Gréta Björg fæddist á Tjaldanesi við Arnarfjörð 26. febrúar 1952. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 12. janúar 2024 eftir skammvin veikindi.

Hún var dóttir hjónanna Gunnlaugs Sigurjónssonar, f. á Granda 8.12. 1922, d. 6.7. 2011, og Ingibjargar Finnbogadóttur, f. 13.7. 1926, d. 9.1. 2022.

Systkini Grétu eru Sigurjón, f. 18.8. 1944, sambýliskona hans er María Símonardóttir; Jóhanna, f. 24.11. 1947, eiginmaður hennar er Hilmar Jónsson; Ingibjörg, f. 6.2. 1951; Finnbogi Unnsteinn, f. 21.12. 1953, eiginkona hans er Barbara Foley; Svanberg Reynir, f. 13.2. 1956, sambýliskona hans er Fríður Jónsdóttir; Sigríður Sesselja, f. 10.10. 1959, sambýlismaður hennar er Sigurður Grétar Sigurðsson.

Eiginmaður Grétu var Anton Proppé, f. 7.3. 1945, d. 21.2. 2004. Þau giftust 25.12. 1969. Synir þeirra þeirra eru Gunnar Sigurður, f. 28.11. 1970, og Hjalti Proppé, f. 22.11. 1974. Sambýliskona Gunnars er Þórdís Thoroddsen. Börn Gunnars eru: Saga Björg, Þorsteinn Jökull og Grétar Anton. Eiginkona Hjalta er Erna Höskuldsdóttir. Börn þeirra eru Anton Proppé, Brynjar Proppé, Gréta Proppé, Una Proppé, Þór Proppé og Þórkatla Proppé.

Útför Grétu fer fram frá Þingeyrarkirkju í dag, 27. janúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 14.

Mig langar að setja hér inn nokkur orð til að kveðja Grétu vinkonu mína. Ég kynntist Grétu eftir að ég flutti á Fjarðargötu 16. Þar höfðu foreldrar Grétu, þau Gunnlaugur og Ingibjörg, áður búið. Við Gréta urðum fljótt góðar vinkonur, enda stutt milli heimila okkar. Oft sagði hún við mig: Stína, mér finnst svo gaman að fylgjast með börnunum þínum og öllum hinum börnunum þegar þau eru að leika sér í garðinum ykkar, – hvaðan koma öll þessi börn? bætti hún gjarnan við og hló þeim smitandi hlátri sem aðeins hún átti.

Gréta var traust og góð vinkona. Oft sátum við lengi við stofugluggann hennar, horfðum yfir fjörðinn okkar, inn í Botn, niður á bryggju. Veltum fyrir okkur athafnalífi á bryggjunni, ræddum um það skemmtilega í lífinu en einnig það sem varpaði skugga á lífið, þarna var rætt allt milli himins og jarðar. Það var sérstaklega fallegt útsýni frá stofuglugganum hjá Grétu og Tona. Þar var auðvelt að gleyma hvað klukkan sló með allt þetta dásamlega útsýni fyrir framan sig. Þarna sátum við, gleymdum öllu tímaskyni m.a. við að rifja upp barnæsku okkar. Við áttum það sameiginlegt að alast upp í sveit í stórum systkinahópi. Við gátum endalaust verið að rifja upp þann tíma. Gréta var góð við börnin mín og spurði mig mikið um þau þegar ég kom til hennar.

Elsku Gréta mín, takk fyrir allar dásamlegu stundirnar sem við áttum saman, betri nágranna en ykkur Tona var ekki hægt að hugsa sér. Ég trúi að nú sért þú komin aftur til hans Tona þíns sem þú saknaðir svo mikið hvern dag eftir að hann hvarf frá sínu jarðneska lífi. Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Gunnars og Hjalta og fjölskyldna, systkina hinnar látnu og fjölskyldna þeirra.

Kristín (Stína).