að nýjum kór, Harmóníukórnum. Við vorum saman í stjórn kórsins í nokkur ár þar sem við áttum gott samstarf. Með sinni smekkvísi sá hún um að heildarsvipur væri á kórnum og smáatriðin væru í lagi. Hún sá í mörg ár um kjóla kvenna og var útsjónarsöm með að þegar ný kona bættist í hópinn þá væri til kjóll fyrir hana, hvort sem það var breyttur eldri kjóll eða saumaður nýr. Sjálf var hún afar glæsileg og alltaf fallega til fara.

Jóhanna hafði létta lund, hún var skemmtileg og hlý og hafði jákvætt viðmót en gat líka verið ákveðin. Hún var skemmtilegur ferðafélagi í öllum okkar ferðum með kórnum, innanlands og utan, og einnig í ferðum með Starfsmannafélagi Landsvirkjunar þar sem Vilbergur eiginmaður hennar starfaði í fjölmörg ár með okkur báðum. Eigum við sérstaklega góðar minningar úr Danmerkurferðunum með kórnum þar sem mikið var sungið, grínast og hlegið.

Okkur var brugðið þegar við heyrðum fyrst af veikindum Jóhönnu og áttum ekki von á öðru en hún kæmi fljótlega aftur til liðs við okkur. Við söknum nú kærrar vinkonu og þökkum innilega fyrir samfylgdina í öll þessi ár. Við vottum Vilbergi og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð.

Megi minningin um Jóhönnu A. Gunnarsdóttur lifa.

Kristín Kristinsdóttir,
Soffía Þórisdóttir og
félagar í Harmóníukórnum.

Kær vinkona, Jóhanna Gunnarsdóttir, er fallin frá langt um aldur fram eftir erfiða sjúkdómslegu. Vinátta okkar hjóna við þau Jóhönnu og Vilberg hefur varað í áratugi. Saman höfum við átt margar gleðistundir og notið einstakrar gestrisni þeirra hjóna. Þau voru höfðingjar heim að sækja.

Jóhanna var mörgum kostum búin og sáust þess víða merki. Hún hafði dálæti á tónlist og söng meðal annars í kór Starfsmannafélags Landsvirkjunar og hafði unun af.

Mitt í blóma lífsins veikist Jóhanna alvarlega og háði baráttu við illvígan sjúkdóm. Síðastliðnir þrír mánuðir voru sérlega þungbærir þar sem Jóhanna gekkst undir erfiða aðgerð á erlendri grund. Vilbergur stóð þar vaktina með Jóhönnu, var við hlið hennar, óbilandi og vék ekki frá henni. Allt kom því miður fyrir ekki.

Það er sorglegt að hugsa til þess að Jóhanna skuli kölluð svo snemma burt úr heimi. Hún er meðal annars svipt þeirri gleði að fá að fylgjast með barnabörnunum vaxa úr grasi. Það eru málalok sem er sárt að þurfa að búa við.

Við kveðjum nú Jóhönnu og þökkum henni samfylgdina. Við vottum Vilbergi, Gunnari og Þórunni og fjölskyldum þeirra innilega samúð sem og öllum þeim öðrum sem nú sakna vinar í stað.

Kæra Jóhanna, megi nú „ljósið bjarta, skæra vekja þig með sól að morgni“.

Þorgeir J. Andrésson,

Guðrún Erla Sigurðardóttir.