Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Vextir eru samþættir úr nokkrum stærðum. Tveir þeir helstu eru raunvextir og verðleiðrétting, sem heitir „verðbætur“.

Vilhjálmur Bjarnason

Skrifari hefur að mestu eytt ævi sinni í gagnslaus störf. Og áhugamálin hafa ekki síður verið þarflaus.

Áhugamál og störf hafa á stundum legið saman. Þar ber helst að nefna efnahagslegt frelsi einstaklinga og þjóða.

Hallar

Það fer nefnilega saman að þegar rætt er um haralda – það er fínna en að segja halla – þá eru hallarnir nátengdir. Halli á greiðslujöfnuði á sér bræður, sem eru hallar á opinberum búskap og halli á einkageiranum. Með einkageira er átt við einkafyrirtæki og heimili landsins.

Reyndar er það svo að forsenda góðra launa fyrir vinnuframlag einstaklinga er arðsamur atvinnurekstur.

Halli á opinberum búskap leiðir nær undantekningarlaust til þess að greiðslujöfnuður við útlönd verður neikvæður og leiðir til skuldasöfnunar þar. Með því eru útlendingar gerðir ríkir. Af því hafa innlendar frelsishetjur ekki teljandi áhyggjur.

Sama er að segja um taprekstur atvinnufyrirtækja, í versta falli er hinn endanlegi stuðningsaðili tapreksturs einhver óafvitandi í útlöndum.

Stundum er hægt að halda halla innanlands, og færa tapreksturinn á milli kynslóða. Dæmi um slíkt er þegar lífeyrissjóðir kaupa skuldabréf, sem rýrna í verðbólgu. Slíkt leiðir til skerðingar á réttindum í lífeyrissjóðum framtíðarinnar.

Hallar til framtíðar

Það eru nokkrir hallar, sem leiddir hafa verið til framtíðar á Íslandi.

Fyrst skal nefna halla á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, B-deild. Sá hluti sjóðsins er með fyrirsjáanlegu greiðsluþroti innan 3-5 ára. Vegna ríkisábyrgðar á skuldbindingum sjóðsins þarf ríkissjóður að greiða til hans um 30 milljarða á ári í 25 ár.

Ástæðan er af tvennum toga, iðgjöld voru of lág miðað við skuldbindingar og eignir voru „ávaxtaðar“ með örlætisgjafagjörningum í áratugi. Skattborgarar framtíðarinnar greiða!

Hinn hallinn, sem leiddur hefur verið til framtíðar, eru skuldabréf ÍL-sjóðs, áður Íbúðalánasjóður. ÍL-sjóður er með líftíma til 2044. Samkvæmt ársskýrslu sjóðsins fyrir árið 2021 er vænt tap hans 230 milljarðar á þeim tíma. Laust fé er til að mæta greiðslum til ársins 2034. Einhverjar ráðstafanir hafa verið gerðar til að minnka þetta fyrirsjánlega tap. Skattborgarar framtíðarinnar greiða.

Sama á við um fjölskyldusameiningar hælisleitenda. Þeir eru réttindalausir í lífeyrissjóðum, sem veldur greiðslubyrði til framtíðar í almannatryggingum og á öldrunarstofnunum, en þær eru ekki gjaldfrjálsar. Einhver borgar!

Barátta gegn halla á heimilum

Skrifari hefur lagt líf sitt í að berjast fyrir frjálsum sparnaði. Uppskeran hefur verið einelti Landssambands íslenskra vitleysinga.

Ein leið til þess að varðveita frjálsan sparnað er sú að verðtryggja fjárskuldbindingar. Verðtrygging fjárskuldbindinga með „Ólafslögum“ frá 1979 var ekki heimiluð til að tryggja hagsmuni ríkra feitra karla. Verðtrygging fjárskuldbindinga var gerð til að tryggja hagsmuni sparifjáreigenda og lífeyrisþega, þeirra sem áttu skilyrtar eignir í lífeyrissjóðum.

