Ríkisvaldið Skatturinn segist fá fjárhæðarmarkmið úr fjárlögum, sem þykir gagnrýnisvert að sé til yfirhöfuð.
Ríkisvaldið Skatturinn segist fá fjárhæðarmarkmið úr fjárlögum, sem þykir gagnrýnisvert að sé til yfirhöfuð. — Morgunblaðið/sisi
Starfsmenn skattsins hafa fengið um 260 milljónir króna í bónusgreiðslur á liðnum fjórum árum. Skatturinn hefur ekki svarað því hversu margir starfsmenn hafi fengið greiðslur. „Skattinum er almennt sett það markmið að ná sem mestum árangri í…

Arinbjörn Rögnvaldsson

Gísli Freyr Valdórsson

Starfsmenn skattsins hafa fengið um 260 milljónir króna í bónusgreiðslur á liðnum fjórum árum. Skatturinn hefur ekki svarað því hversu margir starfsmenn hafi fengið greiðslur.

„Skattinum er almennt sett það markmið að ná sem mestum árangri í sínum störfum, þar með talið í baráttunni við skattundanskot bæði af hálfu löggjafans og ráðuneytisins og það komi víða fram, m.a. í fjármálastefnu ríksins og fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028,“ segir í skriflegu svari skattsins til Morgunblaðsins þar sem spurt er um hvort stofnuninni hafi verið sett eða sett sjálfum sér markmið um fjárhæðir endurálagningar.

Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í síðustu viku og í ViðskiptaMogganum í vikunni hefur skatturinn sett upp bónuskerfi sem tryggir starfsmönnum viðbótarlaun. Morgunblaðið óskaði eftir svörum skattsins um það hversu margir starfsmenn hefðu unnið sér inn viðbótarlaun og um hversu háar fjárhæðir væri að ræða, hvort hann hefði sett sér markmið um fjárhæð endurálagningar og hvort þau markmið hefðu áhrif á bónusgreiðslur.

Að sögn viðmælenda blaðsins er innbyggt hvatakerfi hjá eftirlitsstofnun eins og skattinum til þess að ná fjármunum í ríkiskassann – og í vasa starfsmanna – ekki til þess fallið að mál leiði til réttra skattskila í samræmi við lög. Fram kom í Morgunblaðinu í gær að fjármálaráðherra hefði óskað eftir frekari upplýsingum frá skattinum vegna málsins.

Sérstök verkefni í forgangi

Eins og haft var eftir viðmælendum blaðsins geta fjárhæðarmarkmið og bónusar verið til þess fallin að hafa áhrif á dómgreind og ákvörðunartökur starfsmanna í fjárhæðarháum málum, þrátt fyrir að málatilbúnaðurinn sé langsóttur. Skatturinn segir í svörum sínum að fjárhæðarmarkmiðin byggist á fjárlögum fyrir árið 2020, þegar ákveðið var að setja aukið fjármagn í skatteftirlit, og benda til nefndarálits efnahags- og viðskiptanefndar. Þá segir að raunhækkun framlaga til skattsins sé fjármögnuð verulega með rekstrartekjum og hafi því ekki áhrif á ríkissjóð.

Einnig kemur fram að meðal hækkunartilefna séu 200 milljónir króna tilkomnar í þeim tilgangi að efla skatteftirlit með tekjum af útleigu íbúða til ferðamanna, gjaldfærðum kostnaði fyrirtækja og bifreiðahlunnindum. Af svarinu má ráða að viðurkennt sé að skattinum séu sett fjárhæðarmarkmið sem eiga að nást með endurálagningu en ekki úr ríkissjóði.

Bónusar í 535 tilvikum

Á árunum 2020 til 2023 fengu starfsmenn skattsins 260,4 millljónir króna í viðbótarlaun í 535 tilvikum. Ekki kemur fram í svörum skattsins hversu margir starfsmenn hafi fengið bónusa, þrátt fyrir að um það hafi verið spurt.

Umræddir samningar taka til allra háskólamenntaðra starfsmanna skattsins hvar sem þeir starfa innan embættisins. Á hverju sex mánaða tímabili fá 25% starfsmanna innan BHM viðbótarlaun.

Morgunblaðið spurði hvort endurálagning skatta, álagning sekta eða gerð sátta við einstaklinga eða fyrirtæki væru meðal þeirra þátta sem metnir eru við mat á bónusgreiðslum. Spurningunni er ekki svarað beint heldur kemur fram að við mat á viðbótarlaunum sé horft til nokkurra þátta. Þannig er m.a. horft til þess hvort viðkomandi starfsmaður hafi á matstímabilinu haft með höndum einhver viðbótarverkefni umfram það sem almennt er, eða hafi borið ábyrgð á tímabundnum og tilfallandi verkefnum. Þá er metið hvort starfsmaður hafi sinnt eða komið að fleiri en einu verkefni á sama tíma eða sinnt fjölbreyttum verkefnum sem krafist hafa sérfræðiþekkingar viðkomandi. Frammistaða eða afköst eru metin m.a. út frá málafjölda sem viðkomandi sinnir að því marki sem það er unnt, gæðum úrlausna, málsmeðferðartíma o.s.frv.

Morgunblaðið spurði einnig hvort skatturinn hefði í einhverjum tilfellum krafið starfsmenn um endurgreiðslu viðbótarlauna eða kaupauka þegar endanleg endurálagning var lægri en upphafleg markmið endurálagningar skattsins. Svo er ekki samkvæmt svörum skattsins.

Ekki tenging milli upphæða

Skatturinn tekur fram í svörum sínum að ekki sé bein samsvörun á milli fjárhæða gjaldbreytinga sem starfsmaður kemur að og ákvörðunar viðbótargreiðslna. Þó kemur fram að ekki skipti máli við hvað viðkomandi starfsmaður starfi innan embættisins, t.d. hvort verið sé að vinna við álagningu, endurálagningu, endurgreiðslur, hugbúnaðarúrlausnir eða þjónustu við viðskiptavini. Ekki kemur fram hvort ákvörðunin sjálf, þ.e. að úrskurða um endurálagningu eða sekt, feli í sér tilkall til bónuss óháð upphæðum álagningar.

Svör skattsins

Í fjárlögum eru sett fjárhæðarmarkmið fyrir 200 milljónir kr. sem eiga ekki að fást úr ríkissjóði

Bónusgreiðslur til starfsmanna námu rúmlega 260 milljónum kr. milli 2020 til 2023 vegna 535 tilvika

Skatturinn segir að engin tenging sé á milli endurákvarðana á einstaklinga/fyrirtæki og bónusgreiðslna

Fá ekki kaupauka

Aðrar reglur fyrir banka

Rétt er að taka fram að óheimilt er að veita starfsmönnum sem starfa við áhættustýringu, innri endurskoðun eða regluvörslu innan fjármálakerfisins kaupauka. Það sama á við um stjórnarmenn. Í lögum um fjármálafyrirtæki er fjallað með ítarlegum hætti um kaupauka fjármálafyrirtækja og eins og ítrekað hefur verið fjallað um er gengið nokkuð langt í því að takmarka kaupauka og bónusgreiðslur hér á landi. Upp hafa komið deilumál milli fjármálafyrirtækja og skattsins vegna þessa.