Guðbjörg Jóhannsdóttir fæddist 29. apríl 1927. Hún lést 31. desember 2023.
Útför hennar fór fram 24. janúar 2024.
Það er erfitt að hugsa til þess að heyra ekki frá þér lengur og eiga við þig spjall um daginn og veginn.
Þú hefur verið mínu fólki stoð og stytta og við fjölskyldan höfum notið þess að hafa þig hjá okkur um langt skeið og minningarnar eru fjölmargar, allt frá því að hafa búið í Norðurbrúninni, unglingsárin á Fitjum og í Mávanesinu og ekki síst eftir því sem tíminn leið bæði í Rauðagerðinu og nú síðast í Lönguhlíðinni. Og ekki síst eftir að pabbi dó og þú fékkst það hlutverk að stýra okkur stórfjölskyldunni og halda utan um þennan stóra hóp sem við erum.
Það er varla hægt að hugsa sér betri móður en þig og minning um þig mun sannarlega lifa áfram með okkur börnum, mökum og afkomendum um áraraðir. Þú hefur reynt að kenna manni réttsýni og fært veganesti sem ég mun ávallt varðveita.
Það má sannarlega segja að ævi þín hefur verið löng og merkileg, verkefnin mörg og óhætt að segja að reynsla þín af lífinu og víðsýni hafi nýst þínu fólki vel og þau mörgu ráð sem þú hefur veitt verið minnisstæð og gagnleg.
Það eru margir sem munu hugsa til þín og rifja upp þína hlýju nærveru og strauma. Nú er verkefnunum lokið og þú getur farið að hvíla þig, guð blessi þig og varðveiti.
Þinn sonur,
Árni og fjölskylda.
Amma Guðbjörg var mín fyrirmynd í lífinu og átti stóran hlut í hjarta mínu. Hún var uppáhalds. Algerlega einstök og okkar samband var einstakt. Jákvæð. Ávallt bjartsýn og dugleg. Gafst aldrei upp, sama hverju lífið kastaði til hennar.
Sagðist ekki alveg vera tilbúin að fara. Ætti eftir að gera svo margt. Tók í hönd hennar og sagði henni að henni væri óhætt að sleppa, hún væri búin að gera nóg.
Finnst þér það Guðbjörg mín. Smá bros. Síðasta brosið, það mikilvægasta.
Takk fyrir allt elsku amma, takk.
Þín
Guðbjörg Rós.
Amma var undirstaða fjölskyldunnar, þekkt fyrir sitt hlýja bros, jákvæðni og einstaka hæfileika til að muna afmæli, nöfn og sérstök tímamót. Hún var stoðin og styttan í lífi okkar, alltaf til staðar til að styðja, hlusta og hlæja með okkur.
Ein af mínum uppáhaldsminningum sem ég mun alltaf eiga að eru þær stundir sem við amma spiluðum lönguvitleysu og ólsen ólsen saman. Þótt ég hafi svindlað oft, þá þóttist hún aldrei taka eftir því. Sem endurspeglar hennar þolinmæði og kærleiksríka eðli.
Í heimsóknum okkar í Lönguhlíð, þar sem hún bjó síðustu árin, blómstraði hún áfram með sögum og brosi. Hún sýndi okkur orkídeurnar sínar með stolti, og sú minning endurspeglar vel hennar óbilandi ástríðu fyrir lífinu og náttúrunni.
Amma kenndi okkur að vera jákvæð, gleðjast yfir lífinu og hugsa vel um fjölskylduna og vini. Hún sýndi okkur hvernig maður lifir lífinu til fulls, með gleði og þakklæti.
Við minnumst hennar sem ótrúlega öflugrar konu, sem gaf allt sitt til barna sinna og barnabarna, og samt var hún alltaf svo glöð og jákvæð. Hún var tákn um kærleika og styrk, og mun alltaf vera í hjörtum okkar.
Elsku amma. Takk fyrir að bíða eftir stundinni þinni með Óliver Áka, við munum sýna honum myndina af ykkur saman og segja honum sögurnar úr sveitinni af hænum, kisum og geitum. Kenna honum að vera góður við fuglana og blómin.
Við kveðjum þig með bæninni sem þú söngst svo fallega:
Ó, Jesús bróðir besti
og barnavinur mesti,
æ breið þú blessun þína
á barnæskuna mína.
(Páll Jónsson)
Margrét Rún,
Þorvarður Örn og
Finnbogi Örn.
Stuttu eftir að ég kynntist Kristjönu konu minni bauð hún mér með sér á þorrablót. Þetta var árlegt þorrablót hjá móðurfjölskyldu hennar. Blótið var náttúrlega ágætasta skemmtun og líklega gerðu ekki allir ráð fyrir að þetta mánaðarlanga samband myndi verða jafn langt og það er orðið. Þarna hitti ég ömmu Guðbjörgu í fyrsta skipti. Hún var allt öðruvísi amma en ég átti að venjast, svo ung í anda. Hún t.d. stalst með okkur í syndina þegar tók að líða á kvöldið og fékk sér eina sígarettu með okkur.
Eftir því sem ég varð meiri partur af fjölskyldunni og börnunum fjölgaði var amma Guðbjörg meiri og meiri partur af lífinu. Hún tók þátt í öllum viðburðum með okkur, hvort sem það voru skírnir, afmæli, brúðkaup, útskriftir eða jólin þá var hún með. Og hún gerði þetta líka með öllum hinum afkomendum sínum sem voru margir en Guðbjörg eignaðist tíu börn á sinni lífsleið. Hún var alltaf að og var alltaf hrókur alls fagnaðar. Það mættu margir taka til fyrirmyndar lífshlaup hennar en hún lifði lífinu sannarlega lifandi.
Ég er mjög þakklátur fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og símtölin sem voru ófá en maður vissi alltaf þegar hún hringdi því hún hringdi í heimasímann. Takk fyrir allt amma Guðbjörg og góða ferð.
Guðmann.