Eyjar Hluti fjölskyldu Sigurjóns við afhendingu Fréttapýramídanna, f.v. Gylfi Sigurjónsson, Erna Sævaldsdóttir, Sigurjón, Sigurlaug Alfreðsdóttir, eiginkona Sigurjóns, Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir og Daði Pálsson.
Eyjar Hluti fjölskyldu Sigurjóns við afhendingu Fréttapýramídanna, f.v. Gylfi Sigurjónsson, Erna Sævaldsdóttir, Sigurjón, Sigurlaug Alfreðsdóttir, eiginkona Sigurjóns, Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir og Daði Pálsson. — Ljósmynd/Addi í London
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á tímamótum. Árleg afhending Fréttapýramídanna er eins konar uppskeruhátíð Eyjafrétta og eyjafrétta.is og um leið skemmtilegt uppbrot á hversdeginum í Eyjum í upphafi árs. Fréttir, seinna Eyjafréttir, fagna 50 ára afmæli á þessu ári og verður þess…

Úr bæjarlífinu

Ómar Garðarsson

Eyjum

Á tímamótum. Árleg afhending Fréttapýramídanna er eins konar uppskeruhátíð Eyjafrétta og eyjafrétta.is og um leið skemmtilegt uppbrot á hversdeginum í Eyjum í upphafi árs. Fréttir, seinna Eyjafréttir, fagna 50 ára afmæli á þessu ári og verður þess minnst með ýmsum hætti að því er kom fram við afhendingu Fréttapýramídanna 2023 í Eldheimum í byrjun árs að viðstöddum fjölda gesta.

Upphafið. Það var árið 1992 að útgefendur blaðsins Frétta ákváðu að beita sér fyrir nýjung í menningarlífi bæjarins með afhendingu svonefndra Fréttapýramída til þriggja aðila sem hefðu unnið að góðum málefnum í þágu bæjarfélagsins. Pýramídana það ár hlutu Valur Andersen fyrir framlag sitt til bættra samgangna, Sigurður Gunnarsson fyrir framlag sitt til handknattleiksmála og Haraldur Guðnason fyrir störf sín að menningarmálum. Hugmyndina átti Magnús Kristinsson fyrrverandi útgerðarmaður.

Eyjafólk ársins er Sigurjón Óskarsson, fyrrverandi skipstjóri og útgerðarmaður, og fjölskylda fyrir framlag til atvinnuuppbyggingar í Vestmannaeyjum í bráðum 80 ár. Á árinu 2023 lauk útgerðar- og fiskvinnslusögu fjölskyldunnar en þá tók við nýr kafli. Er fjölskyldan í fararbroddi í uppbyggingu laxeldisfyrirtækisins Laxeyjar sem hleypir nýjum krafti í atvinnulíf í Eyjum. Um er að ræða stærstu einstöku framkvæmd í sögu Vestmannaeyja sem skapar störf og verðmæti.

Framtak í menningarmálum. Hjónin Bjarni Ólafur Guðmundsson og Guðrún Mary Ólafsdóttir standa fyrir Eyjatónleikum í Hörpu, þeir þrettándu eru í kvöld. Upphafið voru tónleikar árið 2011 á 100 ára afmælisdegi Oddgeirs Kristjánssonar. Seinna voru Ása í Bæ gerð skil á aldarafmæli hans. Þeir lögðu grunninn að þeim mikla bálki sem Eyjalögin eru. Tónlistin er í fyrirrúmi en tónleikarnir eru líka eitt stærsta ætta- og vinamót landsins. Um leið halda Bjarni Ólafur og Guðrún Mary á loft þeim mikla menningararfi sem Eyjalögin eru.

Framlag til félags- og menningarmála. Arnar Sigurmundsson fyrrverandi framkvæmdastjóri hefur víða komið við þegar kemur að félags- og menningarmálum í Vestmannaeyjum og um land allt. Arnar hefur komið að sögulegum viðburðum og verið í forystu ýmissa félaga og er enn.

Framlag til íþróttamála. Erlingur Birgir Richardsson hefur ásamt góðu fólki verið ein aðaldriffjöðrin í uppbyggingu handboltans í Vestmannaeyjum síðustu ár. Undir stjórn Erlings tryggði karlalið ÍBV sér Íslandsmeistaratitil í handbolta síðastliðið vor. Erlingur hefur þjálfað erlendis og er nú þjálfari landsliðs Sádi-Arabíu.

Komust á stóra sviðið. Leikfélag Vestmannaeyja setti upp The Rocky Horror Show. Aðsókn var góð og hlotnaðist félaginu sá heiður að fá að sýna Rocky Horror á stóra sviði Þjóðleikhússins í júní. Uppselt var og viðtökur stórkostlegar sem er mikil viðurkenning fyrir starf leikfélagsins sem stendur á gömlum merg. Fyrir það var LV veittur viðurkenningarvottur við veitingu Fréttapýramídanna.

Áhugaverðar hafrannsóknir. Næsta sumar verða Vestmannaeyjar miðstöð umfangsmikilla rannsókna í hafinu suður af Eyjum. Ætlunin er að nota fjarstýrða kafbáta hlaðna hátæknibúnaði sem eiga að taka margs konar sýni úr sjónum og greina þau um leið. Bátarnir þurfa að koma upp á yfirborðið einu sinni á sólarhring til að senda gögn í gegn um gervihnött til rannsóknaskips á vegum bresku hafrannsóknastofnunarinnar (BH).

Rannsóknaskipið verður á hafsvæðinu á milli Íslands og Færeyja meðan á rannsóknunum stendur. Bretarnir voru í vettvangsferð hér í Vestmannaeyjum í haust og kynntu áhugasömum Eyjamönnum verkefnið í Þekkingarsetri Vestmannaeyja (ÞSV). Auk setursins og Vestmannaeyjabæjar eru Háskóli Íslands og Hafrannsóknastofnun samstarfsaðilar hér á landi. Í svona gríðarlega flóknu verkefni koma margar aðrar stofnanir að og sem dæmi má nefna Fiskistofu, Landhelgisgæslu Íslands og Háskólann í Southampton og Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi.

Höf.: Ómar Garðarsson