Hætt Hildur Björg Kjartansdóttir var lykilmaður hjá íslenska landsliðinu um langt árabil og lék 38 landsleiki, þann fyrsta aðeins 17 ára gömul.
Hætt Hildur Björg Kjartansdóttir var lykilmaður hjá íslenska landsliðinu um langt árabil og lék 38 landsleiki, þann fyrsta aðeins 17 ára gömul. — Ljósmynd/FIBA
„Ég held að ég sé búin að fara í gegnum allar tilfinningarnar. Ég er ennþá aðeins að fatta að þetta sé búið en ég er allavega sátt við ákvörðunina, þótt hún sé líka erfið,“ sagði körfuknattleikskonan Hildur Björg Kjartansdóttir við Morgunblaðið

Körfubolti

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Ég held að ég sé búin að fara í gegnum allar tilfinningarnar. Ég er ennþá aðeins að fatta að þetta sé búið en ég er allavega sátt við ákvörðunina, þótt hún sé líka erfið,“ sagði körfuknattleikskonan Hildur Björg Kjartansdóttir við Morgunblaðið. Hún tilkynnti í vikunni að skórnir væru komnir á hilluna.

Í tilkynningu sem hin 29 ára gamla Hildur birti á facebook-síðu sinni greindi hún frá því að höfuðhögg á ferlinum og afleiðingar þeirra hefðu haft mikil áhrif á ákvörðunina.

Var eitthvað annað sem lá að baki ákvörðuninni?

„Nei, ég hefði viljað spila lengur en þetta er svona aðalástæðan fyrir því að ég ákvað að hætta núna.

Fyrir liðið mitt og félagið hefði ég svo gjarna viljað klára tímabilið en ég taldi það ekki fýsilegt eins og staðan er,“ sagði Hildur, sem hafði leikið með Val frá árinu 2020 að undanskildum nokkrum mánuðum með Namur-Capitale í Belgíu árið 2022.

Hafði mikil áhrif

Hún fékk tvívegis slæmt höfuðhögg árið 2021. Í bæði skiptin fékk hún heilahristing og var síðara tilfellið alvarlegra.

„Ég fékk heilahristing snemma árið 2021 og svo aftur um haustið. Síðari heilahristingurinn var sá sem var erfiðara að jafna sig á. Hann hafði mikil áhrif á venjulegt líf.

Ég gat ekki spilað með vinum mínum eða verið alveg til staðar í öllu með fjölskyldunni, sem var mjög erfitt. Ég var einnig frá vinnu og æfingum í langan tíma. Eftir það fór mikil vinna í að byggja aftur upp bæði líkamlega og andlega heilsu,“ útskýrði Hildur.

Á farsælum ferli lék hún með uppeldisfélaginu Snæfelli, KR og Val. Hildur lék þá sem atvinnumaður hjá Leganés og Celta Vigo á Spáni auk áðurnefnds Namur Capitale.

Á vini um allan heim

Hún var í tvígang valin besti leikmaður Íslandsmótsins, var fjórum sinnum í úrvalsliði, varð Íslandsmeistari þrisvar og bikarmeistari einu sinni. Þá lék Hildur 38 A-landsleiki.

Hvað stendur upp úr á ferlinum?

„Það eru helst öll tækifærin sem boltinn hefur gefið mér. Ég er búin að fá að fara í fullt af ferðalögum með bestu vinum mínum og sjá heiminn. Ég hef búið erlendis, kynnst ólíkri menningu og tungumálum og öðruvísi körfubolta.

Ég á núna vini út um allan heim. Svo eru það náttúrlega gildin í lífinu sem íþróttirnar kenna manni og allt sem ég hef upplifað á Íslandi.

Þetta er allt mjög dýrmætt og hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Þetta er svona það sem ég er stoltust af,“ sagði hún.

Hildur er ekki orðin þrítug og því lék blaðamanni forvitni á að vita hvort hún sæi fyrir sér möguleikann á því að taka skóna af hillunni á næstu árum.

„Sem spilandi leikmaður í keppni held ég að aðstæður muni ekki breytast. Þannig að ég geri ekki ráð fyrir að taka skóna af hillunni.

Þessi ákvörðun var tekin frekar fljótt þótt þetta hafi verið bak við eyrað í svolítinn tíma af ótta við að vita ekki hvaða áhrif næsta högg hefur. Þegar maður hefur fengið heilahristing tvisvar þá hefur það meiri áhrif á mig en aðra.

Þá tók þetta fljótar af en ég gerði ráð fyrir. Ég ætla mér að vera einhvern veginn í kringum körfubolta en er ekki alveg búin að móta á hvaða hátt eða að hvaða leyti. En ég mun alltaf fylgjast með og vonandi finna mér hlutverk,“ sagði Hildur við Morgunblaðið.