Ljótur Magnússon
Ljótur Magnússon
Við munum flest að græðgi er ein af höfuðsyndunum sjö og svo er hún oft talin merki um fávisku og kæruleysi.

Ljótur Magnússon

Ég las í Mbl. 6. janúar síðastliðinn viðtal við Hauk Hauksson sem gerir út ferðaskrifstofuna Bjarmaland. Þarna hrósar hann sér og gerir sig breiðan vegna fyrirhugaðra hópferða til Rússlands í sumar.

Þetta var grámygla veruleikans sem þarna birtist í letri.

Ísland hefur getið sér gott orð fyrir samstöðu sína með Úkraínu vegna innrásar Rússa í landið.

Almennt eru fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök sem og einstaklingar á Íslandi samhuga í að takmarka eða rjúfa samskipti sín við Rússland.

Ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að loka rússneska sendiráðinu í Reykjavík vakti alþjóðlega athygli og virðingu lýðfrjálsra þjóða.

Ísland hefur með þátttöku sinni í þvingunaraðgerðum sýnt samstöðu með ríkjum sem standa gegn alvarlegum brotum á þeim alþjóðalögum og sáttmálum sem endurspegla grunngildi íslenskrar utanríkisstefnu.

Í reglugerð frá utanríkisráðuneytinu 31. mars 2022 er lögð áhersla á takmörkun í viðskiptum við Rússland.

Það má vera að viðskipti Bjarmalands falli ekki undir reglugerðina, en það verður vonandi rannsakað af utanríkisráðuneytinu eða þeim sem til þess verða kallaðir. Það er ekki þar með sagt að einstaklingar geti ekki haft samband og tengsl við Rússland.

Afstaða Hauks gagnvart Rússlandi kemur ekki fram í viðtalinu en ég get mér til um eina ástæðu og það er hrein og bein græðgi.

Við munum flest að græðgi er ein af höfuðsyndunum sjö og svo er hún oft talin merki um fávisku og kæruleysi. Að hugsa um það eitt að skara eld að eigin köku, án þess að láta sig aðra skipta.

Það má vera að hvatinn sé bara græðgi, en þetta eru líka fádæma siðlaus samskipti á milli Hauks og þeirra sem sitja hinum megin við borðið.

Höfundur er ellilífeyrisþegi, búsettur í Svíþjóð.