Viðtal Vilhjálmur var gestur Spursmála, vikulegs þáttar í opinni dagskrá.
Viðtal Vilhjálmur var gestur Spursmála, vikulegs þáttar í opinni dagskrá.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að útspil Vilhjálms Birgissonar um engar launahækkanir næstu 12 mánuðina sé ekki formlegt samningstilboð sem SA geti tekið afstöðu til

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að útspil Vilhjálms Birgissonar um engar launahækkanir næstu 12 mánuðina sé ekki formlegt samningstilboð sem SA geti tekið afstöðu til.

Kjaradeila breiðfylkingar stéttarfélaganna og Samtaka atvinnulífsins er komin á borð ríkissáttasemjara en upp úr viðræðum slitnaði að kvöldi miðvikudags. Í kjölfarið vísaði breiðfylkingin kjaradeilunni til ríkissáttasemjara. Hann hefur ekki boðað samningsaðila á fund en líklegt er að hann geri það í næstu viku. Á meðan hyggst breiðfylkingin bera saman bækur sínar og mun hittast á fundi á mánudag.

„Vilhjálmur Birgisson er mjög öflugur talsmaður sinna félagsmanna. Ég tel hann fyrst og fremst vera að benda á með þessari yfirlýsingu að verðbólgan sé ekki verkalýðshreyfingunni að kenna,“ segir Sigríður Margrét við Morgunblaðið.

Hún telur Vilhjálm hafa verið að viðra persónulega skoðun sína og ekki sé hægt að taka formlega afstöðu til slíks. Sigríður segir hann hafa reifað svipaðar hugmyndir á samningafundum með Samtökum atvinnulífsins undanfarnar vikur.

Hægt að taka á útgjaldahliðinni

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir engar patentlausnir í stöðunni í kjaraviðræðum launþega við Samtök atvinnulífsins. Um hugmynd Vilhjálms segir hann: „Okkur finnst þetta skoðunarvert eins og aðrar hugmyndir sem miða að því að koma á einhvers konar þjóðarsátt sem nær niður verðbólgu og vöxtum.“

Hann segir stöðuna flókna fyrir marga af sínum félagsmönnum sem hafi uppsafnaðar kostnaðarhækkanir í virðiskeðjunni. Ólafur segir Félag atvinnurekenda hafa verið duglegt að benda á að aðhald í ríkisfjármálum sé ekki nægilegt.

„Það er hægt að taka meira á útgjaldahliðinni. Það er hægt að fækka ríkisstarfsmönnum langt umfram það sem er núna í kortunum,“ segir Ólafur. Hann bendir á að ríkisstarfsmönnum fjölgað stórlega á undanförum árum.

„Þetta er ein af þeim lausnum sem ættu að vera á borðinu. Það þarf að hugsa í lausnum þessa dagana.“

Kjarabót í höndum opinberra aðila

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að sér lítist ágætlega á hugmyndir Vilhjálms en verkalýðshreyfingin hefur skorað á sveitarfélögin að draga gjaldskrárhækkanir til baka. Heiða segir allt uppi á borðinu ef berjast eigi fyrir sameiginlegu markmiði um að ná niður verðbólgu og vöxtum. Hún segist átta sig á því að verði þessi aðferð reynd þá verði kjarabót launþega næstu 12 mánuði í raun í höndum opinberra aðila, eins og sveitarfélaga.

„Hvort hugmyndir Vilhjálms séu raunhæfur möguleiki í þeirri stöðu sem uppi er í íslensku samfélagi ætla ég ekki að segja til um, enda er þetta ekki okkar kröfugerð,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. Hún segir að Vilhjálmur sé að benda á hvað hægt sé að gera ef raunverulegur vilji sé til staðar hjá öllum þeim sem þurfa þá að koma að borðinu.

Úr spursmálum

Launafólk axlar ekki eitt byrðarnar

Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins leggur til að engar launahækkanir verði á vinnumarkaði í 12 mánuði, gegn því að opinberir aðilar falli frá öllum gjaldskrárhækkunum sínum sem urðu að veruleika um síðustu áramót og að fyrirtæki sem eigi aðild að Samtökum atvinnulífsins geri slíkt hið sama þegar kemur að verðhækkunum sem komið hafa til á sama tíma.

Vilhjálmur segir að langstærsta viðfangsefni kjaraviðræðna breiðfylkingar stéttarfélaganna og Samtaka atvinnulífsins sé að finna lendingu sem tryggir verðstöðugleika, lægri verðbólgu og lægri stýrivexti. Aftur á móti sé það á kristaltæru að launafólk á almennum vinnumarkaði muni ekki sjá eitt um að axla byrðarnar þegar kemur að því verkefni.

Þetta kemur fram í viðtali í Spursmálum þar sem Vilhjálmur er gestur Stefáns Einars Stefánssonar.