Júlíus Þór Gunnarsson fæddist á sjúkrahúsinu á Akranesi 14. maí 1975. Hann lést á heimili sínu 8. janúar 2024.

Foreldrar hans eru Kristín Sigurðardóttir bankastarfsmaður, f. 16.11. 1951, d. 16.2. 2009, og Gunnar Þór Júlíusson verkstjóri f. 8.11. 1951.

Júlíus var einkabarn foreldra sinna og bjó í Hafnarfirði frá fæðingu, fyrir utan nokkur æskuár á Akranesi.

Júlíus gekk hinn 9. október 2010 að eiga æskuástina sína, Thelmu Björk Árnadóttur hjúkrunarfræðing, en samband þeirra hófst árið 1992. Þau skildu árið 2021. Þau eignuðust tvo drengi, Alex Má, f. 5.6. 2003, nema og Birki Óla, f. 7.8. 2006, nema við Verzlunarskóla Íslands.

Júlíus starfaði aðallega við mælingar, áætlana- og tilboðsgerðir, og vann hann hjá ýmsum fyrirtækjum. Hann hóf störf ungur að árum hjá Hagvirki með föður sínum, einnig starfaði Júlíus hjá Eflu, Ara Engineering og Fjarðargrjóti til að mynda. Júlíus starfaði töluvert erlendis, m.a. á Grænlandi, í Noregi og Gana, Úganda og í Tansaníu.

Júlíus var ötull liðsmaður björgunarsveitarinnar í Hafnarfirði og tók að sér ungur að árum stjórnunarstörf. Hann starfaði sem formaður Björgunarsveitar Fiskakletts og var einnig fyrsti formaður Björgunarsveitar Hafnarfjarðar eftir sameiningu Hjálparsveitar skáta og Björgunarsveitar Fiskakletts, en Júlíus var lykilmaður í þeirri sameiningu. Júlíus sat einnig í stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar um tíma.

Júlíus var mikill útivistarmaður, hann hafði víðtæka þekkingu á landinu sínu og elskaði að ferðast um fjöll og firnindi. Hann undi sér best í íslenskri náttúru og þar stundaði hann skíðamennsku, fór á vélsleða og sinnti bæði skotveiði og stangveiði.

Útförin fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 26. janúar 2024, klukkan 15.

Júlíus Þór Gunnarsson fyrrverandi tengdasonur okkar er látinn langt fyrir aldur fram. Það er nokkuð sem erfitt er að horfast í augu við.

Júlli eins og hann var alltaf kallaður var tengdasonur okkar í rúm þrjátíu ár. Hann var duglegur strákur og mjög greiðvikinn. Júlli lét sig flest varða og var gaman að ræða við hann um málefni líðandi stundar og var þar pólitíkin ekki undanskilin.

Júlli var mikill verkfræðingur í sér, en hafði ekki prófið. Hann kunni svo margt og gat svo margt og var falið svo margt af sínum vinnuveitendum sem kallaði á verkfræðiþekkingu. Hann lærði hratt og vel af sínum samstarfsmönnum. Júlli leysti öll þau verkefni sem honum voru falin farsællega og vel af hendi.

Júlla voru falin verkefni víða erlendis, m.a. í Noregi, Grænlandi og Afríku, þar sem hann var að mæla út og staðsetja möstur fyrir háspennulínu frá nýrri virkjun. Auk þess tók hann að sér alls konar verkefni hér heima sem hann stýrði sjálfur.

Júlli var útivistarmaður af guðs náð og fór um fjöll og firnindi. Áhuginn var ótakmarkaður hvort sem var vetur, sumar, vor eða haust. Það voru skíðaferðir, vélsleðaferðir, fjallaklifur, skotveiðar, flúðasiglingar, jeppaferðir og fleira. Ein ferð er okkur minnisstæð, þegar Júlli fór með félögum sínum í björgunarsveitinni til Nepals og klifu þeir fjallið Ama Dablam. Þetta var þrekraun sem þeir stóðust vel.

Júlli var mjög virkur í björgunarsveit Fiskakletts og Hafnarfjarðar og var í mörg ár formaður. Hann fór í marga björgunarleiðangra með þeim. Júlli var ósérhlífinn og munum við að hann fór nýkominn úr kviðslitsaðgerð með varðskipi til Flateyrar þegar snjóflóðin féllu þar. Hann var líka mikill flugeldakarl og stóð vaktina í flugeldasölunni í áraraðir og aldrei höfum við séð eins flotta flugeldasýningu og hjá honum.

Júlli var góður kokkur og sérgrein hans var villibráð, sem hann veiddi sjálfur. Árlega var okkur fjölskyldunni boðið í dýrindis villibráðarveislu að hætti Júlla. Einnig nutum við góðs af jólarjúpunum frá honum í mörg ár.

Áhugamálum sínum deildi Júlli með fjölskyldu sinni og voru farnar ófáar ferðirnar þar sem farið var á jeppanum á skíði, á veiðar og í sumarbústaði víðs vegar um landið.

Nú er komið að kveðjustund. Missir Júlla var mikill þegar hann missti móður sina hana Kristínu og nú eru elsku drengirnir hans, Alex Már og Birkir Óli, að sjá á eftir föður sínum. Við þurfum öll að muna góðu dagana og góðu minningarnar, þær eru margar ómetanlegar.

Við vottum Alex Má og Birki Óla okkar dýpstu samúð og elsku Thelmu Björk okkar sem er að sjá á bak lífsförunaut sínum til meira en þrjátíu ára.

Gunnari föður Júlla og Ingu konu hans sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hvíl í friði kæri Júlli.

Árni og
Valgerður.