Bankar og sparisjóðir buðu upp á verðtryggða innlánsreikninga. Einhverjir spekingar fundu út að slíkir reikningar skyldu hafa þriggja ára binditíma. Til hvers? Í reynd var þetta barátta gegn hagsmunum heimila! Það eru nefnilega heimili sem eiga innlán en það eru fyrirtæki sem skulda. Lágvaxtalán draga úr halla fyrirtækja og viðhalda vonlausum atvinnurekstri, sem borgar lág laun.

Það er alveg eðlilegt að heimili skuldi framan af ferli tekjuöflunar, en frjáls sparnaður er hluti af efnahagslegu frelsi.

Barátta gegn frjálsum sparnaði

Til þess að hamla gegn frjálsum sparnaði hefur löggjafinn ákveðið að skattleggja fjáreignatekjur. Stór hluti þess fólks sem fer með löggjafarvald á erfitt með að skilja tekjuhugtakið í „vöxtum“. Vextir eru samþættir úr nokkrum stærðum. Tveir þeir helstu eru raunvextir og verðleiðrétting, sem heitir „verðbætur“. Leiðréttingin er til að viðhalda óbreyttum kaupmætti fjárskuldbindingarinnar. Leiðréttingin er ekki „tekjur“, þ.e. eignabreyting, í neinum skilningi. Sama á við um gengismun á gjaldeyrisreikningum. Gengismunur er afleiðing af gengisfalli krónu gagnvart annarri mynt.

Með því að skattleggja verðbætur og gengismun er verið að gera óstjórn að skattandlagi. Þetta er hrein eignaupptaka.

Skattlagning á HFF 34

Það er nærtækt að horfa til skattlagningar á þeim alræmda skuldabréfaflokki HFF34. Útgefandi er Íbúðalánasjóður, nú ÍL, sem er skúffa í fjármálaráðuneytinu.

Það er nokkuð flókið að reikna skatta af þessum skuldabréfaflokki frá 2004 til 2023, þar sem skatthlutfall hefur verið mjög breytilegt. Það er þó grundvallaratriði í hagfræði að reikna áhrif á jaðrinum. Með því að horfa aðeins á þann hluta líftíma skuldabréfaflokksins sem tilheyrir þeirri ríkisstjórn sem nú situr kemur út að fjáreignatekjuskattur, sem er lögum samkvæmt 22% skattur af „tekjum“, er í raun 63% vegna skattlagningar verðleiðréttingar, sem heita verðbætur. Vissulega er frítekjumark en jaðaráhrifin eru það sem skiptir máli.

Full þörf er á því að taka til endurskoðunar þessa altæku kenningu um skattlagningu fjáreignatekna, og byrja á því að skilgreina tekjuhugtakið.

Hallatal

Í öllu þessu hallatali ætlar skrifari ekki að hafa áhyggjur af fjármálagjörningum með endastað í Kína, þ.e. kínverska þróunarbankanum. Þar virðast bjóðast ótrúlega lágir fólgnir vextir í flugvélaleigu. Það er ekki áhyggjuefni skrifara þótt um sé að ræða hluta af verkefni Kínverja sem kallast „Belti og braut“.

Sparnaður heimila styður við það markmið að draga úr óhagstæðum greiðslujöfnuði gagnvart útlöndum. Því er barátta stjórnvalda og Landssambands íslenskra vitleysinga óskiljanleg. Sennilega er þetta hluti af samsæri vangetunnar gegn snilldarandanum.

Örlögin

Svo eru það örlögin. „Lífið er ekki leikfang, heldur ræður sá dómari yfir því sem úthlutar hverjum sitt eftir því sem hann hefur gert. Það fæst ekki ókeypis í heiminum þetta sem það kallar gleði. Hafðu það hugfast fyrir sjálfa þig, góðin mín, um það bil kemur að þér að lifa lífinu. Guð lætur ekki að sér hæða.“

Það sem skrifað er í þessari grein eru almælt sannindi og hafa áður komið fram.

Höfundur var alþingismaður og lektor í fjármálum.