— Morgunblaðið/Eggert
Hver ert þú, Inga Steinunn? Ég er sjálfstætt starfandi listamaður; sviðshöfundur úr Listaháskólanum. Ég hef verið mikið að sýna með Improv Ísland en er núna í fyrsta sinn með mitt eigið uppistand sem ég kalla Allt í góðu lagi

Hver ert þú, Inga Steinunn?

Ég er sjálfstætt starfandi listamaður; sviðshöfundur úr Listaháskólanum. Ég hef verið mikið að sýna með Improv Ísland en er núna í fyrsta sinn með mitt eigið uppistand sem ég kalla Allt í góðu lagi. Ég fer meðal annars yfir tíma minn á kvíðameðferðarstöðinni og geri grín að því.

Hvernig tilfinning er það að standa ein á sviði?

Ég var mjög stressuð fyrst! Ég hafði aldrei áður upplifað svona mikið stress eins og ég fann þegar ég prófaði fyrst uppistand. Það er miklu auðveldara að fara á svið með Improv Ísland af því að þá veit maður ekki hvað er að fara að gerast. En þetta venst.

Ertu búin að fá viðbrögð við þessari sýningu?

Já, ég var með fjórar sýningar í fyrra og fékk mjög góðar viðtökur og í kjölfarið fór ég að hita upp fyrir Hugleik Dagsson. Það varð alltaf auðveldara með hverju skiptinu og sjálfstraustið jókst.

Ertu í annarri vinnu meðfram listinni?

Já, ég vinn á Sorpu fyrir hádegi og sinni listinni eftir hádegi og geri einmitt grín að því í uppistandinu. Svo er ég að kenna improv og fer stundum á vinnustaði með uppistand.

Hvað ertu fleira að fjalla um á sýningunni?

Eitt sem ég tala um er dagbók sem ég skrifaði sem unglingur sem er ótrúlega dramatísk. Ég hafði lesið Dagbók Önnu Frank og ákvað að skrifa dagbók eins og hún sem einhver myndi svo finna löngu seinna og gefa út. Ég er því að reyna að vera skáldleg og sniðug í dagbókinni og er mikið að hneykslast á bekkjarfélögunum. Á einum stað stendur að þeir séu „virðingarsnauðir“. Ég var ekki ein af óþekku krökkunum heldur mikill lúði.

Varstu fyndin þegar þú varst lítil?

Ég var frekar feimin en þegar ég opnaði mig var ég fyndin. Þeir sem þekkja mig lítið eru hissa á að ég sé með uppistand en hinir sem þekkja mig vel eru ekki hissa. Þegar ég var lítil vissi ég alltaf að ég vildi verða listakona; ég vissi bara ekki alveg hvernig. En ég finn mig vel í uppistandinu.

Uppistandið Allt í góðu lagi er frumraun Ingu Steinunnar í uppistandi. Sýningar eru í Tjarnarbíói þann 2. febrúar og 16. febrúar kl. 17.30. Miðar fást á tix.is.