Við sjávarsíðuna Frá Grænubyggð er útsýni yfir til Keflavíkur. Sjávarlóðir eru til sölu.
Við sjávarsíðuna Frá Grænubyggð er útsýni yfir til Keflavíkur. Sjávarlóðir eru til sölu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sverrir Pálmason, lögmaður og fasteignasali, segir fyrirspurnum um lóðir í Grænubyggð hafa fjölgað eftir hina hörmulegu atburði í Grindavík. Grænabyggð er nýjasta hverfið í Vogum á Vatnsleysuströnd. Verktaki sem Morgunblaðið ræddi við hafði orð á því að hlutfall sérbýlis í Grindavík væri hátt

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sverrir Pálmason, lögmaður og fasteignasali, segir fyrirspurnum um lóðir í Grænubyggð hafa fjölgað eftir hina hörmulegu atburði í Grindavík.

Grænabyggð er nýjasta hverfið í Vogum á Vatnsleysuströnd.

Verktaki sem Morgunblaðið ræddi við hafði orð á því að hlutfall sérbýlis í Grindavík væri hátt. Taldi hann því að Grindvíkingar myndu helst sækja í sérbýli á Reykjanesi, fremur en til dæmis íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, ef þeir tækju ákvörðun um að flytja.

Af því tilefni kannaði blaðið stöðuna í Grænubyggð en þar er hátt hlutfall lóða ætlað undir sérbýli.

Sverrir segist merkja að verktakar og húsnæðisfélög séu að leita að húsnæði fyrir Grindvíkinga.

Lítið framboð á lóðum

„Ég finn fyrir auknum áhuga á lóðarkaupum hjá okkur og ég get tekið undir það sjónarmið að atburðirnir í Grindavík auki áhuga á lóðum undir sérbýli í nágrannasveitarfélögum. Ég er ekki svo viss um að það séu margar slíkar lóðir falar á stór-höfuðborgarsvæðinu, ef ég leyfi mér að taka Reykjanesið inn í þá jöfnu.

Þær lóðir sem við eigum eru mestmegnis lóðir undir sérbýli, annaðhvort sérhæðir eða lóðir undir raðhús. Jafnframt eigum við 11 einbýlishúsalóðir og svo eigum við inni seinni áfanga Grænubyggðar,“ segir Sverrir.

Sverrir leggur áherslu á að Grindvíkingum verði að gefast ráðrúm til að vinna úr erfiðri stöðu.

Hræðilegur atburður

„Maður getur ekki sett sig í þeirra spor. Þetta er hræðilegur atburður. Ég held að Grindvíkingar verði sjálfir að finna út hvar þeir vilja stinga niður fæti. Svo vill til að leigufélagið Bríet hefur verið að kaupa töluvert af eignum í hverfinu og einmitt fyrir Grindvíkinga. Þannig að ég held að það komi fljótt einhver reynsla á það hvort þetta sé eitthvað sem Grindvíkingum hugnast. Þetta er valmöguleiki og að lokum snýst þetta um hvað Grindvíkingar vilja gera,“ segir Sverrir.

Um 450 íbúðir eru í fyrri áfanga Grænubyggðar og hafa verið seldar lóðir undir 300 íbúðir. Því eru óseldar lóðir undir 150 íbúðir en búið er að leggja grunn að jarðvinnunni og mögulegt er að bregðast skjótt við ef svo ber undir.

Klárast vonandi í ár

Næstu áfangar, áfangar 6-10, eru í auglýsingaferli og vonast Sverrir til að því ljúki á þessu ári.

„Skipulagið klárast vonandi á þessu ári. Síðan þurfum við að eiga samtal við bæinn um hvernig framkvæmdahraðinn verður í þeim áföngum,“ segir Sverrir.

Um 1.400 manns bjuggu í Vogum í byrjun árs 2023 en tölur fyrir byrjun þessa árs liggja ekki fyrir.

Sverrir bendir á að miðað við að þrír til fjórir búi í 779 íbúðum í Grænubyggð muni um 2.100 til 3.200 manns bætast við íbúafjöldann í Vogum. Aukin aðsókn í íbúðarhúsnæði í Grænubyggð vegna hörmunganna í Grindavík gæti því orðið til að hraða þessari uppbyggingu en jafnframt þarf að byggja upp innviði, s.s. skóla og leikskóla.

Yfir 60 milljónir

Samkvæmt vefsjá fasteigna á vef Þjóðskrár Íslands var meðalverð seldra sérbýliseigna í Grindavík á tímabilinu frá 1. janúar 2022 til gærdagsins að meðaltali 61,45 milljónir króna. Leitað var að eignum sem voru 40-400 fermetrar.

Meðalstærð var 159 fermetrar og fermetraverðið að meðaltali 388 þúsund. Niðurstöðurnar byggðust á 94 kaupsamningum.

Höf.: Baldur Arnarson