Gasa Meðlimir palestínskrar fjölskyldu fylgjast með því þegar niðurstaða Alþjóðadómstólsins í Haag í Hollandi var lesin upp í gær.
Gasa Meðlimir palestínskrar fjölskyldu fylgjast með því þegar niðurstaða Alþjóðadómstólsins í Haag í Hollandi var lesin upp í gær. — AFP
Niðurstaða Alþjóðadómstólsins í Haag, í máli Suður-Afríku gegn Ísrael vegna meints þjóðarmorðs á Gasa, var kynnt í gær. Dómstóllinn skipaði Ísraelum að grípa strax til ráðstafana til að koma í veg fyrir frekara mannfall og þjóðarmorð á Gasa

Helena Björk Bjarkadóttir

helena@mbl.is

Niðurstaða Alþjóðadómstólsins í Haag, í máli Suður-Afríku gegn Ísrael vegna meints þjóðarmorðs á Gasa, var kynnt í gær. Dómstóllinn skipaði Ísraelum að grípa strax til ráðstafana til að koma í veg fyrir frekara mannfall og þjóðarmorð á Gasa. Ísrael var ekki gert að hætta árásum á Gasa í úrskurðinum.

Suður-Afríka, sem styður eindregið Palestínumenn, bað dómstólinn að gefa út níu bráðabirgðaráðstafanir, þar á meðal að stöðva hernaðaraðgerðir Ísraela, á meðan dómurinn íhugar ákæru um þjóðarmorð.

Í víðtækum úrskurði dómstólsins í málinu greiddi meirihluti 17 dómara dómstólsins atkvæði með brýnum ráðstöfunum sem ná yfir flestar kröfur Suður-Afríku. Undantekningin var að fyrirskipa að Ísrael léti af hernaðaraðgerðum á Gasa.

Fulltrúar Ísraels og Suður-Afríku báru vitni þegar málið var opnað fyrir tveimur vikum. Ísraelar hafa harðlega hafnað ásökunum um þjóðarmorð.

Bráðabirgðaniðurstaða

Á þessu stigi var dómstóllinn ekki að íhuga hvort Ísrael væri í raun að fremja þjóðarmorð á Gasa, en það ferli mun taka nokkur ár. Dómstóllinn hefur hafnað beiðni Ísraels um að vísa frá ásökunum um þjóðarmorð. Forseti dómstólsins, Joan E. Donoghue, sagði dómstólinn hafa komist að þeirri niðurstöðu að Ísraelar yrðu að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að koma í veg fyrir aðgerðir sem falla undir sáttmála Sameinuðu þjóðanna um þjóðarmorð.

Dómstóllinn skipar Ísraelum að grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir, og gera það jafnframt refsivert, að hvatt sé til þjóðarmorðs. Ísraelar verða einnig að tryggja varðveislu sönnunargagna um meint þjóðarmorð og skal ríkið skila inn skýrslu um allar ráðstafanir sem gerðar eru til að fylgja eftir skipunum dómstólsins.

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um þjóðarmorð var tekinn í gildi 1948 eftir fjöldamorð á gyðingum í helför nasista. Sáttmálinn skilgreinir þjóðarmorð sem gjörðir sem hafa það að markmiði að uppræta að hluta eða heild hópa, sem skilgreinast út frá þjóðerni, ættbálki, kynþátti eða trú.

Samkvæmt dómnum eru Palestínumenn sérstakur þjóðernis-, kynþátta- eða trúarhópur og þar af leiðandi verndaður hópur í skilningi 2. greinar sáttmálans.

„Halda áfram að verja sig“

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels hefur brugðist við úrskurði Alþjóðadómstólsins. Hann sagði í ávarpi í gær: „Við munum halda áfram að verja okkur og borgara okkar ásamt því að fylgja alþjóðalögum.“ Þá bætti hann einnig við að Ísrael háðu „eins réttlátt stríð og það getur orðið“. Hann fagnaði því að dómstóllinn hefði ekki fyrirskipað vopnahlé.

Öryggisráðherra Ísraels, Itamar Ben-Gvir, brást við úrskurðinum í tísti á samfélagsmiðlinum X þar sem hann skrifaði „Hague Shmague“, sem gefur til kynna að hann taki niðurstöðunni ekki alvarlega. Ísraelar hafa vísað máli Suður-Afríku á bug sem „gróflega brenglaðri sögu“ og sagt að ef þjóðarmorð hefði verið framið þá hefði það verið þegar Hamas réðst á Ísrael í árásunum 7. október sl.

Riyad Al-Maliki utanríkisráðherra Palestínu lét þau orð falla í kjölfar niðurstöðunnar að dómstóllinn hefði úrskurðað mannkyni í hag og hefði niðurstaðan verið í samræmi við alþjóðalög.

Alþjóðadómstóllinn hefur engar leiðir til þess að framfylgja skipunum sínum. Til að mynda skipaði dómstóllinn Rússlandi að binda enda á stríð sitt gegn Úkraínu mánuði eftir að átökin þar hófust, en án árangurs.

Aftur á móti hafa lögspekingar bent á að niðurstaða dómsins gæti haft áhrif á alþjóðasamfélagið. Úrskurðurinn hefur táknræn áhrif ásamt því að geta haft áþreifanlegar afleiðingar þar sem niðurstaðan gerir það erfiðara fyrir önnur ríki að styðja Ísrael í ljósi þess að hlutlaus þriðji aðili kemst að því að hætta sé á þjóðarmorði.

Gríðarlegt mannfall

Donoghue sagði í ávarpi sínu dómstólinn hafa miklar áhyggjur af mannfalli á Gasa.

Meira en 25.000 Palestínumenn, meirihlutinn konur og börn, hafa verið drepnir og tugir þúsunda slasast, að sögn heilbrigðisráðuneytisins á Gasa, sem Hamas rekur, síðan Ísrael hóf árásir sínar á Gasa í kjölfar árásar Hamas í Ísrael 7. október. Um 1.300 manns létu lífið í árásinni. Árásarmennirnir fóru einnig með um 250 manns aftur til Gasa sem gísla.

Úrskurðurinn hefur kallað fram viðbrögð um allan heim, þar á meðal hér á landi. Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins segir að íslensk stjórnvöld hafi ítrekað kallað eftir vopnahléi af mannúðarástæðum í yfirstandandi átökum til þess að lina þjáningar íbúa Gasa. Ákvörðun Alþjóðadómstólsins í dag um bráðabirgðaráðstafanir er til marks um þá neyð sem ríkir á Gasa og skyldur stríðandi fylkinga til að vernda borgara. Íslensk stjórnvöld tóku ekki afstöðu til kæru Suður-Afríku.