Viðurkenning Frá afhendingu viðurkenningar fyrir grasrótarverkefni ársins 2022. F.v.: Rúnar Már Sverrisson, Indriði Waage og Guðberg K. Jónsson frá Þrótti og Dagur Sveinn Dagbjartsson frá Knattspyrnusambandi Íslands.
Viðurkenning Frá afhendingu viðurkenningar fyrir grasrótarverkefni ársins 2022. F.v.: Rúnar Már Sverrisson, Indriði Waage og Guðberg K. Jónsson frá Þrótti og Dagur Sveinn Dagbjartsson frá Knattspyrnusambandi Íslands.
Í velferðaráætlun Knattspyrnufélagsins Þróttar í Reykjavík segir að markmiðið sé að öllum líði vel í félaginu. Liður í því er að bjóða upp á íþróttir fyrir öll æviskeið. Knattspyrnusamband Íslands valdi grasrótarfótbolta eldri flokka Þróttar, 30+,…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Í velferðaráætlun Knattspyrnufélagsins Þróttar í Reykjavík segir að markmiðið sé að öllum líði vel í félaginu. Liður í því er að bjóða upp á íþróttir fyrir öll æviskeið. Knattspyrnusamband Íslands valdi grasrótarfótbolta eldri flokka Þróttar, 30+, 40+, 50+ og 60+, grasrótarverkefni ársins 2022 og á nýliðnu ári var bætt um betur hjá félaginu og boðið upp á göngufótbolta og fótboltahreysti, dömudeild 20+ og hreyfimorgna fyrir 60 ára og eldri.

„Við höfum byggt upp stórt og viðamikið lýðheilsuverkefni í félaginu,“ segir Guðberg K. Jónsson, yfirþjálfari eldri flokka Þróttar og rannsóknasérfræðingur í Háskóla Íslands.

Eftir að Guðberg kom heim frá námi flutti fjölskyldan í Laugardalshverfið og hann hóf að mæta á æfingar hjá eldri flokki Þróttar 1997. „Elsti sonurinn byrjaði að æfa með Þrótti og dró mig inn í félagið,“ segir hann um byrjunina. Þar hafi hann kynnst foreldrum, sem hafi tekið þátt í uppbyggingunni með sér. „Fámennur hópur hittist kannski einu sinni í viku á sumrin og spilaði fótbolta, mér fannst það ekki nóg og setti mér það markmið um aldamótin að reyna að efla starfið með því til dæmis að æfa reglulega allt árið,“ heldur Guðberg áfram, en hann er kallaður guðfaðir eldri flokkanna. „Þetta hefur smitast svo rækilega í gegn að um 500 leikmenn hafa tekið þátt í þessu starfi og við erum með 150 til 200 virka félaga í hópnum hverju sinni.“

Tæklingar bannaðar

Boðið er upp á níu æfingatíma vikulega fyrir eldri flokkana, bæði í hádeginu, á kvöldin og um helgar, og er frjáls mæting, en skipt er í yngri og eldri hópa á æfingunum. Tæklingar eru bannaðar og allir velkomnir.

„Morgunæfing á sunnudögum er vinsælasta æfingin,“ segir Guðberg. Eldri flokkarnir taki þátt í öllum helstu mótum sem standa til boða hérlendis og þeir hafi komið með öflugum hætti að utanumhaldi alþjóðlega mótsins Football & Fun hérlendis, sem hefur verið haldið undir merki Würth á Íslandi um árabil. Frá 2018 hafi eldri Þróttarar farið á mót í Skotlandi, Lava Cup, á sumrin og fara í fimmta sinn í maí nk. „Nú fara 50 manns frá okkur í ferðina.“

Félagar í eldri flokkunum æfa ekki aðeins og spila fótbolta heldur gefa mikið af sér fyrir félagið. Guðberg bendir á að það komi öllum til góða að geta komið saman og eflt líkamlega og andlega heilsu en félagslegi þátturinn sé ekki síður mikilvægur. „Þetta er einstakt tækifæri til að rífa sig upp úr sófanum og ná sér í smá hreyfingu og samveru með fólki á svipuðu reki. Við sinnum líka margvíslegu sjálfboðaliðastarfi fyrir félagið, erum til dæmis með öflugan dómarahóp, sem dæmir hjá yngri flokkum, og framkvæmdahóp, sem tekur að sér ýmis iðnaðar- og viðhaldsverkefni fyrir félagið.“

Guðberg hefur kynnt starfið á grasrótarþingi hjá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA. Hann leggur áherslu á að KSÍ hafi stutt vel við átakið og lýðheilsusjóður Landlæknis hafi styrkt það. „Þetta er gríðarlega öflugt starf, það eykst með hverju árinu og við hvetjum önnur félög til að sinna þessari hlið grasrótarstarfsins, að huga að eldri iðkendum og sjá verðmætin í því að hafa þá í hreyfingunni. Þá líður þeim eldri eins og þeir séu hluti heildarinnar og eru tilbúnari að gefa meira af sér fyrir félagið.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson