„Ég hef frá upphafi þessarar vegferðar verið einlægur – ég vil hjálpa fólkinu í borginni og leysa þau vandamál sem koma upp,“ segir Einar Þorsteinsson.
„Ég hef frá upphafi þessarar vegferðar verið einlægur – ég vil hjálpa fólkinu í borginni og leysa þau vandamál sem koma upp,“ segir Einar Þorsteinsson. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég ber það mikla virðingu fyrir verkefnunum sem mér eru falin að mér þykir eðlilegt að samfella sé í þekkingu og að yfirfærsla verkefnanna frá Degi til mín gangi vel.

Skrifstofa borgarstjóra í Ráðhúsinu ber þess glöggt merki að nýr maður er að koma sér fyrir. Einar Þorsteinsson hefur bara haft þarna aðsetur í fáeina daga og er enn að finna út úr því hvernig hann vill búa að umgjörð sinni. Hann á eftir að ráðfæra sig við listasafn borgarinnar hvaða myndlist hann velur á veggi og svo þarf að finna persónulegum munum stað, eins og bæn strætóbílstjórans eftir listamanninn Skarphéðin Bergþóruson, sem eiginkona hans, Milla Ósk Magnúsdóttir, færði honum að gjöf, innrammað spjald á fagurgrænum grunni. Bóndi hennar er jú fyrsti Framsóknarmaðurinn frá landnámi sem sest í stól borgarstjóra.

Þegar við höfum komið okkur makindalega fyrir í leðursófanum á skrifstofunni, ég með þetta fína útsýni yfir Tjörnina, blasir við að spyrja fyrst hvernig tilfinning það sé að vera orðinn borgarstjóri í Reykjavík.

„Það er góð tilfinning,“ svarar Einar. „Ég bauð mig fram sem skýran valkost í nákvæmlega þetta starf og spurði um leið hvort ekki væri kominn tími á breytingar, þar á meðal á hinni pólitísku forystu í borginni. Á þriðjudaginn í síðustu viku raungerðist þessi mikli stuðningur sem Framsókn fékk, kannski dálítið óvænt, í síðustu kosningum. Ég hef litið svo á að fólk hafi með þessu viljað ekki bara fá nýja pólitíska forystu, heldur líka ákveðna hreyfingu á borgina. Ég er rosalega þakklátur fyrir að fá nú tækifæri til að þjóna borgarbúum úr þessum stóli – og finn sterkt fyrir ábyrgðinni sem því fylgir.“

Skammur aðdragandi var að framboði Einars vorið 2022 en hann var þá nýhættur á Ríkissjónvarpinu, þar sem hann hafði stýrt Kastljósinu. „Þetta gerðist allt mjög hratt, ég ákvað að taka slaginn og um leið og ég stóð í kosningabaráttu eignuðumst við Milla konan mín barn og fluttum búferlum. Síðan var ég bara allt í einu kominn hingað í Ráðhúsið sem formaður borgarráðs.“

Hann segir það hafa verið skynsamlega ákvörðun að búa þannig um hnúta að Dagur B. Eggertsson héldi áfram sem borgarstjóri fyrstu 18 mánuðina en að hann tæki svo sjálfur við. Starfið sé viðamikið enda mjög mikilvæg stjórnunarstaða, þannig að menn þurfi að vera vel undirbúnir. „Það hefði verið ábyrgðarlaust að gerast strax borgarstjóri án þess að hafa setið einn dag sem borgarfulltrúi. Mér þykir það vænt um verkefnin hérna í Ráðhúsinu og ber það mikla virðingu fyrir starfi borgarstjóra að mér þótti sjálfsagt mál að kynna mér málin rækilega áður en ég gerði tilkall til þessarar skrifstofu.“

Á réttan kjöl

Daginn sem við Einar sitjum saman fékk hann mjög hlýja kveðju í Morgunblaðinu frá Áslaugu Sigurðardóttur Sigurz sem fagnaði aldarafmæli sínu. Hún sagði: „Ég hef alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn en í seinni tíð er ég orðin svolítið hliðholl Framsóknarflokknum og mér líst afskaplega vel á nýja borgarstjórann. Ef ég ætti að gefa honum ráð vildi ég segja honum að koma jafnt fram við alla og koma borginni á réttan kjöl.“

– Er þetta ekki ágætt upplegg?

