— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Rétt rúmir níu mánuðir eru nú til kosninga í Bandaríkjunum og fram til þessa hefur baráttan helst staðið yfir í flokki Repúblikana og beinist því einkum inn á við.

Rétt rúmir níu mánuðir eru nú til kosninga í Bandaríkjunum og fram til þessa hefur baráttan helst staðið yfir í flokki Repúblikana og beinist því einkum inn á við.

Flokkurinn, sem hverju sinni er í andstöðu við sitjandi forseta, þarf að keppa um það hver skuli leiða hann í kosningunum. Forsetinn getur á hinn bóginn að mestu ráðið því hvort hann sækist eftir öðru kjörtímabili eða ekki. En hin óskráða regla býður, á hinn bóginn, flokknum sem er í stjórnarandstöðu við „Hvíta húsið“ og sitjandi ráðsmann þar upp á óhjákvæmileg innri átök um sitt forsetaefni. Þá tekst allstór hópur flokksmanna á um oddvitasæti þess flokks. Demókrataflokkurinn veit ekki annað en að Joe Biden sækist eftir endurkosningu og það þótt efasemdir séu í flokki forsetans sjálfs um getu hans til að gegna þessu „þýðingarmesta“ embætti landsins, og heimsins. Enn er þó tími til stefnu vilji öfl innan flokks koma því í kring að forsetinn víki fyrir öðru forsetaefni. Dæmi Lyndons Johnsons forseta sýnir að forsetinn einn hélt utan um þá ákvörðun hvort hann yrði í framboði á ný. Og hann dró þá ákvörðun til síðustu stundar, þegar aðeins voru þrír mánuðir í kosningar. Johnson átti í innri baráttu, en ofan á varð það mat að Víetnamstríðið, og hann sem persónugervingur þess, myndi gera Johnson erfitt um sigursælt framboð. Hann hafði unnið glæsilegan sigur í kosningum fjórum árum fyrr en það breytti engu. Munurinn var að Johnson átti frambærilegt efni í varaforseta, Hubert Humphrey, sem gæti átt sínar sigurlíkur. Hann var burðugur frambjóðandi, sem myndi valda embættinu. Svo fór að Nixon, forsetaefni Repúblikana, sem tapaði naumlega í slag við Kennedy 1960, vann Humphrey 1968 og hlaut svo endurkosningu. Það var svo Watergate, sem Nixon hafði hvergi komið nærri en misst sig við að verja sína menn, sem varð hans banabiti. Almennt álit vestra er að Harris varaforseti hafi tæpast burði til að rísa undir framboði, hvað þá að gegna embætti forseta. Obama réði mestu um val Harris sem varaforsetaefnis Bidens.

Ömurlegt að horfa upp á

Kosningar í New Hampshire voru sl. þriðjudag. Vikurnar á undan höfðu margir úr hópi keppinauta Trumps tilkynnt að baráttu þeirra væri lokið, enda fylgi flestra lítið og stuðningsmenn úr hópi efnamanna horfnir á braut. Sá síðasti var ríkisstjórinn í Flórída, Ron DeSantis, sem andstæðingar Trumps innan flokks litu helst á sem vonarpening. Ron DeSantis þykir hafa staðið sig frábærlega sem ríkisstjóri í Flórída og styrkt eigin stöðu og fylkisins mjög. Eitt af mörgum merkjum þess er að straumur er til Flórída frá þeim fylkjum sem Demókratar stjórna og eru mörg í miklu uppnámi, vegna aukinnar glæpatíðni enda verið slegið mjög úr kröfum um festu í þeim efnum. Verslunareigendur í borgum þar hafa margir neyðst til að lokað starfsemi sinni í „bláu“ borgunum og leitað skjóls hjá fylkjum í „rauðum“ borgum (blátt er litur Demókrata, rautt Repúblikana!) sem eru í mun betra standi, og að fá að starta starfsemi sinni þar á ný. Þannig eru fræg og myndarleg fylki eins og Kalifornía og New York komin í hreint óefni, svo ekki sé talað um Síkakó, en þar er glæpatíðni orðin með ólíkindum. Allar þessar „bláu borgir“ höfðu skilgreint sig fyrir nokkru sem „a sanctuary city“, og kölluðu þar með til sín flóttamenn um galopin suðurlandamæri Bandaríkjanna, sem Biden setti á oddinn frá fyrsta degi í embætti. Það voru mikil mistök. Víða hefur verið slegið upp tjöldum dópista og útigangsmanna meðfram götum, sem áður voru taldar perlur í borgarmyndinni, eins og t.d. San Francisco, sem er eitt af dapurlegustu dæmunum, með tilheyrandi og vaxandi glæpaöldu.