Það er skrítin tilfinning að skrifa minningargrein um jafnaldra sinn. Vin sem fallinn er frá langt fyrir aldur fram.

Við strákarnir kynntumst í Öldutúnsskóla og héldum hópinn fram á fullorðinsár.

Júlli var þessi týpa sem öllum líkaði vel við, ljúfur, skynsamur og svolítið feiminn. Að því sögðu var hann samt alltaf tilbúinn til að taka þátt í skammarstrikum okkar vinanna, sem voru svo sannarlega mörg og fjölbreytt. Júlli var harðduglegur orkubolti og djarfur í flestu sem hann tók sér fyrir hendur. Ef hann var ekki að veiða þá var hann að klífa eitthvert fjall, renna sér á skíðum eða bara gera eitthvað sem fól í sér útiveru, spennu og góðan skammt af hreyfingu. Eins og hann orðaði það sjálfur þá var hann algjör dellukarl. Þannig minnumst við hans gömlu vinirnir!

Við vottum sonum hans Alex og Birki, Gunnari Þór pabba hans, Thelmu og öðrum ástvinum Júlla okkar dýpstu samúð.

Elsku hjartans Júlli, hvíldu í friði. Eftir lifir minning um góðan vin.

Öldutúnsskólagengið,

Gunnar Axel,

Adolf, Óskar, Sölvi,

Guðlaugur Þór

og Daníel.

Júlíus Gunnarsson átti að baki 35 ára björgunarsveitarstarf. Hann byrjaði í unglingadeildinni Björgúlfi 14 ára gamall og í framhaldinu starfaði hann með Björgunarsveit Fiskakletts og síðar Björgunarsveit Hafnarfjarðar.

Hann tók ungur að sér stjórnarstörf í Fiskakletti og var kjörinn formaður árið 1998, aðeins 23 ára. Hann var formaður Fiskakletts 1998-2000 og lykilmaður í sameiningu Björgunarsveitar Fiskakletts og Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði í Björgunarsveit Hafnarfjarðar og var fyrsti formaður þeirrar sveitar. Því sinnti Júlíus frá árinu 2000 til 2002 og aftur frá 2004 til 2012, en í millitíðinni var hann varaformaður björgunarsveitarinnar. Sem formaður barðist hann ötullega fyrir styrkveitingum frá bæði Hafnarfjarðarbæ og ríkinu, ýmist vegna sporhunda, húsbyggingar, bátakaupa eða almenns rekstrar sveitarinnar.

Júlli var ekki bara stjórnarmaður, hann var líka gríðarlega öflugur björgunarsveitarmaður, hvort heldur sem var við æfingar, björgunarstörf, fjáraflanir eða aðra vinnu. Fluglínur, fjallaskíði, flugeldar, vélsleðar, bátasmíði, bílakaup, sameining, samvinna og skipulagning. Hann var góður í þessu öllu og óhræddur við að prófa sig áfram. Hann var ekki bara þátttakandi, hann var óskoraður leiðtogi sama hvort var á vettvangi björgunarsveitanna eða annarra starfa. Hann var bæði yngri og eldri björgunarsveitarmönnum mikil og góð fyrirmynd.

Júlíus starfaði með fjallahópi Fiskakletts frá árinu 1993 og með undanfaraflokki frá upphafi starfs hans. Þá var hann meðlimur í sleðaflokki Björgunarsveitar Hafnarfjarðar til nokkurra ára. Á ferlinum tók hann þátt í ótalmörgum útköllum þar sem hann var ýmist á vettvangi, sem stjórnandi í húsi eða hjá landsstjórn björgunarsveita. Hann tók þátt í nánast öllum stærstu leitum og björgunaraðgerðum sem farið hafa fram hér á landi frá 23. maí 1993. Í október sama ár var hann í hópi Fiskaklettsfélaga sem fann rjúpnaskyttu á Akrafjalli. Í mætingabók sveitarinnar stendur: „24.10.’93 Útkall v/2ja rjúpnaskytta, taldir vera týndir á Akrafjalli. Einn maður týndur og við fundum hann.“ Má einnig nefna snjóflóð á Súðavík í janúar 1995 og á Flateyri í október 1995, björgun í Skessuhorni árið 2009, leit í Bleiksárgljúfri árið 2014 og aðstoð vegna eldgoss við Fagradalsfjall árið 2021. Þrátt fyrir að hann hafi aldrei verið skráður í sjóflokk sveitarinnar vantaði ekki á elju hans og dugnað í útköllum sjóflokksins.

Björgunarsveitin sér á eftir afburðafélaga, enda ófáir sem hafa komið jafn víða við og haldið á lofti jafn mörgum boltum í einu. Í leiðara blaðsins „50 ára saga björgunarsveita í Hafnarfirði“ skrifaði Júlíus: „Sú hugsjón að leggja vinnu sína og frítíma í að byggja upp starf í þágu almennings er öllum þeim sem að starfinu koma mikilvægt leiðarljós. Sveitin leggur mikla áherslu á það í starfi sínu að kenna ungu fólki að góðir hlutir verða aðeins til fyrir dugnað þeirra sem að þeim standa.“ Þessi orð lýsa honum og starfi hans fyrir björgunarsveitirnar vel og ekki að undra að maður með slíkt viðhorf hafi verið
fyrirmynd annarra í leik og starfi.

Félagar í Björgunarsveit Hafnarfjarðar kveðja öflugan leiðtoga og traustan félaga og votta sonum hans, föður og öðrum ástvinum innilega samúð.

Fyrir hönd Björgunarsveitar Hafnarfjarðar,

Smári Guðnason,
varaformaður.