„Jú, það má nú segja,“ svarar Einar brosandi. „Mér þótti ákaflega vænt um þetta og er búinn að senda henni blóm og bréf í tilefni stórafmælisins. Það er ótrúlega gefandi að vera í svona mikilli snertingu við borgarbúa og þegar maður gengur um hverfið sitt þá ræðir maður við nágrannana sem spyrja um snjómokstur og sorphirðu. Þetta eru verkefnin sem eru á borðinu hjá manni og maður getur því haft áhrif til góðs. Þó að borgin sé stórt fyrirtæki þá er hægt að taka ákvarðanir sem fólk finnur fyrir, eins og við gerðum varðandi snjómokstur síðasta vetur, þegar við sáum að ábendingar um að þessu væri ábótavant voru gríðarlega margar.“

Nú er komið að því að standa við stóru orðin; hverju ætlar Einar að breyta næstu tvö árin og hálfu betur?

„Fyrir það fyrsta vil ég halda því til haga að ég tel að Framsókn hafi nú þegar með innkomu sinni í borgarmálin haft umtalsverð áhrif. Því er ekki neita að fjárhagsstaðan var verri en við bjuggumst við …“

– Var hún miklu verri?

„Já, ég hafði lesið ársreikning sem var með 3,8 milljarða króna halla og bjóst við að staðan væri nálægt því. Fyrsta uppgjörið sem ég sá var hálfsársuppgjörið sumarið 2022 og þá var hallinn kominn í 9,8 milljarða og spáin á þann veg að enn myndi syrta í álinn. Árið endaði í 15,6 milljörðum. Það segir sig sjálft að þarna var komin upp allt önnur staða og við stóðum frammi fyrir gjörólíku verkefni. Fyrir vikið höfum við verið í hagræðingu síðan við komum hérna inn og Framsókn hefur komið með mjög sterkar og skýrar rekstraráherslur inn í þennan meirihluta.“

Allt öðruvísi meirihluti

Framsókn var eftir kosningar legið á hálsi fyrir að skella sér beint í gamla samkvæmið, án þess jafnvel að lofta út. Einar er ósammála þessu. „Þessi meirihluti er allt öðruvísi samsettur en síðasti meirihluti vegna þess að Vinstri-græn fóru út með sinn borgarfulltrúa og Framsókn kom inn með sína fjóra fulltrúa – og vantaði raunar bara tvö hundruð atkvæði til að fá þann fimmta. Það gjörbreytir dýnamíkinni í þessum meirihluta sem er miklu miðjusinnaðri en sá gamli. Það var heldur ekki hægt að semja til hægri því aðrir flokkar útilokuðu Sjálfstæðisflokk.“

Ein af breytingunum sem Einar nefnir er verkefnabundin hagræðing. Áður tíðkaðist að svið borgarinnar fengju hvert um sig hagræðingarkröfu upp á 1% og útfærðu hana sjálf. „Í aðgerðunum nú fengum við sem stýrðum fjárhagsáætlunargerðinni hins vegar tillögur að hagræðingu frá sviðunum og völdum úr þeim með pólitískum hætti og öxluðum þannig ábyrgð á vinnunni og því sem gert var. Samanlagt urðu þetta mestu hagræðingaraðgerðir frá hruni og skiluðu 10 milljarða viðsnúningi, sem er mjög gott, sérstaklega í ljósi þess að ég held að borgarbúar hafi ekki fundið mikið fyrir þjónustuskerðingu. Þessi vinna hefur gert það að verkum að við vonumst til að geta skilað afgangi á næsta ári.“

– Er það raunhæft?

„Verðbólgan hefur mikil áhrif á okkur eins og önnur sveitarfélög og mikið er í húfi að verðbólga og vextir fari niður. Gangi það eftir á þetta markmið að vera raunhæft.“

Talið berst að andrúmsloftinu í Ráðhúsinu og Einar segir engan vafa leika á því að stemningin milli flokka sé betri núna en hún var á síðasta og þar síðasta kjörtímabili. Framsókn átti engan borgarfulltrúa síðast og Einar er sannfærður um að innkoma þeirra fjögurra af miðjunni hafi haft góð áhrif. Vel hafi gengið að vinna mál inni í nefndum og ráðum, þótt birtingarmyndin í borgarstjórnarsalnum sé stundum önnur, þar sem meira sé lagt upp úr upphrópunum. „Andinn er almennt góður og mér finnst samstarfið við aðra flokka, hvort sem þeir eru í meirihluta eða minnihluta, ganga vel. Það eru góð tíðindi fyrir borgarbúa enda vilja þeir að við vinnum saman og náum árangri.“

Ekki eru allir sannfærðir um að breytingar séu í vændum og benda á að þrátt fyrir að kominn sé nýr borgarstjóri þá sé meirihlutinn áfram sá sami og gamli borgarstjórinn ennþá í húsinu, nú sem formaður borgarráðs.

– Er það kostur eða galli fyrir þig að hafa Dag, sem stýrt hefur borginni lengi, hér áfram?

„Ég hef verið hérna í átján mánuði og búið mig mjög vel undir það sem beið mín. Ég ber það mikla virðingu fyrir verkefnunum sem mér eru falin að mér þykir eðlilegt að samfella sé í þekkingu og að yfirfærsla verkefnanna frá Degi til mín gangi vel. Að ekki sé hik eða rof í ákvarðanatöku og slíku. En auðvitað er ég ólíkur Degi að mörgu leyti. Hann er nú formaður borgarráðs en hefur líka lýst því yfir að hann sé byrjaður að líta í kringum sig.“

– Gengurðu þá út frá því að hann verði ekki lengi til staðar?

„Það veltur allt á honum sjálfum og ég mun ekki reyna að hafa nein áhrif á það sem hann tekur sér fyrir hendur.“

– En óttastu að hann komi til með að anda ofan í hálsmálið á þér?

„Nei, ég óttast það ekki. Þetta eru skýr skipti, hér er bara einn borgarstjóri! Ég gætti mín á því meðan ég var formaður borgarráðs að stíga ekki fram fyrir Dag og ætlast til að það verði eins núna. Um það ríkir raunar góð sátt.“

– En hvernig er ykkar persónulega samband?

„Það hefur verið afar gott. Eins samtalið innan meirihlutans. Við erum alls ekki alltaf sammála enda eru þetta fjórir ólíkir flokkar. Við vinnum hins vegar eftir traustum meirihlutasáttmála, þannig að vinnan er góð.“

Allir með sama markmið

Oft er sagt að hugmyndafræðilegur ágreiningur trufli síður störf manna á sveitarstjórnarstiginu en á landsvísu enda verkefnin um margt sérhæfðari og vinnan snýst fyrst og fremst um að bæta sitt nærumhverfi. Hvernig ætli Einar upplifi þetta?

„Í grunninn hafa allir flokkar í borgarstjórn sama markmiðið; að bæta þjónustuna við borgarana og veita hana með hagkvæmum hætti. Auðvitað geta þó verið ólíkar leiðir að því. Um þennan meirihluta má segja að hann sé hægrisinnaður í sumum málum en umhverfissinnaður í öðrum, velferðarsinnaður í enn öðrum og þar fram eftir götunum. Sveitarstjórnir úti um allt land eru meira og minna að taka svipaðar ákvarðanir, óháð því hvaða flokkar eru í meirihluta. Það er áferðarmunur og menn prófa eitt og annað en í grunninn snýst þetta um að reka okkur réttum megin við núllið og veita góða þjónustu. Hugmyndafræðin er alla jafna ekki ráðandi þáttur.“

Eðli málsins samkvæmt eru sum mál þó fyrirferðarmeiri en önnur í umræðunni. Á umliðnum árum hefur borgarlínan sannarlega verið eitt af þeim. Er nýi borgarstjórinn sannfærður um að það sé besta leiðin til að stuðla að samgöngubótum í borginni og á höfuðborgarsvæðinu?

„Ég held að það sé algjörlega óumdeilt að besta leiðin til þess að létta á umferðinni í borg sem er að vaxa jafnmikið og Reykjavík og höfuðborgarsvæðið allt sé að efla almenningssamgöngur, samhliða því að tryggja greiða leið fjölskyldubílanna og vöruflutninga. Bygging á hjólastígum og fjölbreyttir fararmátar skipta líka miklu máli. Þessi stefna er eina leiðin til að gera borgina skilvirka. Reykjavík óx um 2,9% í fyrra sem er mjög mikið í alþjóðlegum samanburði. Sú borg sem óx mest í Bandaríkjunum á síðasta ári var Seattle, 1,9%. Grípum við ekki til þess ráðs að efla almenningssamgöngur, hvort sem við köllum það borgarlínu, hraðstrætó, strætó express eða eitthvað annað, þá erum við í vandræðum. Grunnurinn er einfaldur; við tökum sérakrein fyrir strætó sem kemur á átta mínútna fresti, er með betri skiptistöðum en nú eru í kerfinu og keyrir fram hjá umferðinni. Þetta er ekki hugmynd sem fundin var upp í Ráðhúsinu. Þetta er nákvæmlega það sem hægrimenn, vinstrimenn og miðjumenn eru að gera í borgum um allan heim og snýst ekki um pólitík. Þetta er verkfræðilegt úrlausnarefni og eina leiðin til að þróa borgir áfram. Ég styð þetta verkefni eindregið og lykilatriðið er að sátt hefur verið um þessa stefnu meðal allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins. Brýnasta verkefnið nú er að endurskoða þennan sáttmála, forgangsraða upp á nýtt og ná skýrari skiptingu um fjármögnun, til þess að fólk sjái framgang í þessu verkefni. Gerist ekkert, þá missir fólk trúna.“

– Hvers vegna er þá deilt um þetta mál í borgarstjórn?

„Ég held að pólariseringin hérna í Ráðhúsinu á síðasta kjörtímabili hafi gert það að verkum að flokkarnir grófu sér sínar skotgrafir og frá mínum bæjardyrum séð er afar undarlegt að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík sé með aðra skoðun en Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi, Garðabæ eða Hafnarfirði. Á sama tíma og sjálfstæðismenn í borgarstjórn tala gegn borgarlínu hafa þeir verið að flytja ýmsar tillögur um almenningssamgöngur og vilja efla strætó. Þetta er til marks um að það eimir eftir af einhverjum gömlum átökum sem æskilegt væri að losa um. Ég er ekki í nokkrum vafa um að kæmist Sjálfstæðisflokkurinn til valda hér í borginni þá myndi hann halda áfram með þessa áætlun vegna þess að þetta er eina leiðin til að leysa umferðarvandann.“

Leikskóla- og grunnskólamál brenna líka á mörgum og Einar hefur þegar tekið þau til sín, verandi faðir þriggja barna á öllum skólastigum. Hann segir viðhaldsátakið sem nú stendur yfir afar brýnt, samhliða því að byggja upp nýja leikskóla.

„Mínar áhyggjur snúa að því að við sem samfélag séum ekki að skapa skilyrði fyrir fjölgun leikskólakennara. Það helst í hendur við lengd námsins, aðstæður nemenda á námstíma og fleira. Málið er ekki flókið, við verðum að ná að manna alla okkar leikskóla og það þarf að gerast með starfsfólki sem talar íslensku enda íslenskukennsla lykilatriði þegar börn eru á þessum aldri. Fjöldi starfsmanna af erlendum uppruna vinnur í leikskólum og eru afar mikilvægir starfskraftar en kennararnir þurfa að hafa gott vald á móðurmálinu.“

Einar leggur áherslu á að engar töfralausnir séu í leikskólamálum og varar við stjórnmálamönnum sem reyna að sannfæra foreldra um að hægt sé að draga upp úr skúffum tillögur sem leysa þennan vanda fyrir fullt og fast. „Sjálfur er ég feginn að hafa ekki lofað 12 mánaða börnum plássi á leikskóla, eins og eiginlega allir hinir flokkarnir. Við treystum okkur ekki til þess vegna þess að við höfðum ekki séð plön sem ganga upp. Þess vegna töluðum við um 18 mánaða börn, eins og reglur borgarinnar kveða á um, en markmiðið er sannarlega að taka yngri börn inn, helst 12 mánaða. Á sama tíma viljum við tryggja fjölbreyttni og styðja dagforeldrakerfið og sjálfstætt starfandi leikskóla.“

– Hvernig borgarstjóri vilt þú verða?

„Það er enginn fæddur inn í þetta hlutverk og menn mótast af þeim verkefnum sem þeim eru falin. Sjálfur myndi ég vilja vera borgarstjóri með kaldan haus og hlýtt hjarta. Það skiptir máli að sýna rekstrarlega ábyrgð en um leið þarf að sýna hlýju og skilning á þeim viðkvæmu málaflokkum sem við á sveitarstjórnarstiginu glímum við.“

Einar starfaði lengi sem blaðamaður og kveðst fyrir vikið hafa kynnst samfélaginu öðruvísi en margir aðrir. „Ég var orðinn þreyttur á að fjalla um alls konar óréttlæti. Það var sama hversu ítarlega maður fjallaði um tiltekin mál þá breyttist ekki neitt og smám saman rann upp fyrir mér ljós – ég þyrfti að fara í pólitík til að komast í aðstöðu til að breyta einhverju.“

– Þetta gerist bara þannig?

„Já, í rauninni. Sem fjölmiðlamaður er maður að þjóna og upplýsa og sýna samfélagið eins og það er. Síðan eru mál sem fylgja manni,“ svarar Einar og stendur upp, gengur í átt að skrifborðinu sínu og sækir fallegt kerti sem hann sýnir mér.

„Þetta kerti er gjöf frá fatlaðri konu sem ég fjallaði einu sinni um. Saga hennar var átakanleg en hún var misnotuð kynferðislega í 30 til 40 ár án þess að neitt væri gert í því.“

Hann þagnar. Stendur á miðju skrifstofugólfinu og horfir út á Tjörnina. Þarf greinilega augnablik fyrir sig.

Eftir smá stund ræskir hann sig og segir stundarhátt: „Jahérna.“

– Kemur tilhugsunin enn róti á tilfinningar þínar?

„Já, þetta er mál sem kemur mér ennþá úr jafnvægi. Óréttlætið var svo mikið.“

– Að kerfið og umhverfið hafi brugðist konunni?

„Já, allir í sveitinni vissu af þessari misnotkun en enginn gerði neitt. Málið rataði þó á endanum til lögreglu sem vissi að konan var ófær um að segja ósatt. Samt sem áður dagaði málið uppi og engum var refsað. Þetta er ein af þeim kveikjum sem ég tek með mér inn í starf borgarstjóra. Það er klárlega hlutverk okkar hér í Ráðhúsinu að hlúa að fólki og passa upp á þá sem minna mega sín. Ég geymi þetta kerti hérna á skrifstofunni öðrum þræði sem áminningu um það til hvers ég er hingað kominn.“

Hann sest aftur í sófann.

Borgarstjóri fólksins

– Má skilja þetta á þann veg að þú hyggist vera borgarstjóri fólksins?

„Já, fyrst og fremst. Auðvitað eru skyldur mínar líka við fyrirtækin og atvinnulífið en í grunninn erum við að vinna fyrir fólkið. „Public servant“ kallast þeir sem fara í stjórnmál í Bandaríkjunum og þannig lít ég á mig, sem þjón almennings.“

Komin er ákveðin fjarlægð á kosningasigurinn sem Framsóknarflokkurinn vann vorið 2022, mörgum að óvörum. Hvernig ætli Einar líti á þennan árangur í dag; kom hann og hans fólk með eitthvað að borðinu sem aðrir voru ekki með?

„Auðvitað var þetta óvissuferð enda hafði Framsókn ekki gengið vel í kosningunum á undan og átti ekki borgarfulltrúa. Eftir að ég kom inn í þetta hafði ég alltaf trú á því að við myndum ná góðum árangri en um leið vissi ég að við yrðum að hafa mikið fyrir því. Við fórum bæði sem hópur og ég einn út í hverfin og töluðum við fólk og skynjuðum þar að það var ákall eftir breytingum og nýju fólki. Ég kom bara til dyranna eins og ég var klæddur og fólk þekkti mig kannski af mínum fyrri störfum, sem ábyggilega hjálpaði. Ég hef frá upphafi þessarar vegferðar verið einlægur – ég vil hjálpa fólkinu í borginni og leysa þau vandamál sem koma upp.“

Einar var ekki óumdeildur fréttamaður. Seinustu árin var hann oftar en ekki einn með viðmælanda sínum í settinu og veigraði sér ekki við að spyrja erfiðra spurninga og spyrja jafnvel aftur ef ekkert kom svarið. Sumir báru lof á hann fyrir að vera fylginn sér en öðrum þótti hann á stundum of ágengur við viðmælendur sína, jafnvel ókurteis. Má gera ráð fyrir því að fólk hafi lært inn á hans karakter þarna og fundist þetta vera rétta týpan í starf borgarstjóra?

