Dugnaður Sandra við púsluspilið í bókasafninu á Skagaströnd.
Dugnaður Sandra við púsluspilið í bókasafninu á Skagaströnd.
Sandra Ómarsdóttir, bókavörður á Bókasafni Skagastrandar, sagði við Morgunblaðið fyrir um ári að markmiðið væri að lesa 100 bækur 2023, en hún las 67 bækur árið áður. „Það tókst og vel það því ég fór algerlega fram úr sjálfri mér og las 166 bækur í fyrra,“ segir hún nú

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sandra Ómarsdóttir, bókavörður á Bókasafni Skagastrandar, sagði við Morgunblaðið fyrir um ári að markmiðið væri að lesa 100 bækur 2023, en hún las 67 bækur árið áður. „Það tókst og vel það því ég fór algerlega fram úr sjálfri mér og las 166 bækur í fyrra,“ segir hún nú.

Líf Söndru hefur lengi að stórum hluta snúist um bækur, jafnt í vinnu sem í frítíma. Hún skrásetur allar bækur sem hún les og flokkar þær eftir höfundum. Hún les ekki einungis innbundnar bækur og kiljur heldur einnig rafbækur auk þess sem hún hlustar á hljóðbækur. „Lýsingin á storytel-hljóðbrettinu er betri en á amazon-brettinu og því les ég fleiri bækur á því fyrrnefnda.“ Hins vegar hafi hún hlustað á nokkrar hljóðbækur á appinu sem fylgi amazon-reikningnum. „Þar á meðal er bókin Friends, Lovers and the Big Terrible Thing eftir Matthew Perry. Mögnuð bók sem hann les sjálfur.“ Sama sé að segja um Greenlight eftir Matthew McConaughey.

Púsluspil og hlustun

Sandra segist hafa fengið gefins 5.000 bita púsluspil snemma árs í fyrra og hafi þá slegið tvær flugur í einu höggi. „Á meðan ég púslaði skrímslið ákvað ég að nýta tímann og hlusta á nokkrar bækur á storytel og hafði hraðann allt upp í 2,5 til að höndla lesturinn.“ Þegar hún hafi verið orðin þreytt í eyrunum eftir að hafa hlustað lengi með heyrnartólum hafi hún hlustað á upplesturinn í símanum. Eitt sinn hafi eiginmaðurinn heyrt í upplestrinum og spurt hver læsi svona hratt. „Hvernig geturðu skilið það sem sagt er?“ spurði hann mig forviða.“

Innbundnar bækur og kiljur eru vinsælastar hjá Söndru. „Það er skemmtilegast að lesa þær.“ Í fyrra sagði hún að glæpasögur væru í algjörum forgangi. Það hafi ekki breyst, en fjölbreytnin hafi aukist. „Ég náði að víkka sjóndeildarhringinn á liðnu ári og las ekki eingöngu glæpasögur heldur fór nánast í alla bókaflokka.“ Hún hafi lesið nokkrar „vanillubækur“ um ástir og rómantík, „kerlingabækur“, eins og hún kallar þær. Líka bækur ætlaðar börnum og ungmennum og myndasögubækur. „Ég tók líka að mér að sjá um skólabókasafnið og þarf að vita um hvað bækurnar eru til að geta liðsinnt krökkunum við að velja sér bækur til að lesa.“ Hún segist meira að segja hafa farið inn á TikTok á netinu til að sjá hvað unga fólkið læsi og tekið það sér til fyrirmyndar. „Alltof fáar bækur eru þýddar og skrifaðar fyrir 13 til 25 ára aldurshópinn,“ staðhæfir hún og mælir með fantasíuþríleik Ólafs Gunnars Guðlaugssonar fyrir börn og unglinga, en um er að ræða bækurnar Ljósbera, Ofurvættir og Návaldið.

Í fyrra sagðist Sandra „fíla Stefán Mána alveg í tætlur“. Aðdáunin hafi aukist. „Besta íslenska bók ársins 2023 er Borg hinna dauðu eftir Stefán Mána og besta bók ársins er Köngulóin eftir Lars Kepler. Leitin að tilgangi lífsins eftir Viktor E. Frankl kom mér mest á óvart og mér finnst að allir eigi að lesa hana að minnsta kosti einu sinni.“

Sandra hefur ekki sett sér lestrarmarkmið á nýhöfnu ári. „Ég þótti frekar erfið til viðræðu á heimilinu á nýliðnu ári og bóndinn bað mig að hafa þær aðeins færri á þessu ári,“ segir hún. „Ég ákvað að hætta á sléttri tölu í fyrra og hægi nú aðeins á mér.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson