Leikmenn Real Madríd fagna toppsætinu.
Leikmenn Real Madríd fagna toppsætinu. — AFP/Pierre-Philippe Marcou
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta var enn eitt metárið fyrir félögin í Peningadeildinni sem undirstrikar fjárhagslegan mátt knattspyrnuiðnaðarins

Voldugustu knattspyrnufélög heims lepja ekki dauðann úr skel. Það hefur lengi legið fyrir. Og tekjur þeirra eru enn að aukast, ef marka má úttekt hins alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækis Deloitte.

„Þetta var enn eitt metárið fyrir félögin í Peningadeildinni sem undirstrikar fjárhagslegan mátt knattspyrnuiðnaðarins,“ segir Tim Bridge, sérfræðingur hjá Deloitte, við AFP-fréttaveituna. „Mikil eftirspurn eftir beinum íþróttaútsendingum hefur leitt til frekari vaxtar á öðrum sviðum, sérstaklega þegar kemur að auglýsingatekjum og tekjum af miðasölu. Félögin þurfa með öðrum orðum ekki lengur að stóla á veldisvöxt í sjónvarpstekjum sem aftur leiðir til heilbrigðara viðskiptalíkans og gerir félögunum kleift að hafa meira um fjárhagslegan stöðugleika sinn að segja.“

Uppgjörsárið 2022-23 er hér undir og stærstu tíðindin þau að spænska félagið Real Madríd hefur velt Englands- og Evrópumeisturum Manchester City úr sessi á toppi listans. Madrídingar þénuðu 123 milljarða króna, einum milljarði betur en City, svo sem sjá má á töflunni hér til hliðar. Þetta er í fyrsta sinn frá tímabilinu 2017-18 sem Real hefur vermt toppsætið sem hlýtur að vera huggun harmi gegn en liðið þurfti að horfa á eftir meistaratitlinum til erkifénda sinna, Barcelona, á liðinni leiktíð. Þá laut Real í gras gegn City í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Að dómi Deloitte er tekjuaukning Real Madríd milli ára, sem nemur 17 milljörðum, fyrst og fremst vegna meiri smásölu, betri aðsóknar á leiki og endurheimtra greiðslna frá bakhjörlum eftir hömlurnar sem settar voru á vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Eins og við munum þá léku liðin lengi fyrir tómum pöllum.

Manchester City þarf ekki að örvænta, enda þótt liðið kunni afar illa við sig í öðru sæti. Þrátt fyrir allt hafa tekjur félagsins yfir eitt tímabil aldrei verið hærri, 122 milljarðar króna. Franska stórveldið Paris St. Germain tekur svo bronsið í fyrsta sinn, með tekjur upp á 119 milljarða króna.

Annars kemur fátt á óvart á töflunni, nöfn tekjuhæstu félaganna hljóma afar kunnuglega. Sex ensk félög eru á topp-10, Real og Barca, PSV og svo margfaldir Þýskalandsmeistarar Bayern München. Fróðlegt verður að sjá hvort Harry Kane-áhrifin koma til með að skila Bæjurum hærra upp listann að ári.

Tottenham Hotspur hækkar sig um eitt sæti milli ára, upp í það áttunda. Það ku að hluta til vera vegna leikvangstekna en Tottenham-völlurinn býður upp á nokkra ruðningsleiki úr bandarísku NFL-deildinni á hverju ári.

Athygli vekur að ekkert ítalskt félag kemst í hóp tíu tekjuhæstu; Juventus er í 11. sæti. AC og Inter frá Mílanó þar skammt á eftir. Eflaust munu svo einhverjir hafa gaman af því að sjá West Ham United í 18. sæti, nema þá helst þeir sem láta alltaf eins og að Hamrarnir séu smálið.

Athygli vekur auglýsinga- og kostunartekjur vega þyngst hjá 17 af 20 efstu liðunum á listanum.

Börsurnar á toppnum

Kvennaknattspyrnu hefur vaxið fiskur um hrygg á umliðnum árum og mörg af stærri félögum álfunnar leggja stöðugt meira í þann þátt reksturins. Þar er Barcelona í sérflokki með tekjur upp á 13,4 milljarða króna. Fátt kemur á óvart í næstu sætum, Manchester United, Real Madríd, Manchester City og Arsenal.

Enn er þetta bara brot af því sem félögin hafa upp úr karlaboltanum en líklegt er að sú gjá komi til með að fara minnkandi.