Kristinn Jónas Jónasson fæddist á Skálum á Langanesi 9. júní 1934. Hann lést á líknardeild Landspítalans 26. desember 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Sælaug Sigurgeirsdótir, f. 13.1. 1894, d. 5.7. 1968, og Jónas Albertsson, f. 3.5. 1885, d. 20.6. 1954. Systkini Kristins voru Albert Guðmundur, f. 28.8. 1914, d. 19.9. 1914, Sigurrós María, f. 13.3. 1916, d. 11.1. 1952, Albert Guðmundur, f. 20.3. 1922, d. 10.8. 1924, Jóhann, f. 24.9. 1925, d. 2.2. 1992, Kristjana Anna, f. 29.12. 1929.

Kristinn kvæntist 26.6. 1976 eiginkonu sinni Huldu Júlíönu Vilhjálmsdóttur, f. 7.6. 1927, d. 8.8. 2004. Hulda átti fyrir fósturdóttur, Margréti Geirrúnu Kristjánsdóttur, f. 9.3. 1957, gift Karli Þorsteinssyni, f. 31.1. 1952. Börn þeirra eru: 1) Þórhildur Ragna, f. 31.10. 1977. Synir hennar eru Karl Leó, f. 1.11. 1997, og Kristján Gabríel, f. 17.3. 2016. 2) Kristján Magnús, f. 10.4. 1980. 3) Guðbjörg Hulda, f. 26.5. 1990, gift Jónatan Gíslasyni. Börn þeirra eru Jóhann Gísli, f. 2005, Aðalsteinn, f. 2008, Margrét Ragna, f. 2015, og Freyja Ýr, f. 2016

Kristinn bjó á Skálum til fimm ára aldurs eða til 1939 þegar fjölskyldan fluttist á Þórshöfn. Hann byrjaði sem unglingur í vegavinnu á Brekknaheiðinni. Síðan vann hann við beitningar hjá Jóhanni bróður sínum. Var til sjós fyrri hluta starfsævinnar, bæði á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum. Þá vann hann í verslun Signars og Helga á Þórshöfn þar til hann flytur til Reykjavíkur 1971. Fyrir sunnan byrjar hann að vinna hjá Heildverslun Marinós Péturssonar, en lengst vann hann hjá Jóni Ásbjörnssyni, Fiskkaupum hf.

Síðustu árin bjó hann á Dalbraut 21-27, fyrst með vinkonu sinni Halldóru Guðmundsdóttur þar til hún lést 20. desember 2017.

Útför Kristins fór fram í Seljakirkju 15. janúar 2024.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Þessar línur úr Hávamálum voru það fyrsta sem kom upp í hug minn þegar ég frétti af andláti Didda á annan í jólum. Það er til fólk sem hefur lag á því að gera heiminn betri með nærveru sinni einni saman. Þannig maður var Diddi frændi minn.

Mín fyrsta minning um Didda er úr stofunni hjá afa og ömmu heima á Þórshöfn þegar hann kom í heimsókn frá Reykjavík. Bróðir afa sem í minningunni rak höfuðið upp undir dyrakarminn þegar hann kom inn í hús en það var eitthvað svo sérstakt við hann að ég vissi strax að þar var á ferðinni einhver sá allra ljúfasti maður sem ég myndi nokkurn tímann kynnast.

Allar mínar minningar um Didda eru litaðar af þessari ljúfmennsku. Þegar ég var að alast upp voru ekki margar ferðirnar sem farnar voru á ári til Reykjavíkur, en þegar þangað var komið áttum við alltaf heimboð hjá Didda og Huldu og þar var okkur tekið með virktum. Hið sama átti við þegar ég flutti sjálf til Reykjavíkur, en þá var Diddi mér innan handar með hin ýmsu verkefni og alltaf var ég velkomin á heimili þeirra í kaffibolla og spjall. Hann sýndi mér einstaka væntumþykju, spurði frétta og var alltaf boðinn og búinn að aðstoða með hvað sem var.

Það var einkennandi fyrir Didda að hann leitaði alltaf að því góða í fari fólks og samgladdist innilega þegar vel gekk. Jákvæðari maður er vandfundinn. Þegar ég spurði hann hvernig hann færi að því að vera alltaf svona jákvæður svaraði hann því til að hann reyndi yfirleitt bara að vera sanngjarn því það ættu það allir skilið.

Hin síðustu ár fór heimsóknum mínum fækkandi vegna búsetu erlendis en alltaf tók Diddi mér jafn vel þegar við hittumst. Hann sýndi mér myndir og sagði mér fréttir af fjölskyldunni og það var ljóst hvað honum þótti vænt um fólkið sitt og var stoltur af því öllu. Okkar síðasta spjall var fyrir jól en þá var hann kominn á líknardeildina í Kópavogi. Við spjölluðum lengi saman og ég dáðist að því hvernig hann tókst á við aðstæðurnar með reisn, þakklæti og æðruleysi.

Nú þegar komið er að kveðjustund er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt jafn yndislegan afabróður, fyrir allt það sem hann kenndi mér og ég tek mér til fyrirmyndar í lífinu.

Innilegar samúðarkveðjur sendi ég til fjölskyldunnar allrar.

Guðlaug Jónasdóttir.

Diddi blessaður andaðist að kvöldi annars dags jóla. Þá var ég enn og aftur minntur á hve mikilvægt er að fresta því ekki til morguns sem unnt er að gera í dag. Frétti nefnilega á Þorláksmessu að hann væri búinn að vera á líknardeildinni í nokkrar vikur. Svo gengu jólin í garð. Ég ákvað að heimsækja hann annan í jólum en eitt og annað kom í veg fyrir það. Daginn eftir komum við hjónin á líknardeildina, elskulegur hjúkrunarfræðingur sagði okkur afar varfærnislega að Diddi hefði kvatt þennan heim kvöldið áður. Við komum of seint. Sannarlega skulum við muna að nota daginn í dag vel því enginn á morgundaginn vísan.

Diddi hét fullu nafni Kristinn Jónas Jónasson. Mig langar til að minnast þessa mæta manns með nokkrum orðum. Diddi kom inn í líf okkar hjónanna þegar hann tók upp sambúð með tengdamóður minni Halldóru Guðmundsdóttur. Bæði voru orðin fullorðin og nokkur ár liðin frá því að þau höfðu misst maka sína. Diddi og Dóra voru að mörgu leyti ólík en vinátta þeirra var einlæg og líf þeirra saman var fallegt. Þau ferðuðust saman með Félagi eldri borgara, höfðu bæði yndi af því að dansa og gerðu það reglulega, eins spiluðu þau mikið á ýmsum þjónustumiðstöðvum eldri borgara.

Við Diddi áttum margar góðar stundir saman. Höfðum kynni af svipuðum slóðum á landinu. Hann var fæddur á Skálum á Langanesi en fluttist 5 ára gamall með fjölskyldu sinni til Þórshafnar. Ólst þar upp og starfaði við sjósókn og annað sem til féll, rak meðal annars verslun þar til hann flutti til Reykjavíkur. Ég aftur á móti fæddur og uppalinn á Húsavík og starfaði þar fram um fimmtugsaldur. Þetta gaf okkur óþrjótandi umræðuefni.

Diddi hafði alltaf sterkar taugar til Þórshafnar. Árbók Ferðafélag Íslands árið 2013 fjallaði um Norðausturland, þar á meðal um Þistilfjörð og Langanes. Halldóra bað mig að útvega sér bókina, hún vildi gleðja Didda. Ég man hve Diddi var ánægður þegar hann fékk bókina í hendur.

Diddi fylgdist vel með þjóðmálum, var fróður um menn og málefni, ekki síst í sjávarbyggðum vítt og breitt um landið vegna starfa sinna eftir að hann flutti suður. Hann var hógvær í orðum, lagði aldrei illt til nokkurs manns en lífsskoðun hans var skýr. Ég kynntist því fljótt hve hann var traustur, sanngjarn og mikill mannvinur. Sérstaklega sá ég hve barngóður hann var. Augu hans bókstaflega ljómuðu þegar hann sagði okkur frá barnabörnum sínum og það gerði hann oft. Einnig tók hann ástfóstri við og fylgdist vel með barnabörnum Halldóru. Já, Diddi var gull af manni.

Að leiðarlokum viljum við Sibba þakka Didda af alhug fyrir þann félagsskap og gleði sem hann veitti móður hennar og hans miklu umhyggju og hjálpsemi á síðustu stundum í lífi hennar. Einnig viljum við þakka persónulega vináttu hans og elskusemi í okkar garð. Við biðjum fósturdóttur hans, fjölskyldu hennar og aðstandendum öllum blessunar Guðs.

Einar Guðni Njálsson,

Sigurbjörg Bjarnadóttir.