Jón Eyþór Jónsson fæddist 21. maí 1944 á Borgarhóli í Eyjafjarðarsveit. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans 10. janúar 2024 eftir skammvinn veikindi.
Foreldrar hans voru Jón Sigurðsson, f. 17. september 1915, d. 10. júlí 1984, og Sigríður Stefánsdóttir, f. 5. desember 1912, d. 12. mars 1995.
Systkini Jóns eru Stefán Þór, f. 12. júlí 1936, d. 15. júlí 2010, Arnheiður, f. 29. nóvember 1937, Sigmar Kristinn, f. 19. febrúar 1940, d. 16. apríl 1998, Þorgerður, f. 27. júní 1948, og Þóra Hildur, f. 25. júní 1950. Hálfbróðir þeirra er Ívar Hreinberg, f. 18. nóvember 1941, d. 5. mars 1977.
Hinn 17. ágúst 1992 gekk Jón að eiga Guðbjörgu Ósk Harðardóttur, f. 17. ágúst 1943, d. 13. desember 2019.
Börn Guðbjargar og stjúpbörn Jóns eru: Hörður, f. 11. október 1961, Valgeir, f. 5. apríl 1965, Elín Björk, f. 2. júlí 1967, og Guðný Ósk, f. 19. mars 1974.
Eftir nám í Laugalandsskóla í Eyjafirði fór Jón í Menntaskólann á Akureyri og þaðan lá síðan leið hans til Bandaríkjanna þar sem hann lagði stund á flugvirkjun. Hann starfaði alla tíð við sitt fag og lengst af hjá Flugleiðum.
Útförin fór fram í kyrrþey.
Ég kveð þig elsku Jón minn. Þú kemur inn í líf mitt á mínu 11. ári og mikið er ég þakklát fyrir það. Við mamma flytjum til þín í Reynigrundina og ég byrja í Snælandsskóla. Þaðan á ég mínar allra bestu vinkonur og góðar minningar. Á þessum tíma æfði ég fótbolta og fór mikið á skíði. Ekki man ég eftir að þú segðir nei þegar ég bað um pening til að fara upp í Bláfjöll. Þú varst mikill græjukarl, áttir ýmislegt til að hugsa um garðinn, sem var stór. Þú leiðbeindir mér eins og þú gast og hugsaði ég alfarið um hann eftir það. Það sem þú varst feginn að mér fannst þetta gaman.
Þú varst frekar rólegur yfir flestu eins og þegar þú leyfðir mér að mála herbergið mitt ein 11 ára gömul. Sameiginlegt áhugamál okkar voru fuglarnir okkar sem við sinntum saman, þú með dísarfugl og ég tvo gára, þetta fannst okkur gaman. Við kenndum hvort öðru margt í gegnum lífið. Þú reyndist mömmu ótrúlega vel og stóðst alltaf við bak hennar alla tíð og er ég þér mjög þakklát fyrir það. Ég geymi okkar góðu minningar og þakka þér fyrir allt.
Þín
Guðný Ósk.
Elsku Jón afi okkar.
Það er erfitt að hugsa til þess að geta ekki komið oftar í heimsókn til ykkar ömmu. Þegar við vorum yngri þá áttir þú alltaf til kleinur og hafrakex sem við máttum fá og alltaf nóg til. Þegar Anton var lítill fannst honum mjög gaman að leika sér á þrekhjólinu þínu. Stelpunum fannst gaman að leika sér á teppinu fyrir framan afastól og þú spjallaðir við þær. Þú áttir alltaf fullt af tússlitum, trélitum og blöðum og var oft teiknað. Þeim leið alltaf vel með þér, þú hlustaðir alltaf og varst með góða nærveru. Við komum öll til þín rétt fyrir jól til að laga sjónvarpið í herberginu, mikið varst þú glaður yfir að fá það í lag.
Við kveðjum þig, elsku afi okkar, nú ertu kominn í Sumarlandið til elsku ömmu.
Minning þín lifir.
Anton Björn, Kolbrún Eva og Karen Björg.
Nú er hann Jón Eyþór bróðir minn látinn eftir erfið veikindi. Hann var fjórði í röð sex systkina og var sá eini af okkur systkinunum sem fæddist á heimabæ okkar Borgarhóli í Eyjafjarðarsveit.