Hreingerning fyrir forseta Kína en ekki hina

Fræg torg og götur hafa orðið ömurleikanum að bráð og búa útigangsmenn í tjaldræflum og pappakössum og snapa sér dóp. Þegar forseti Kína kom til fundar við Biden starfsbróður sinn í Kaliforníu gerði ríkisstjórinn þar mikið hreinsunarátak, svo að ósköpin blöstu ekki við kínversku gestunum. Þegar gestirnir höfðu kvatt fór allt í sama horf á aðeins fáeinum dögum. Í Kaliforníu og víðar í „bláum borgum“, neitar lögreglan, sem hefur að auki skroppið saman í styrk, að skipta sér af og hvað þá að ákæra, séu brot einstaklings, svo sem þjófnaður, talin vera undir þúsund dollurum (um 130.000 krónur). Frambjóðendur Demókrata í mörgum borgum og ríkjum, þar sem þeir eru öflugastir, fóru fram með sem eina af aðalkröfum sínum að „defund“ lögregluna, þrengja að framlögum til lögreglu með það sem markmið að fækka í hópi hennar. Ömurlegt er að horfa á, margoft í viku viku hverri, að glæpagengin fjölmenna í verslanir, láta þar greipar sópa, brjóta og bramla, og starfsfólkið horfir varnarlaust á. Og það fólk má eiga von á annarri eins sendingu, enda ef glæpastóðið er svo sem tíu saman, þá er þýfið undir milljón íslenskar krónur í hvert skipti. Dapurlegt er að hugsa sér að svona skuli vera komið fyrir þessu mikla og glæsilega fylki, sem einu sinni var stjórnað af Ronald Reagan, síðar forseta, og sjálfum Arnold Schwarzenegger í annan tíma. Verslunareigendur þarna hafa gefist upp á óöldinni, hver á fætur öðrum, og skyldi engan undra. Straumurinn liggur þaðan til fylkja á borð við Flórída og Texas og önnur rauð ríki. En afgreiðslufólkið hefur ekki afl til að fylgja vinnuveitendum sínum eftir um þúsundir kílómetra og koma sér fyrir á ný. Atvinnuleysið blasir því við mörgum sem geta illa bjargað sér. Þeir sem fara yfir fyrrnefnt lágmark eru færðir á lögreglustöð og skráðir í kladdann og sleppt að því loknu. Sömu aðferð er beitt gegn ólöglegum flóttamönnum. Í vikunni var sagt frá hertum glæpamanni, sem var handtekinn í 40. sinn og sleppt að lokinni skráningu. Sömu vandræðin eru í New York. Skrifstofubyggingar standa auðar í stórum stíl, og sífellt fleiri veigra sér við að nýta neðanjarðarlestirnar vegna hættuástandsins sem þar ríkir.