„Það má vel vera, ég skal ekki dæma um það. Winston Churchill sagði einu sinni að nóg væri að drepa mann einu sinni í stríði en stjórnmálamann væri hægt að drepa aftur og aftur. Maður vinnur þá kannski ekki alla en maður verður samt að vera óhræddur við að taka slagina – og ég er það.“

Forveri Einars lagði mikla áherslu á stefnumótun til framtíðar og Einar segir þá vinnu hafa verið þarfa og góða. „Ég hef hins vegar sagt við þessi tímamót að framtíðin sé líka á morgun og mér finnst mikilvægt að við jarðtengjum okkur við þau verkefni sem nú brenna á okkur og skipta okkur öll mestu máli. Þannig eru áherslurnar dálítið ólíkar því sem var hjá forvera mínum sem dró vagninn að mörgu leyti þegar kom að því að móta stefnu til framtíðar og hafði mjög skýra sýn á það hvernig borgin ætti að þróast. Sjálfur vil ég halda áfram að þétta byggð kringum almenningssamgöngur en á sama tíma verðum við líka að ryðja land og stækka borgina til austurs. Það er líka áríðandi að hrista húsnæðismarkaðinn í gang og koma verktakageiranum aftur af stað. Í því augnamiði hef ég áform um að leiða saman óhagnaðardrifnu leigufélögin, Samtök iðnaðarins, fjármálastofnanir, lífeyrissjóði og svo okkar skipulagssvið til að setja ákveðin svæði í forgang og skapa þannig vonandi forsendur fyrir því að lánveitendur geti lækkað vexti með því að leigufélögin komi inn og kaupi 40% af því húsnæði sem verður byggt. Þá verður áhættan minni. Það er algjört lykilatriði að hraða afgreiðslu þessara mála gegnum okkar skipulagsferli.“

Sýnum fjölskyldum mildi

Tími okkar er senn á þrotum, næsti fundur bíður borgarstjóra. Við gefum okkur þó nokkrar mínútur til að gægjast inn í einkalíf Einars.

Hann býr í Seljahverfinu, ásamt eiginkonu sinni, Millu Ósk, og tæplega tveggja ára syni þeirra, Emil Magnúsi. Tvær dætur Einars úr fyrra hjónabandi, Auður Berta, 16 ára, og Soffía Kristín, 10 ára, búa svo hjá þeim aðra hverja viku. „Þetta er samsett fjölskylda, eldri dóttirin í skóla í miðbænum og sú yngri í Garðabæ, þannig að sá veruleiki að sækja og skutla og miða tímasetningar við strætóferðir á við okkur eins og svo marga aðra borgarbúa. Ég hef skilning á þessu öllu og legg áherslu á að við sýnum barnafjölskyldunum mildi, til dæmis þegar kemur að því að nota einkabílinn. Auðvitað er ég fylgjandi almenningssamgöngum og minnkandi kolefnisspori en um leið skiptir máli að við skömmum fólk ekki til hlýðni; á vissum tímabilum í lífi fólks getur veruleikinn verið býsna flókinn. Við verðum að hafa skilning á því hvernig lífið er.“

– Hvað viltu helst gera í þínum frístundum?

„Mér finnst best að vera með fjölskyldunni minni, fara í sund, hjóla, eiga kósíkvöld og bara vera saman. Mér finnst líka gaman að fara í ferðalög, innanlands sem utan, og reyni að kíkja eins oft og hægt er upp í sumarbústað hjá foreldrum mínum í Dölunum. Svo finnst mér gaman að syngja og spila, á gítar og píanó, með börnunum, auk þess sem ég er í Karlakórnum Esju. Það er dásamlegur félagsskapur sem ég hef alls ekki sinnt nógu vel síðasta eitt og hálft árið. Er ekki ágætt að nota þetta tækifæri til að lofa betri mætingu?“

Höf.: Orri Páll Ormarsson