Jón Eyþór var sjö árum yngri en ég og var bæði þægur og skemmtilegur drengur. Ég passaði hann oft og ég man hvað ég var stolt af honum þegar ég fór með hann á mannamót. Mér er minnisstætt þegar ég var um tíu ára gömul og fór með hann á sýningar í Kvennaskólanum á Laugalandi. Jón var þá þriggja ára glókollur og stúlkurnar í skólanum hópuðust í kringum hann til að dást að honum.
Jón Eyþór var góður námsmaður og hóf nám við Menntaskólann á Akureyri en dvaldi þar ekki lengi því hugur hans stóð til verklegs náms og varð flugvirkjun fyrir valinu. Elsti bróðir okkar, Stefán, var þá í flugnámi í Texas og þangað fór Jón Eyþór til að læra flugvirkjun. Að námi loknu flutti hann til New York og vann þar fyrir Flugleiðir um tíma.
Hann flutti síðan til Hafnarfjarðar og hélt áfram að vinna fyrir Flugleiðir, síðar Icelandair, sem flugvirki. Jón var mjög vandvirkur og farsæll í starfi og hafði oft orð á því að hann hefði ekki getað valið betra starf því hann hlakkaði alltaf til að fara í vinnuna. Ef eitthvað þurfti að smíða sem krafðist nákvæmni þá var Jón iðulega fenginn í þau verk þar sem hann þótti einstaklega handlaginn og nákvæmur.
Jón hafði alla tíð mikið yndi af tónlist, sér í lagi óperutónlist. Hann hafði góða söngrödd og var um tíma í kór. Hann átti það líka til að setja saman vísur og var nokkuð lunkinn við það.
Þegar Jón hætti að vinna áttu andleg málefni hug hans og hjarta og hann vildi láta gott af sér leiða í þeim efnum.
Jón kvæntist þeirri góðu konu Guðbjörgu Harðardóttur og átti með henni gott líf en bjó einn eftir andlát hennar. Ég kveð kæran bróður og minnist hans með þakklæti og hlýju.
Arnheiður Jónsdóttir.
Ég kynntist Jóni þegar Gugga systir mín og hann hófu sambúð sem leiddi síðan til þess að þau giftu sig. Jón reyndist Guggu og börnunum mjög vel. Jón var menntaður flugvirki, sem varð hans ævistarf. Jón var vel að sér til hugar og handa, hann var vel lesinn, það kom til dæmis vel fram þegar það var spurningakeppni í sjónvarpinu, þar gat hann svarað mörgum spurningum. Áhugamálin voru mörg, m.a. hannaði hann og smíðaði hluti og fékk viðurkenningu fyrir hönnun. Jón var dýravinur og hann hafði sérstakan áhuga á fuglum enda tengt starfinu, einnig hafði hann ánægju af því að setja saman kvæði sem voru innihaldsrík. Jón tók einnig þátt í kórastarfi og hafði ánægju af klassískri tónlist og fleira mætti telja.
Jón var áhugasamur um líf að loknu þessu lífi og kveið því ekki að fara yfir í sumarlandið. Um leið og við kveðjum okkar kæra mág og vin er okkur ljúft að þakka Möllu fyrir einstaka kærleiksþjónustu sem hún veitti Guggu og Jóni um árabil, þessi umhyggja leiddi til þess að Gugga og Jón gátu lokið lífsgöngu sinni í heimahúsi. Guð blessi minningu Jóns Eyþórs og við vottum systrum hans og börnum Guggu innilega samúð.
Alfreð, Ásta og fjölskylda.
Mig langar að minnast Jóns frænda míns í nokkrum orðum. Hann spilaði stórt hlutverk á mínum æskuárum þegar við móðir mín fluttum í Hafnarfjörð og bjuggum hjá honum í nokkur ár.
Jón reyndist mér góður frændi. Hann gaf sér iðulega tíma til að spjalla við mig um lífið og tilveruna á sinn yfirvegaða og rólega hátt og sýndi mér ávallt þolinmæði. Hann var mikill fuglavinur og skemmti ég mér sérstaklega vel yfir sögunni af hrafninum sem hann tamdi á sínum unglingsárum. Jón hafði mikinn áhuga á óperutónlist og man ég að hann hlustaði á stóru tenórana og var Caruso í mestu uppáhaldi. Þótt mér hafi nú ekki þótt þessi tegund tónlistar spennandi á þessum tíma náði hann að sá fræjum fyrir framtíðina. Þegar við móðir mín fluttum frá Jóni héldum við ávallt góðu sambandi og þótti mér sérstaklega vænt um að hann lét sig aldrei vanta á stórum viðburðum í lífi mínu og fann ég ávallt fyrir væntumþykju hans í minn garð.
