Viðgerðir Enn er unnið að lagfæringum í Grindavík á degi hverjum.
Viðgerðir Enn er unnið að lagfæringum í Grindavík á degi hverjum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Til stóð að Grindvíkingar gætu lagt leið sína í Grindavík í dag en af því verður ekki, að sögn Víðis Reynissonar sviðsstjóra almannavarna. Vonir standa til að hægt verði að hleypa íbúum inn í bæinn um helgina þar sem þeir geti hugað að húsum sínum og sótt búslóðir sínar eða hluta þeirra.

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Til stóð að Grindvíkingar gætu lagt leið sína í Grindavík í dag en af því verður ekki, að sögn Víðis Reynissonar sviðsstjóra almannavarna. Vonir standa til að hægt verði að hleypa íbúum inn í bæinn um helgina þar sem þeir geti hugað að húsum sínum og sótt búslóðir sínar eða hluta þeirra.

„Vinna stendur yfir á fullu í viðgerðum á sprungum í bænum og þá setti veðrið strik í reikninginn. Í þessari hláku sem kom opnuðust fleiri sprungur og einhverjar skoluðust til,“ sagði Víðir í samtali við mbl.is í gær.

Veðurstofa Íslands gaf út uppfært hættumat í gær og þar kom fram að heildarhættumat fyrir Grindavík hefði verið fært niður í appselsínugult, sem þýðir að töluverð hætta sé í bænum. Í tilkynningu Veðurstofunnar sagði að þótt heildarhættumatið hefði verið fært niður um eitt stig væri hætta í tengslum við sprungur áfram metin mjög mikil.

Vinna í öllum innviðum

Víðir var inntur eftir því hvers vegna heildarhættumatið hefði verið fært niður um stig. „Það er fyrst og fremst vegna minnkandi eldgosahættu. Eins og staðan er núna þá telja vísindamenn að við séum í ákveðnu skjóli þangað til kvikan verður búin að safnast eins mikið saman og fyrir síðasta gos. Þó svo að landrisið sé hratt þá höfum við einhvern tíma núna,“ segir Víðir.

Hann segir að í hættumatinu sé sprunguopnun ennþá í hæsta flokki og af því hafi menn mestar áhyggjur varðandi öryggi fólks á svæðinu. Vísindamenn telja enn talsverðar líkur á eldgosi á næstu vikum og segir Víðir að almannavarnir séu vel meðvitaðar um að af því geti orðið.

„Þess vegna erum við að reyna að búa til þennan glugga eins hratt og hægt er, fyrir íbúa að komast inn í bæinn. Það stendur yfir vinna í öllum innviðum og það er mikil vinna í gangi varðandi hita og rafmagn. Við erum með marga hópa sem vinna að viðgerðum í bænum. Við viljum hraða þessari vinnu eins og hægt er en fyllsta öryggis er að sjálfsögðu gætt,“ segir Víðir.

Kaldavatnslaust er í Grindavík en Víðir segir að þeir pípulagningamenn sem voru sendir inn í bæinn á vegum almannavarna hafi unnið kraftaverk við að koma hita á húsin og koma í veg fyrir vatns- og lagnatjón. Þeirra vinna hafi bjargað gríðarlegum verðmætum

Jarðsjárdrónar hafa verið notaðir til að fljúga yfir svæðið og skoða aðstæður og nú er til skoðunar að hleypa þeim íbúum sem búa vestan Víkurbrautar inn í bæinn um helgina. Víðir segir að svæðinu verði skipt upp í hólf þannig að það verði hleypt inn í hvert hólf eftir ákveðnu skipulagi. Hann segir að á svæðinu austan Víkurbrautar eigi enn eftir að gera mikið við og það sé erfiðara og óöruggara svæði.

70 manns að störfum í bænum

Síðustu daga og vikur hafa iðnaðarmenn farið að minnsta kosti tvisvar inn í öll hús vestan Víkurbrautar og almannavarnir reikna með að sama eigi við um hús sem standa við götur austan megin við Víkurbrautina. Um 70 manns voru að störfum við ýmis verkefni í Grindavík í gær.

Land hefur risið um 8 millimetra á dag í Svartsengi á undanförnum dögum. Það er örlítið hraðara landris en mældist fyrir eldgosið þann 14. janúar. Veðurstofan segir að erfitt sé að fullyrða um hversu mikil kvika hafi safnast fyrir frá því gosinu lauk 16. janúar.

Skjálftavirknin á svæðinu er áfram væg og mestmegnis í kringum Hagafell. Virknin sem mælist er í takt við þá virkni sem sést hefur á svæðinu í kjölfar eldgosa.

Höf.: Guðmundur Hilmarsson