Svo virðist sem ekkert sé Bruce Dickinson óviðkomandi.
Svo virðist sem ekkert sé Bruce Dickinson óviðkomandi. — AFP/Torben Christensen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dr. Necropolis er að leita að sjálfum sér. Hann er munaðarlaus og býr að snilligáfu – sem hann hatar. Og hann hefur ímugust á lífinu eins og það birtist honum. En hann á aðild að Mandrake-verkefninu sem hefur það markmið að grípa sálina um…

Dr. Necropolis er að leita að sjálfum sér. Hann er munaðarlaus og býr að snilligáfu – sem hann hatar. Og hann hefur ímugust á lífinu eins og það birtist honum. En hann á aðild að Mandrake-verkefninu sem hefur það markmið að grípa sálina um leið og einstaklingur geispar golunni, varðveita hana og koma henni síðan fyrir á nýjum stað. Maðurinn sem fer fyrir verkefninu, Lazarus prófessor, hefur skýra en annarlega sýn á það hvernig nota eigi þessa áhugaverðu tækni. En Necropolis er á öndverðum meiði. Áfram heldur sagan

Þannig lýsir þúsundþjalasmiðurinn Bruce Dickinson fyrstu teiknimyndasögu sinni, The Mandrake Project, sem komin er út í 12 hlutum. Dickinson er líklega þekktastur sem söngvari breska bárujárnsbandsins Iron Maiden en hæfileikar hans liggja á ótal öðrum sviðum. Hann hefur skrifað skáldsögur, handrit að kvikmynd, unnið sem flugmaður og útvarpsmaður, verið með uppistand helgað eigin lífshlaupi, og bruggað bjór, auk þess sem hann var um tíma einn færasti skylmingakappi Bretlands.

Sjálfur er Dickinson höfundur The Mandrake Project en við myndlýsingar og textagerð naut hann liðsinnis Tonys Lees, Bills Sienkiewicz og Straz Johnsons, sem allir eru skilgreindir sem þungavigtarmenn í heimi myndasögunnar. Það þekkja aðrir betur en þessi penni.

Dickinson er gjarnan með fleiri en eitt járn í eldinum og í byrjun mars kemur út plata með sama nafni – lauslega tengd myndasögunni enda þótt listamaðurinn taki fyrir að um eiginlega konseptplötu sé að ræða.

Spurður, af brasilíska miðlinum Omelette, hvernig þetta tvennt fari saman, myndasaga og tónlist, svarar Dickinson: „Mér finnst þetta satt best að segja fara vel saman. Tónlist og leikir, tónlist og myndasögur, myndasögur og leikir, þetta er allt sami frændgarðurinn.“

Óx í sundur

Iron Maiden er þekkt fyrir líflegar myndlýsingar á plötum sínum, sem listamaðurinn Derek Riggs er ábyrgur fyrir, þar sem lukkudýrið knáa Eddie the 'Ead er gjarnan í forgrunni. Dickinson kveðst á sínum tíma hafa lagt til innan bandsins að það gæfi út myndasögu, í ætt við þær sem hann las sem barn. Einhverjar þreifingar áttu sér stað en ekkert varð úr. Á hinn bóginn kom síðar á markað tölvuleikurinn Legacy of the Beast byggður á myndheimi Iron Maiden. Aðrir spunnu myndasögu út frá leiknum sem Dickinson fannst líta ljómandi vel út, nema hvað sögunni sjálfri var ábótavant.

„Þá fór ég að hugsa, hvað með að gera plötu sem snúa mætti yfir í myndasögu og láta þetta tvennt síðan vinna saman. Meðan á ferlinu stóð óx þetta tvennt hins vegar í sundur. Upphaflega, 2014, átti þetta að vera plata sem ein myndasaga fylgdi – punktur, basta. Svo kom Covid og annað, sjö ár liðu og allt í einu var ég kominn með myndasögu í 12 þáttum,“ segir Dickinson.

