Á verði Guðrún segir að fjárfesta þurfi í lögreglu og tækjabúnaði hennar.
Á verði Guðrún segir að fjárfesta þurfi í lögreglu og tækjabúnaði hennar. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is „Við erum að sjá aukið ofbeldi, aukinn vopnaburð, við höfum séð fjölgun hnífaárása og útköllum sérsveitarinnar hefur fjölgað stórkostlega. Allt eru þetta teikn á lofti um meiri hörku. Við verðum að bregðast við þessu með því að bæta starfsumhverfi lögreglunnar og fjölga lögreglumönnum. Það er á stefnuskránni.“

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Við erum að sjá aukið ofbeldi, aukinn vopnaburð, við höfum séð fjölgun hnífaárása og útköllum sérsveitarinnar hefur fjölgað stórkostlega. Allt eru þetta teikn á lofti um meiri hörku. Við verðum að bregðast við þessu með því að bæta starfsumhverfi lögreglunnar og fjölga lögreglumönnum. Það er á stefnuskránni.“

Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið. Spurð hvernig bregðast eigi við þessu segir hún að bæta þurfi vinnuumhverfi lögreglunnar, fyrst og fremst.

„Mín skoðun, komandi úr atvinnulífinu, er að það verður að tryggja öryggi fólks á vinnustöðum sínum. Vitaskuld eru vinnuaðstæður lögreglumanna mjög sérstakar og við verðum að tryggja það að þeir hafi þannig aðbúnað að þeim líði vel í störfum sínum,“ segir hún.

Rafvarnarvopn verði leyfð

Hluti af því sé að leyfa beitingu rafvarnarvopna – valdbeitingartækis sem lögreglumenn hafa kallað eftir, sem og fleiri úrræði til að bregðast við.

Guðrún segir líka mjög mikilvægt að bregðast við þessu ástandi með því að koma brotamönnum á bak við lás og slá.

Hún segir það liggja í hlutarins eðli að fjölga þurfi lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu og hjá mörgum embættum úti á landi. „Ég held að öll embætti myndu vilja þiggja aukinn mannafla,“ segir hún en kveðst ekki reiðubúin að nefna tölur um fjölgun lögreglumanna í þessu sambandi.

Þá kveðst hún mjög stolt af lögreglunni. Umhverfi hennar hafi tekið gríðarlega miklum breytingum á undanförnum árum, á sama tíma og eðli glæpa hafi gjörbreyst.

Tengingar til annarra landa

„Við erum að sjá miklu meiri samtengingu á milli hópa. Þetta er orðin skipulögð glæpastarfsemi. Hún er ekki bara skipulögð á Íslandi, því við höfum séð að hún hefur tengingar til annarra landa. Mér hefur þótt lögreglan standa sig mjög vel í sínum störfum en við þurfum að tryggja það í þessum breytta heimi að allur aðbúnaður lögreglunnar til að bregðast við sé með góðum hætti.“

Hún ítrekar að fjárfesta þurfi í lögreglumönnum og í tækjabúnaði þeirra, og þá ekki einungis rafvarnarvopnum.

„Þetta er flókinn tæknibúnaður. Rannsóknir eru orðnar miklu flóknari og með öðrum hætti. Þetta er mikið tölvutengt – stafrænar rannsóknir, og við megum ekki vera síður tæknilega búin en þeir glæpamenn sem við erum að eiga við.“