Ólöf Dóra „Mér fannst ég skulda henni að aflétta þeirri skömm sem fylgdi því að vera á Kleppi á þessum tíma.“
Ólöf Dóra „Mér fannst ég skulda henni að aflétta þeirri skömm sem fylgdi því að vera á Kleppi á þessum tíma.“ — Morgunblaðið/Eggert
„Tildrög þessarar bókar eru þau að pabbi og systir hans sögðu mér frá formóður minni sem var vistmaður á Kleppi í áratugi,“ segir Ólöf Dóra Bartels Jónsdóttir um skáldsögu sína Litir í myrkrinu sem kom út í haust

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Tildrög þessarar bókar eru þau að pabbi og systir hans sögðu mér frá formóður minni sem var vistmaður á Kleppi í áratugi,“ segir Ólöf Dóra Bartels Jónsdóttir um skáldsögu sína Litir í myrkrinu sem kom út í haust.

„Mér fannst frásagnir þeirra ekki mega týnast. Þetta var langamma mín og mér fannst ég skulda henni að aflétta þeirri skömm sem fylgdi því að vera á Kleppi á þessum tíma. Geðræn veikindi eða það að vera vistmaður á Kleppi er ekki neitt sem þarf að skammast sín fyrir. Það var svo ljóst af frásögnum þeirra að á þessum tíma var þetta alveg hræðileg skömm, bæði að vera vistmaður á Kleppi og að eiga fjölskyldumeðlimi þar.“

Litir í myrkrinu er fyrsta skáldsaga Ólafar. „Ég hef verið skúffuskáld hingað til. Ég á fullt af smásögum og byrjaði að skrifa ljóð þegar ég var táningur en er því miður búin að týna þeim öllum. En ljóð og smásögur hafa fylgt mér alla tíð,“ segir hún.

„En þessar frásagnir pabba og systur hans voru svo mikil kveikja. Mér fannst ég hafa svo mikið í höndunum og fannst ómögulegt að þessar sögur myndu bara hverfa. Mér fannst óhugsandi að ég sæti ein með sögu langömmu og vildi því skrifa hana svo systkini mín myndu líka kynnast langömmu sinni, og til að saga hennar myndi ekki gleymast.“

Ég þurfti að fylla í eyðurnar

Ólöf tekur það fram að um sé að ræða skáldaða frásögn þótt hún byggist að hluta á lífi langömmu hennar. „Ég þurfti að fylla í eyðurnar og skáldaleyfið var töluvert. Þær frásagnir sem ég bjó yfir um langömmu eru í bókinni, en það er mikið sem er skáldað. Og ég mun auðvitað segja systkinum mínum frá því hvað er skáldað og hvað ekki. Öll nöfn á fólki og heiti á bæjum og náttúru eru skálduð því þetta gæti verið saga hvaða manneskju sem er fyrr á öldum, þegar lífið var tómt strit og barnamissir algengur.“

Í sögunni er stokkið fram og aftur í tíma, frásagnir af lífinu á Kleppi fléttast saman við endurminningar söguhetju bókarinnar, Þórunnar. Hún heklar minningar sínar í teppi, eitt stykki fyrir hvert ár með sex mismunandi litum. Bjartir litir tákna hamingju og velsæld en dökkir tákna erfiðleika og sorgir.

„Hugmyndin spratt út frá því að systir pabba sagði að langamma hefði prjónað ullarsokka á þau þótt hún væri blind. Hún sá ekki litina og urðu sokkarnir því það marglitir að systir pabba vildi ekki nota þá. Langamma var greinilega handavinnukona svo ég hugsaði með mér að ég hlyti að geta notfært mér það í bókinni. Hugmyndin að teppunum kviknaði út frá teppum mömmu sem heklaði svona teppi, að vísu ekki í svona mörgum litum, en með 24 stykkjum hvert. Það var kveikjan. Ég hafði svona teppi fyrir framan mig og hugsaði að það væri hægt að hekla eitt stykki fyrir hvert ár úr sex litum. Þetta var tengingin, þessir marglitu ullarsokkar og teppin hennar mömmu.“

Hrein mannréttindabrot

Lagðistu í mikla rannsóknarvinnu við gerð bókarinnar?

„Já, ég gerði það, sérstaklega um Klepp. Ég lá yfir öllum heimildum sem ég komst yfir til þess að vera ekkert að skálda þar. Ég sökkti mér í allt sem ég komst í á netinu og notaði líka bókina Kleppur í 100 ár. Svo notaði ég Íslendingabók og var mjög trú öllum fæðingarárum og andlátsárum barna langömmu. Elsta barnið hennar er amma mín.“

Ólöf dregur fram muninn á Gamla-Kleppi og Nýja-Kleppi en þar voru afar mismunandi áherslur í lækningameðferðum. „Í mínum huga voru svokallaðar „meðferðir“ inni á Gamla-Kleppi hrein mannréttindabrot. Það voru aðferðir Þórðar Sveinssonar, innri og ytri vatnsmeðferðir, sem voru náttúrulega hræðilegar. Þórður á Gamla-Kleppi og Helgi Tómasson á Nýja-Kleppi notuðust við mjög ólíkar læknismeðferðir. Ég veit ekki hvort langamma var á Gamla-Kleppi en mér fannst mikilvægt að það kæmi fram hvernig meðferðum var beitt þar. Ég sökkti mér í það efni til að vera ekki að fara með neitt fleipur. Ég lét sögupersónuna ganga í gegnum þessar meðferðir til þess að opna augu fólks fyrir því hvað var að gerast á þessum tíma.“

Ólöf vekur athygli á því að fram að 1960, meðan lítið var til af lyfjum við geðsjúkdómum, hafi verið sjaldgæft að sjúklingar væru útskrifaðir af Kleppi. „En eftir að Tómas Helgason, sonur Helga Tómassonar, tók við sem yfirlæknir og eftir að betri lyf komu á markað var loksins farið að útskrifa sjúklinga. Langamma mín dó inni á Kleppi árið 1964 þannig að hún átti aldrei afturkvæmt út í lífið. Ég held að hún hafi verið lögð inn eftir að langafi dó svo þetta hafa verið um 25 ár. Tíðarandinn var þannig. Fólk fór inn á Klepp og var þá bara lokað inni. Þetta var örugglega alveg hræðilegt. Maður getur ekki ímyndað sér það, sérstaklega á Gamla-Kleppi.“ segir hún.

„Í dag eru til margfalt betri lyf. Og það á ekki að vera nein skömm að vera veikur á geði. Þetta er sjúkdómur eins og allir aðrir sjúkdómar.“

Fleiri heillandi formæður

Ólöf er stofnerfðafræðingur og aðspurð segir hún að vinnan við útgáfu bókarinnar hafi verið nokkuð ólík því sem hún hefur annars fengist við. „Þetta var mjög skemmtilegt og mikil tilbreyting. En ég hef auðvitað skrifað drjúgan hluta ævinnar, til dæmis vísindagreinar og doktorsritgerð. Svo ég hef fengist við skrif þótt þau hafi verið á allt öðrum forsendum og töluvert ólík skáldsöguskrifum.“

Spurð hvort hún stefni á frekari skrif segir Ólöf:

„Ég er komin með hugmynd og held að það gæti alveg stefnt í bók þótt það verði auðvitað ekki alveg strax. Þetta tekur alltaf tíma og það þarf að vinna heimildavinnuna gaumgæfilega. En já, ég er komin með hugmynd að bók og það verður líka söguleg skáldsaga. Ég á svo margar heillandi formæður sem gaman er að segja frá.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir