Svalur Frakkinn Elohim Prandi stal senunni í Köln í gærkvöldi.
Svalur Frakkinn Elohim Prandi stal senunni í Köln í gærkvöldi. — AFP/Ina Fassbender
Danmörk og Frakkland leika til úrslita á Evrópumóti karla í handbolta í Þýskalandi en það var ljóst eftir að undanúrslitin voru leikin í Köln í gærkvöldi. Frakkland byrjaði á því að vinna Svíþjóð, 34:30, í ótrúlegum leik

Danmörk og Frakkland leika til úrslita á Evrópumóti karla í handbolta í Þýskalandi en það var ljóst eftir að undanúrslitin voru leikin í Köln í gærkvöldi.

Frakkland byrjaði á því að vinna Svíþjóð, 34:30, í ótrúlegum leik. Var Svíþjóð með 27:25-forskot þegar 30 sekúndur voru eftir en enn og aftur gerðust ótrúlegir hlutir á lokasekúndunum á mótinu.

Yanis Lenne byrjaði á að minnka muninn í 27:26 og svo skoraði Elohim Prandi ótrúlegt mark beint úr aukakasti eftir að leiktíminn var runninn út. Svíar voru ekki búnir að jafna sig á atvikinu í framlengingunni, þar sem Frakkar voru mun sterkari.

Eftir leik kvartaði sænska handknattleikssambandið til þess evrópska yfir markinu, því það reyndist ólöglegt þar sem Prandi lyfti vinstri fætinum af gólfinu áður en hann skaut.

Hugo Descat skoraði átta mörk fyrir Frakkland. Felix Claar gerði níu fyrir Svíþjóð.

Danir leika til úrslita í fyrsta skipti í áratug eftir 29:26-sigur á gestgjöfum Þýskalands, sem Alfreð Gíslason þjálfar. Þýskaland náði mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik en Danir reyndust mun sterkari síðustu 20 mínúturnar og tryggðu sér sigurinn.

Þrátt fyrir tapið getur Alfreð huggað sig við það að Þýskaland keppir um verðlaun í fyrsta skipti frá því liðið varð Evrópumeistari undir stjórn Dags Sigurðssonar árið 2016.

Emil Jakobsen, Mikkel Hansen og Simon Pytlick skoruðu fimm mörk hver fyrir Dani. Renars Uscins gerði fimm fyrir Þjóðverja.