Garbhan Coughlan, gulklæddur, í leik með Cashmere Technical.
Garbhan Coughlan, gulklæddur, í leik með Cashmere Technical. — AFP/Mitchell Cozzone
Hvaða dauðlegur sparkandi í þessum heimi væri ekki til í að heyra nafn sitt nefnt í sömu andrá og Cristiano Ronaldo, Kylian Mbappé, Harry Kane og Erling Haaland? Írski miðherjinn Garbhan Coughlan, sem leikur með Cashmere Technical í Nýja-Sjálandi,…

Hvaða dauðlegur sparkandi í þessum heimi væri ekki til í að heyra nafn sitt nefnt í sömu andrá og Cristiano Ronaldo, Kylian Mbappé, Harry Kane og Erling Haaland? Írski miðherjinn Garbhan Coughlan, sem leikur með Cashmere Technical í Nýja-Sjálandi, náði að haka í þetta box á dögunum, þegar kunngjört var hverjir fimm markahæstu leikmenn heims væru fyrir árið 2023. Okkar maður var sumsé í fimmta sæti á eftir goðsögnunum fjórum. Setti 42 mörk á liðnu ári, þar af 39 í deildinni. Ronaldo var efstur með 54.

„Þetta er súrrealískt,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Coughlan, sem er 31 árs að aldri. „Við kærastan mín, Hayley, höfum verið að spauga með þetta og ég er að spá í að ramma þennan lista inn með treyjunni minni og hengja upp á vegg. Þetta er nokkuð sem aldrei gleymist. Það er mjög skrýtið að sjá nafnið sitt í samhengi við þessa menn – en um leið býsna svalt.“

Ekki spillti fyrir að Coughlan dáðist að Ronaldo meðan hann var að vaxa úr grasi heima í Limerick. Árið 2015 fékk hann tilboð um að koma til Nýja-Sjálands og ætlaði í fyrstu bara að vera í hálft ár en þar er hann enn og raðar inn mörkunum. Auk þess að leika með Cashmere Technical gegnir hann nú starfi yfirmanns knattspyrnumála.

Rúgbí er þjóðaríþrótt Nýsjálendinga en knattspyrna er á hraðri uppleið, árið 2022 voru skráðir iðkendur 140 þúsund.