Nú er Jón farin í sumarlandið en minningin lifir.
Sigríður Arna.
Hann var feiminn en forvitinn hann Jón Eyþór, átta ára snáðinn sem gægðist fyrir húshornið á Borgarhóli til að forvitnast um frænda sinn, aðkomustrákinn að sunnan, sem var árinu eldri, lítið eitt hærri og þvengmjór en hafði verið sendur til sumardvalar næstu tvö sumrin. Mér var tekið af þeirri hlýju og alúð sem alltaf var ríkjandi á Borgarhóli. Við Jón Eyþór náðum vel saman og okkur var ætlað að reka kýrnar til beitar, moka flórinn, aðstoða við heyskapinn og sitthvað tilfallandi. Þótt stundum hafi kastast í kekki okkar á milli var jafnan skjótt í sættir. Jón Sig. lýsti því þannig að dag einn hafi háreysti, skellir og smellir heyrst frá bæjarhlaðinu sunnan við húsið. Þar mátti sjá okkur frændur komna í hár saman öskuilla. Stuttu síðar hafi hann séð til okkar í mesta bróðerni rölta saman áleiðis eftir kúnum til mjalta. Uppátækin alls konar. Þann 17. júní klöngruðumst við upp í Bryðjuskál og stálumst margoft í heitu laugina neðan við bæinn Grýtu án þess nokkur vissi. Við hjóluðum alla leið fram að Melgerðismelum og aftur heim níu og tíu ára gamlir.
Árum síðar sigldum við á Pollinum á báti sem Jón Eyþór hafði af lagni og kunnáttusemi smíðað og var hreykinn af.
Nú skildi leiðir. Ég á heimaslóðum en Jón Eyþór hélt utan til náms í flugvirkjun og starfaði við þá grein alla tíð.
Honum hlotnaðist gæðatenórrödd. Röddin há en ljóðræn, björt og jöfn yfir allt tónsviðið og hann með afbrigðum tónviss. Hlédrægur sem hann var fékk Jón Eyþór vinnufélaga sína í lið með sér og úr varð sönghópur sem kom fram á árshátíð 1983 þar sem tenórinn Jón Eyþór söng sem hefði hann aldrei gert annað og hlaut lof fyrir ásamt söngfélögum sínum.
Jón Eyþór er eftirminnilegur. Fremur fáskiptinn, fastur fyrir en vinsamlegur, boðinn og búinn að leysa vanda þeirra sem til hans leituðu. Hann var gæddur miðilsgáfu sem nýttist mörgum, þ.m.t. fjölskyldu minni. Hann naut þess einkum að fylgjast með atferli fugla og á æskuárum hændi hann að sér hrafn sem fylgdi honum lengi vel. Hann var 48 ára þegar hann kynntist ástinni sinni, Guðbjörgu Ósk Harðardóttur, en þau gengu í hjónaband 1992. Nokkrum árum síðar sagði hann skilið við Bakkus konung án nokkurrar eftirsjár. Hann lýsti því þannig að sjálf áfengislöngunin hefði verið hrifin á brott og ekki látið á sér bæra síðar.
Fyrir um þremur árum mæltum við okkur mót og höfðum um margt að spjalla þessa heims og annars og rifjuðum upp sumt af því sem áður var nefnt. Við héldum sambandi okkar síðustu árin. Þá hafði heilsan gefið sig, en Guðbjörgu sína missti hann 2019 eftir ástríka sambúð. Í símtali okkar á fyrstu dögum nýs árs bar Jón Eyþór sig vel eftir atvikum og gott í honum hljóðið. Stuttu síðar var hann fluttur með hraði á Landspítalann og tjáð að staða hans væri grafalvarleg. Systir Jóns Eyþórs tjáði mér að líknandi meðferð í öndunarvél hefði hann afþakkað með þeim orðum að hans biði Sumarlandið fyrir handan. Aðstandendum öllum sendi ég samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Jóns Eyþórs Jónssonar frá Borgarhóli.
Sigvaldi Snær Kaldalóns.