Þá komst hann að þeirri niðurstöðu að ekki væri gott að binda plötuna á klafa þess að vera handrit fyrir myndasöguna. „Í dag á þetta tvennt sitt eigið sjálfstæða líf en það vísar hvort í annað án þess þó að þurfa nauðsynlega á því að halda. Kaupa má plötuna sér eða myndasöguna sér – eða hvort tvegga.“

Fyrstu viðbrögð við myndasögunni hafa verið jákvæð. Þannig fær fyrsta heftið, My Name is Necropolis, fjórar stjörnur af fimm mögulegum í hinu gamalgróna málmgagni Metal Hammer. Gagnrýnandinn, Dave Everley, byrjar á því að furða sig á því að Dickinson, hamhleypan sem hann er, sé ekki löngu búinn að senda frá sér myndasögu. En nú þegar hún er loksins komin þá sé hún brjálaðasta hugmyndin á ferli sem þegar sé drekkhlaðinn af brjáluðum hugmyndum.

Everley ræðir fjálglega um frjótt ímyndunarafl, í anda Aleisters Crowleys og Williams Blakes. Sagan sé skrýtin, dimm, fyndin og langt frá því að vera eitthvert hégómlegt hliðarverkefni rokkstjörnu. Dickinson hafi ekki hikað við að henda sér út í djúpu laugina og skapa heillandi heim þar sem þær frænkur, fegurðin og kaótíkin, berist á banaspjót. Þá sé höfundur hvergi banginn við að gægjast inn í nýjar og framandi víddir, auk þess sem í sögunni sé kynferðislegur undirtónn sem Dickinson fari vel með.

Sjöunda sólóplatan

The Mandrake Project er sjöunda sólóplata Dickinsons og sú fyrsta í nítján ár. Tyranny of Souls kom út 2005. Gamall vopnabróðir hans, Roy „Z“ Ramirez, leikur á gítar og bassa, Dave Moreno á trommur og Mistheria á hljómborð. Plötunni verður fylgt eftir með tónleikaferð og þá bætist bassaleikarinn Tanya O'Callaghan í hópinn.

Spurður að því á miðlinum Noise11.com hvort hann hafi áform um að flytja nýju plötuna í heild á tónleikunum fram undan svarar Dickinson: „Nei, það er langt síðan ég hef farið á túr [það er sóló] og fyrir þær sakir að núna er hægt að velja efni af sjö plötum þá væri það grimmdarlegt og óvenjuleg refsing að láta fólk hlusta á flunkunýja plötu frá upphafi til enda.“

Ærlegur hér, okkar maður.

Dickinson kveðst þó reikna með að geyma fyrstu plötuna, Tattooed Millionaire (1990), og þá þriðju Skunkworks (1996) í þessari lotu enda sé af nægu frambærilegu efni að taka. „Ég er líka sannfærður um að þetta verður ekki seinasti túrinn okkar saman, þannig að fleiri tækifæri munu gefast til að viðra efni. Ætli við komum ekki til með að taka þrjú eða fjögur lög af nýju plötunni.“

Hljómar þetta ekki vel?

Íslandsvinur inn að beini

Oft er talað um Íslandsvini, jafnvel þótt viðkomandi hafi aðeins kastað af sér vatni í Leifsstöð í millilendingu. Bruce Dickinson er á hinn bóginn Íslandsvinur inn að beini. Það helgast af því að fyrir um tveimur áratugum, þegar hann vann sem flugmaður hjá breska flugfélaginu Astraeous, flaug hann reglulega fyrir Iceland sáluga Express, og dvaldist þá talsvert hér á landi og kynntist mörgum Íslendingum.

Þess utan hefur bandið hans, Iron Maiden, í tvígang haldið hér tónleika; fyrst í Laugardalshöll 1992 og síðan í Egilshöll 2005, í bæði skipti við góðar undirtektir. Þá kom Dickinson hingað með uppistandssýningu sína, Spoken Word, 2019 og tróð upp í Hörpu. Mæltist hún einnig mjög vel fyrir.

Dickinson er 65 ára gamall en hvergi farinn að rifa seglin.