Gen Uppgötvunin er stórmerkileg enda einungis eitt fordæmi.
Gen Uppgötvunin er stórmerkileg enda einungis eitt fordæmi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Hagur Íslendinga í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé virðist hafa vænkast en ARR-genasamsætan hefur nú fundist í hrútlambi á bænum Vífilsdal í Hörðudal í Dalasýslu. Lambið á ekki foreldra sem vitað var að bæru ARR en í ljós kom að móðir lambsins…

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Hagur Íslendinga í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé virðist hafa vænkast en ARR-genasamsætan hefur nú fundist í hrútlambi á bænum Vífilsdal í Hörðudal í Dalasýslu. Lambið á ekki foreldra sem vitað var að bæru ARR en í ljós kom að móðir lambsins reyndist bera ARR, sem er viðurkennt af Evrópusambandinu að veiti vörn gegn riðu.

„Það eru miklar fréttir fyrir þessi ræktunaráform, að koma inn í íslenska fjárstofninn verndandi geni fyrir riðuveiki. Þetta er mikils virði í þeirri baráttu,“ segir Hörður Hjartarson bóndi á Vífilsdal.

Óskyldar hinum arfberunum

Fyrir tveimur árum fundust sex kindur á bænum Þernunesi í Reyðarfirði en kindurnar á Vífilsdal eru óskyldar þeim.

„Áður hefur þetta gen bara fundist í einni hjörð og reynt hefur verið að dreifa því um landið. Við erum að finna óskylda einstaklinga og mun þetta örugglega auðvelda útbreiðslu þessa erfðaþáttar,“ segir Hörður.

„Um er að ræða verndandi gen fyrir riðuveiki en þar sem þetta hafði bara fundist í einni hjörð var hætta á skyldleikaræktun við mikla blöndun. Þetta tvöfaldar því möguleikana á því að breiða genið út hraðar í fjárstofninum en hættan á skyldleikaræktun er minni.“

Uppgötvunin var óvænt.

Við uppgötvuðum þetta fyrir hendingu því ég var ekki sérstaklega að leita að þessu. Þegar þetta kom í ljós í október þá hélt ég hreinlega að sýni hefði ruglast hjá mér. Í framhaldinu hefur þetta verið rannsakað ítarlega til að við séum alveg viss.“