Kjartan Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Páll Ketilsson ritstjóri Víkurfrétta voru gestir í Hringferðarhlaðvarpinu.
Kjartan Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Páll Ketilsson ritstjóri Víkurfrétta voru gestir í Hringferðarhlaðvarpinu. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það sem vantaði líka á þessum tíma var að stofnanir og fyrirtæki væru að leita að fólki með menntun, það er allt breytt núna. Fólk er að mennta sig og fær vinnu við hæfi á sínu heimasvæði.

Æskuvinirnir Kjartan Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, og Páll Ketilsson, ritstjóri og eigandi Víkurfrétta, tóku vel á móti starfsmönnum Morgunblaðsins sem voru mættir til að taka hús á Suðurnesjamönnum vegna Hringferðar Morgunblaðsins. Skrifstofur Víkurfrétta, sem Páll hefur stýrt í rúm 40 ár, eru staðsettar í Njarðvík, þó alveg við bæjarmörk Njarðvíkur og Keflavíkur. Fyrir suma skiptir ekki öllu máli hvar bæjarmörkin liggja – og ef til vill er skrýtið að tala um bæjarmörk í þessu tilliti þar sem bæirnir sameinuðust fyrir 30 árum – en fyrir heimamenn, sérstaklega þá sem eldri eru, skiptir þetta þó máli.

Það var á þessum skemmtilegu nótum sem við hófum samtalið við þá Kjartan og Pál fyrir hlaðvarp Hringferðarinnar, sem nú má hlusta á á flestum hlaðvarpsveitum.

„Bara hefðbundinn hrepparígur“

Nú í ár eru sem fyrr segir liðin 30 ár frá því að Reykjanesbær varð formlega til með sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna.

„Vinur minn og þáverandi bæjarstjóri, Ellert Eiríksson sem nú er nýlátinn, talaði alltaf um að það tæki að minnsta kosti þrjár kynslóðir,“ segir Kjartan þegar við ræðum nánar um sameininguna og það hvort fólk ræði frekar um Reykjanesbæ eða noti gömlu nöfnin.

„Ég held að það sé rétt hjá honum. Maður heyrði efasemdaraddir þá en ekki í dag,“ bætir Kjartan við.

Við spyrjum hver hafi verið helstu rökin gegn sameiningu á sínum tíma.

„Það var nú helst bara almennur hrepparígur,“ segir Kjartan og hlær við. Hann bætir þó við að margir hafi flust til svæðisins á þessum tíma og hafi því ekki endilega sömu tengingu við Keflavík eða Njarðvík og þeir sem hafa búið þar lengur.

Páll rifjar í framhaldinu upp að á þessum tíma hafi Keflavík staðið fjárhagslega betur en Njarðvík en aftur á móti hafi Njarðvík átt meira landsvæði laust fyrir uppbyggingu. Í dag búi til að mynda um 4.000 manns í Innri-Njarðvík svo tekið sé dæmi. Páll tekur fram að skipulagsmálin hafi lagt grunn að sameiningu sveitarfélaganna. Kjartan tekur undir það og bendir á að sveitarfélögin á svæðinu hafi lengi átt samstarf um deiliskipulag fyrir svæðið.

Að mati Páls mætti huga að enn frekari sameiningum á svæðinu. Garður og Sandgerði sameinuðust fyrir nokkrum árum í Suðurnesjabæ og að hans mati mætti huga að sameiningu Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga á Vatnsleysuströnd. Spurður um þetta segir Kjartan að fulltrúar sveitarfélaganna hafi rætt saman um málið og búast megi við að það samtal haldi áfram.

Gott að vinna fyrir herinn

Á þeim tíma sem liðinn er hefur auðvitað margt breyst á svæðinu. Líklega má þar helst nefna brotthvarf bandaríska hersins haustið 2006, svæðið varð fyrir miklum áhrifum af bankahruninu haustið 2008 og síðar af gífurlegri uppbyggingu ferðaþjónustunnar og auknum umsvifum í kringum Keflavíkurflugvöll. Kjartan bætir við í umræðu um þetta að miklar breytingar hafi jafnframt orðið á níunda áratugnum þegar útgerðarfélögum og fiskvinnslum fækkaði á svæðinu.

Því verður ekki neitað að á þeim árum sem umsvif hersins voru mikil og sjávarútvegur var öflugur blöstu tækifærin við ungu fólki til að afla sér töluverðra tekna. Það hafði, eðli málsins samkvæmt, þau áhrif að hvatinn til menntunar var ekki mikill á þessum tíma.

„Varnarliðið þjálfaði fólk eftir sínum verkferlum,“ rifjar Kjartan upp og bætir við að ungt fólk hafi því átt kost á því að fara til starfa fyrir varnarliðið að loknum grunnskóla og fengið þá þjálfun og menntun sem til þurfti. Þeir benda báðir á að varnarliðið hafi greitt góð laun og verið góður vinnuveitandi.

Kjartan segir að mikil framför hafi orðið í menntunarstigi á svæðinu eftir þetta. Fyrst með tilkomu Fjölbrautaskóla Suðurnesja og síðar með Keili uppi á Ásbrú, hvar varnarliðið var áður.

„Það sem vantaði líka á þessum tíma var að stofnanir og fyrirtæki væru að leita að fólki með menntun, það er allt breytt núna. Fólk er að mennta sig og fær vinnu við hæfi á sínu heimasvæði,“ segir Páll.

Fengu heilan bæ í fangið

Það fylgja því eðlilegar áskoranir að byggja upp ný hverfi. Þar þarf að leggja götur og huga að öðrum innviðum, s.s. skóla og leikskóla, og þannig mætti áfram telja. Þegar herinn fór var þetta þó allt til staðar á því svæði sem nú er kallað Ásbrú. Það er því við hæfi að spyrja Kjartan hvernig það hafi verið að fá heilt sveitarfélag í fangið með alla þá innviði sem til þarf en enga íbúa.

„Þetta hefur reynst áskorun fyrir samfélagið,“ segir Kjartan. Hann bendir á að fyrst hafi farið töluverð vinna í að koma byggingum í borgaralega notkun, breyta þurfti rafmagni og fleiru, en auk þess hafi jafnframt verið hugað að því að það myndi hafa slæm áhrif á fasteignamarkað ef allar íbúðir yrðu settar á sölu á sama tíma. Þess í stað hafi þær flestar verið settar í leigu þar sem fólki gafst kostur á að leigja á hagstæðu verði. Því hafi fylgt ýmsar áskoranir enda var íbúafjölgun mikil á þessum tíma. Um 10 þúsund manns bjuggu í Reykjanesbæ þegar herinn fór, íbúar voru um 15 þúsund fyrir tíu árum þegar Kjartan tók við sem bæjarstjóri en eru í dag um 23 þúsund.

Páll segir að aukin umsvif og uppbygging atvinnulífsins á svæðinu hafi í raun kallað eftir þessari hröðu fólksfjölgun. Þar munar mestu um uppbyggingu í kringum flugstöðina, en um 40% af efnahagsumsvifum á Suðurnesjum koma til með beinum eða óbeinum hætti í gegnum flugvöllinn.

Tónlist og íþróttir

Hér hefur verið nokkuð fjallað um viðveru bandaríska hersins. Hjá því verður ekki komist þar sem viðvera hersins hafði í marga áratugi umtalsverð áhrif á samfélagið, hvort sem er í efnahagslegu eða félagslegu tilliti. Strax með komu hersins varð mikill samgangur á milli, enda leigðu hærra settir hermenn oft íbúðir í Keflavík eða Njarðvík á meðan verið var að byggja upp svæðið innan girðingar.

„Við erum í raun landamærabörn, við vorum með Ameríku hérna hinum megin við girðinguna, í sinni bestu eða verstu mynd eftir því hvernig á það er litið,“ segir Kjartan.

Keflavík var á árum áður þekkt sem bítlabær og þaðan komu hljómsveitir á borð við Hljóma, Trúbrot, The Lonely blue boys og fleiri, auk þess sem systkinin Elly og Vilhjálmur Vilhjálmsbörn komu frá Höfnum. Þá má einnig segja að körfuboltinn hafi komið til landsins í gegnum varnarsvæðið, þar sem Suðurnesjamenn æfðu og spiluðu með bandarískum hermönnum. Allar götur síðan hafa verið þrjú öflug körfuboltalið á Suðurnesjum.

Kjartan segir í gamni að aldrei hafi verið horft til sameiningar íþróttafélaganna þrátt fyrir sameiningu sveitarfélaga, þar sé enn talað um Keflavík og Njarðvík af miklum hita.

Páll rifjar upp að knattspyrnuliðið í Keflavík hafi átt sín gullaldarár á 8. áratugnum og haft mikil áhrif á kynslóðirnar sem á eftir komu.

„Þegar maður var ekki á æfingum sjálfur fylgdist maður með æfingu hjá gullaldarliðinu,“ segir Páll og bendir kíminn á að Kjartan hafi frekar valið fiðluna, enda var hann fiðlukennari um árabil.

„Enda er ég mun betri fiðluleikari en Páll fótboltamaður,“ svarar Kjartan á móti.

Beðnir um að útskýra þessa miklu tónlistarmenningu á svæðinu benda þeir á að margar hljómsveitir hafi orðið til í Keflavík sem gerðu helst út á það að skemmta hermönnum uppi á velli. Það átti ekki bara við um helgar heldur alla daga vikunnar.

Endað hjá Villa

Við minnumst á hinn víðfræga Pulsuvagn Villa (já, það er pulsa með u-i) en þangað liggur leiðin að loknu viðtali. Kjartan rifjar upp að hann hafi sjálfur starfað þar sem ungur maður. Pulsuvagninn er staðsettur beint á móti bæjarskrifstofunum og aðspurður útilokar hann ekki að hann rölti stundum yfir um miðjan dag.

„Þarna fást bestu pylsur á landinu, ég bið Bæjarins bestu um að afsaka en Villi er bara með’etta,“ segir Páll að lokum.