Körfuboltinn
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Bikarmeistarar Vals eru enn með tveggja stiga forskot á toppi úrvalsdeildar karla í körfubolta eftir 90:79-sigur á Íslandsmeisturum Tindastóls á heimavelli sínum á Hlíðarenda í gærkvöldi. Leikurinn var liður í 15. umferðinni.
Á meðan Valsmenn eru á mikilli siglingu í toppsætinu gengur lítið hjá Tindastóli. Meistararnir hafa tapað fjórum leikjum í röð og eru í níunda sæti og ekki á leiðinni í úrslitakeppnina eins og sakir standa, en það gæti breyst.
Taiwo Badmus, sem lék með Tindastóli á síðustu leiktíð, skoraði 24 stig fyrir Val. Callum Lawson, sem lék með Val á sama tíma, skoraði 21 stig fyrir Tindastól.
Sannfærandi Njarðvíkingar
Njarðvík er enn aðeins tveimur stigum á eftir Val en Njarðvíkingar gerðu sér lítið fyrir og völtuðu yfir Álftanes á heimavelli, 89:51. Komu úrslitin á óvart því Álftanes hefur átt gott tímabil og verið í efri hlutanum allt tímabilið. Njarðvíkingar reyndust hins vegar of sterkir í gær.
Álftanes er nú í fimmta sæti og væntanlega á leiðinni í úrslitakeppnina, þrátt fyrir skellinn í gær.
Dominykas Milka skoraði 28 stig og tók átta fráköst fyrir Njarðvík. Cedrick Bowen var stigahæstur í slöku liði gestanna með tíu stig.
Haukar unnu fallslaginn
Haukar, sem hafa valdið miklum vonbrigðum á tímabilinu til þessa, unnu nauman 88:87-útisigur á stigalausu liði Hamars í Hveragerði. Með sigrinum slitu Haukar sig frá neðstu sætunum og eru nú fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.
Hamar getur farið að undirbúa sig fyrir lífið í 1. deild á nýjan leik en það er ansi hæpið að liðið vinni meirihlutann af þeim sjö leikjum sem eftir eru, þar sem því hefur ekki tekist að ná í einn sigur í fyrstu 15 leikjunum.
David Okeke skoraði 21 stig og tók átta fráköst fyrir Hauka. Franck Kamgain átti stórleik fyrir Hamar og skoraði 33 stig.
Grindvíkingar á siglingu
Grindavík er á mikilli siglingu og var 106:84-sigurinn á Breiðabliki sá fimmti í röð. Grindvíkingar hafa snúið bökum saman undir erfiðum kringumstæðum og látið verkin tala á körfuboltavellinum.
Leikurinn var leikinn í Smáranum og var heimaleikur Breiðabliks, en Grindavík hefur leikið heimaleiki sína að undanförnu í sama húsi og líður greinilega ágætlega í Kópavogi.
Á meðan Grindavík er á uppleið er Breiðablik nú í erfiðri stöðu, fjórum stigum frá öruggu sæti.
DeAndre Kane skoraði 29 stig og tók tíu fráköst fyrir Grindavík. Keith Jordan skoraði 20 stig fyrir Breiðablik.
Gott ferðalag Hattar
Loks vann Höttur sterkan 92:89-útisigur á Þór frá Þorlákshöfn og fór fyrir vikið upp í sjöunda sætið. Hattarmenn ætla sér í úrslitakeppnina í fyrsta skipti en liðið hélt sér uppi í efstu deild í fyrsta sinn á síðustu leiktíð og var aðeins tveimur stigum frá því að enda á meðal átta efstu. Hattarmenn hafa tekið góð skref áfram síðustu ár og sigurinn í gær var sterkur. Þór missti af tækifæri til að jafna Njarðvík í öðru sæti og er nú einn í þriðja sæti með 20 stig.
Nemanja Knezevic skoraði 20 stig og tók 14 fráköst fyrir Hött. Nigel Pruitt skoraði 21 stig og tók átta fráköst fyrir Þór.