Fjölskyldan Aðalsteinn og Inga með börnunum sínum. Standandi frá vinstri: Arnfríður, Þórir og Hólmfríður.
Fjölskyldan Aðalsteinn og Inga með börnunum sínum. Standandi frá vinstri: Arnfríður, Þórir og Hólmfríður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aðalsteinn Jóhann Skarphéðinsson fæddist 26. janúar 1944 í Skálabrekku á Húsavík þar sem hann bjó fyrstu ár ævinnar. „Fjögurra ára gamall flutti ég í Vallholt og eru fyrstu minningarnar tengdar þeim flutningi þar sem ég sat á þríhjóli á…

Aðalsteinn Jóhann Skarphéðinsson fæddist 26. janúar 1944 í Skálabrekku á Húsavík þar sem hann bjó fyrstu ár ævinnar.

„Fjögurra ára gamall flutti ég í Vallholt og eru fyrstu minningarnar tengdar þeim flutningi þar sem ég sat á þríhjóli á hlaðinu í Skálabrekku og horfði niður í Vallholt sem mér fannst svo óralangt í burtu. Í Vallholti hafði verið rekið sjúkraskýli en þegar hér var komið sögu voru þar tvær íbúðir. Fjölskyldan bjó á miðhæðinni og leigði út efri hæðina.“

Á barnsaldri fór Aðalsteinn í sveit í Hvamm í Þistilfirði þar sem móðurfjölskyldan átti rætur. „Amma mín, Jóhanna, var þá látin en Aðalsteinn afi bjó hjá Birni syni sínum og Hönnu konu hans. Það var fjórbýli í Hvammi, mjög fjölmennt og mikið af börnum.“

Ungur fór Aðalsteinn að vinna eins og tíðkaðist á þessum árum. Hann var eitt sumar hjá Áhaldahúsi Húsavíkur og tvö sumur í síld hjá Þór Péturssyni. Sextán ár fór hann til sjós á Pétri Jónssyni.

Úr Vallholti flutti fjölskyldan í Lönguvitleysu, raðhús á Garðarsbraut 61. „Gárungarnir kölluðu húsið þessu nafni því það var fyrsta raðhúsið á Húsavík. Lönguvitleysinga-nafnið festist við systkinin í Löngu og afkomendur þeirra.“

Nítján ára að aldri flutti Aðalsteinn í Sólbakka til Ingu unnustu sinnar og hófu þau sinn búskap þar. Í Sólbakka bjuggu þau í átta ár með foreldrum Ingu eða þar til þau fluttu í Baldursbrekku 4 á Húsavík; hús sem hann byggði sjálfur.

Aðalsteinn gekk í barna- og gagnfræðaskóla Húsavíkur og síðan Iðnskólann á Húsavík. Hann lærði húsasmíði frá árinu 1962 til 1966 og var á þeim tíma á samningi hjá trésmiðjunni Borg; Hann lauk sveinsprófi 1966 og fékk meistararéttindi í húsasmíði árið 1969. Húsasmíði varð svo ævistarf hans.

Aðalsteinn starfaði hjá Trésmiðju Jóns og Haraldar frá 1966 til 1977 og Norðurvík frá 1977 til 1991. Hann gerðist meðeigandi í Norðurvík árið 1984 og stjórnaði þar útiverkum. Hann stofnaði trésmiðjuna Vík árið 1991 og AS verk árið 2005.

Sem byggingameistari stjórnaði hann mörgum stórum verkum. Má þar t.d. nefna byggingu á flugstöðinni í Aðaldalshrauni, byggingu á sýslu- og lögreglustöðunni á Húsavík, innréttingu á heilsugæslunni á Húsavík og hann innréttaði tvær efstu hæðirnar fyrir Landsvirkjun á Háaleitisbraut.

Fyrirtækið AS verk, sem var að fullu í eigu Aðalsteins, tók m.a. að sér verkefni við að gera upp gömul hús á Austfjörðum um árabil. „Stærsta verkefnið fyrir austan var endurnýjun á gamla kaupfélagshúsinu á Fáskrúðsfirði. Var það einn besti tíminn á starfsferlinum, sem var farsæll og ánægjulegur.“

Aðalsteinn var formaður Sveinafélags iðnaðarmanna og síðar formaður Meistarafélags byggingamanna um skeið og sat í bæjarstjórn Húsavíkur í tvö ár.

„Vinnan átti hug minn allan og lítið var um áhugamál. Ég lék þó knattspyrnu með Völsungi og hef í gegnum tíðina ekki látið mig vanta á völlinn þegar meistaraflokkar Völsungs spila.“

Fjölskylda

Eiginkona Aðalsteins er Inga Þórisdóttir, f. 4.8. 1945 húsmóðir. Þau búa nú í Útgarði 4 á Húsavík. Foreldrar Ingu voru hjónin Arnfríður Karlsdóttir, f. 1905, d. 1976, húsmóðir og Þórir Friðgeirsson, f. 1901, d. 1996, aðalgjaldkeri Kaupfélags Þingeyinga og bókavörður. Þau bjuggu á Húsavík.

Börn Aðalsteins og Ingu eru: 1) Arnfríður, f. 1.6. 1963, félagsfræðingur, búsett í Eyjafjarðarsveit. Eiginmaður hennar er Jón Ingi Guðmundsson, f. 14.7. 1963, mjólkurfræðingur. Þau eiga samtals sex börn og 12 barnabörn; 2) Þórir, f. 5.8. 1964, viðskiptafræðingur og framhaldsskólakennari, búsettur á Húsavík. Eiginkona hans er Jóhanna Eydís Þórarinsdóttir, f. 25.12. 1964, framhaldsskólakennari. Þau eiga tvö börn; 3) Hólmfríður Jónína, f. 2.10. 1975, hjúkrunarfræðingur, búsett í Noregi. Eiginmaður hennar er Sigþór Ari Sigþórsson, f. 29.8. 1968, verkfræðingur. Þau eiga samtals fjögur börn og tvö barnabörn.

Foreldrar Aðalsteins voru hjónin Hólmfríður Jónína Aðalsteinsdóttir, f. 15.7. 1916, d. 13.1. 1990, húsmóðir og Skarphéðinn Jónasson, f. 11.1. 1917, d. 27.12. 1990, bifreiðarstjóri. Þau voru búsett á Húsavík. Systkini Aðalsteins voru 12 talsins, en þrjú eru látin.