Trump og dvergarnir sjö

Allt þetta og fleira í þeim dúr er sennilega meginskýring þess að Donald Trump skuli hafa svo þétt fylgi eins og tölurnar sýna, hvað svo sem gerist á kjördag. Trump vann í fyrsta prófkjörinu með miklum yfirburðum. Það var í Iowa. Trump fékk þá 51% fylgi, Ron DeSantis 21,2% og Nikki Haley 19,1%. DeSantis hætti baráttu sinni eftir þessi úrslit, en ekki Haley, sem segist ekki á förum. Hún sagði að staða hennar í baráttunni við Trump myndi gjörbreytast þegar þau kepptu ein. En í kosningum í New Hampshire vann Trump sannfærandi sigur og voru 12% á milli þeirra, 55%-43%. Athygli vekur að það eru mest auðkýfingar úr röðum Demókrata sem styðja Haley í baráttu hennar við Trump. Næst verður kosið í Nevada og mun Haley ekki keppa þar. Þá er það Suður-Karólína, en þar var Haley ríkisstjóri á sínum tíma, en Trump mælist nú þar með mikið fylgi. Getgátur eru um að Haley muni draga sig til baka eftir Suður-Karólínu eða jafnvel í aðdraganda prófkjörsins, ef kannanir sýna þá enn svipaða stöðu og nú. Þann hátt hafði DeSantis á og lýsti í framhaldinu yfir stuðningi við Trump. Allir helstu áhrifamenn í Suður-Karólínu hafa þegar lýst yfir stuðningi við Trump, en það þarf ekki að segja alla söguna. Haley verður á heimavelli í Suður-Karólínu. Hún var þar ríkisstjóri í átta ár og vel liðin. Athyglisvert var að fylgjast með umræðum á CNN, en sú sjónvarpsstöð gengur langt í andstöðu sinni við Donald Trump og hefur nú tilkynnt að hún muni ekki flytja mikilvægar ræður hans beint, því að hún þurfi að fara yfir þær áður og vera viss um að farið sé rétt með allt sem þar er sagt. Grínistarnir bentu á að ekki væri óhætt að flytja ræður Bidens beint og varlegast að fá sérfræðingahóp til að geta sér til hvað hann sagði, sem oft er óljóst og stundum óskiljanlegt.

En talandi um bandaríska forseta þá fékk bréfritari bók um jólin. Hún heitir The Politically Incorrect Guide to the Presidents: From Wilson to Obama. Bókin kom fyrst út 2012. Höfundurinn hefur gefið út fjölda bóka og verið fastur penni hjá The Wall Street Journal og öðrum merkum fjölmiðlum. Hann tekur fyrrnefnda forseta fyrir og þá sem voru þar á milli og efast um margt af því sem litið er á sem heilagan sannleik. Hann gefur dæmi um hvernig forsetar hafi smám saman færst í guðlega tölu og ímyndun um hvað þeir geti gert fyrir viðkomandi og þjóðina. Hann fjallar líka um hvernig forsetarnir, sem í hlut eiga, hafa umgengist stjórnarskrá landsins og er það blettur á mörgum.

Eins og kerlingin sagði

Bréfritari lagðist óvænt inn á Landspítala í fimm daga á milli jóla og nýárs. Þar rakst hann á göngum spítalans á skemmtilegan mann sem gladdi hann með frumsömdum gamansögum. Einhverjar voru þó gamalkunnar og bréfritari kannaðist við þær. Þú ert á Mogganum, sagði hann, og ég held að þessi fyrirsögn sé þaðan: „Látnir lausir að lokinni krufningu“. Og þessi er úr drottningarviðtali: „Sá einn kemst áfram sem skipuleggur tíma sinn í stórum dráttum. Það er t.d. nauðsynlegt að taka átta tíma á dag í vinnu og átta tíma í svefn. Skipulagið felst í því að þetta séu ekki sömu átta tímarnir.“ Og svo var það „gamla konan sem tók „pilluna“ af því að hún vildi ekki eignast fleiri barnabörn“. Og svo stjórnmálamennirnir: „Góður stjórnmálamaður hugsar sig tvisvar um áður en hann segir ekkert.“ „Nú er þingið að koma saman rétt einu sinni – stærsta dagvistarstofnunin fyrir fullorðna. Einn þeirra sagði: „Sannleikurinn er það dýrmætasta sem við eigum. Við skulum því fara varlega með hann.““ Og svo strákarnir að metast um ágæti pabbanna: „Pabbi er svo fljótur að hlaupa, að skjóti hann ör af boga er hann á undan henni í markið.“ Hinn: „Pabbi minn slær með golfkylfunni og er á undan henni að holunni.“ Sá þriðji: „Pabbi slær ykkur út. Hann vinnur alla virka daga í ráðuneytinu til klukkan fimm og er alltaf kominn heim fyrir tvö.“ Bréfritari reyndi að svara af veikum mætti: „Veistu af hverju Lúxemborg hefur aldrei ráðist inn í Rússland?“ Nei, hann vissi það ekki. „Það er vegna þess að við höfum ekki pláss fyrir alla stríðsfangana.“