Alþingi Mörg dæmi eru um gullhúðun ESB-gerða á Alþingi.
Alþingi Mörg dæmi eru um gullhúðun ESB-gerða á Alþingi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Utanríkisráðherra hefur skipað starfshóp um aðgerðir gegn svokallaðri gullhúðun EES-reglna, en með því er átt við þegar stjórnvöld herða á reglum EES-gerða eða bæta við heimasmíðuðum ákvæðum í innleiðingarfrumvörp sem ekki leiða af skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Utanríkisráðherra hefur skipað starfshóp um aðgerðir gegn svokallaðri gullhúðun EES-reglna, en með því er átt við þegar stjórnvöld herða á reglum EES-gerða eða bæta við heimasmíðuðum ákvæðum í innleiðingarfrumvörp sem ekki leiða af skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum.

Á fimmtudag voru kynntar niðurstöður úttektar á málaflokkum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, þar sem leitt var í ljós að regluverk sem innleitt hefur verið af því ráðuneyti á árunum 2010 til 2022 hefur sætt gullhúðun í 41% tilvika. Lýsti Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra málaflokksins því yfir að farið yrði í að afhúða regluverkið, þ.e. sníða af skuldbindingar umfram þær sem ESB-gerðir mæltu fyrir um.

„Það er þannig að einstök ráðuneyti hafa verið að skoða þessi mál og þetta er gríðarlega misjafnt á milli ráðuneyta. Það er ekki eins og ég sé að mæla fyrir mörgum innleiðingarmálum, en í þessu máli eru ákveðin grundvallaratriði. Stóra atriðið er að Alþingi sé gerð grein fyrir því, þegar frumvarp er lagt fram, hvað sé hluti af innleiðingu og hvað ekki. Það ber að gera og það hefur orðið misbrestur á því á þeim árum sem tekin voru til skoðunar, en mér finnst mjög mikilvægt að þessum reglum sé fylgt,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið.

„En þar er ekki þar með sagt að mér finnist ekki að stundum getum við Íslendingar gengið lengra en Evrópusambandið mælir fyrir um og ég tek ekki því sem einhverju heilögu sem þaðan kemur. Stóra málið er að það sé gagnsætt hvað kemur frá viðkomandi ráðherra og hvað kemur frá Evrópusambandinu,“ segir Katrín.

Spurð um hvort eðlilegt sé að gullhúða ESB-gerðir þegar því fylgir kostnaðarauki fyrir fólk og fyrirtæki segir hún að á endanum sé það Alþingis Íslendinga að ákveða hvernig slíkt sé gert og þar fylgi þingið sinni pólitísku stefnu.

„Ég get nefnt sem dæmi að þegar ég lagði fram fjölmiðlafrumvarp á sínum tíma sem mennta- og menningarmálaráðherra, þar sem hluti frumvarpsins var innleiðing á hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins, setti ég inn viðbótaratriði um skyldu til að upplýsa um eignarhald á fjölmiðlum sem ekki hafði verið í lögum fram að því, sömuleiðis um sjálfstæði ritstjórna og annað slíkt. Ég held að öll þau ákvæði sem komu frá mér hafi verið til mikilla bóta,“ segir Katrín, „en að sjálfsögðu þarf að liggja fyrir, þegar Alþingi tekur ákvörðun, hvað kemur frá ráðherra og hvað er hluti af innleiðingunni. Það er stóra málið,“ segir hún.

Hvort afhúðun regluverks komi til greina að hennar mati og þannig fylgt fordæmi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir Katrín:

„Það hangir á pólitískum vilja hverju sinni, það er aðalatriðið,“ segir hún.

Áðurnefndur starfshópur á að taka mið af fyrri vinnu, skoða einstök tilvik um gullhúðun og getur lagt til almennar úrbætur, eða úrbætur vegna einstakra mála sem eru til þess fallnar að draga úr hættunni á að gullhúðun eigi sér stað.