Kjarni málsins er að löggjöfin sé skýr og afdráttarlaus og kerfið sem eftir henni starfar sé skilvirkt. Skorti lög og tæki verður framkvæmdin í samræmi við það.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Í umræðunum um straum hælisleitenda til landsins er látið eins og hann megi stöðva með því að segja skilið við Schengen-samstarfið. Það er misskilningur. Vandinn snýr að íslenskri landamæravörslu og íslenskri útlendingalöggjöf sem er mun mildari en gerist til dæmis annars staðar á Norðurlöndunum.

Á undanförnum árum hafa dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hver af öðrum lagt til við samstarfsflokka í ríkisstjórn að útlendingalögunum sé breytt. Sumar tillögurnar hafa, að vísu útvatnaðar, komist í gegnum ríkisstjórn og þingflokka stjórnarflokkanna en síðan lent í pírötum á alþingi. Það er grátbroslegt að heyra þá sem vilja óbreytt eða opnara kerfi slá um sig í hælisleitendaumræðum við sjálfstæðismenn og segja: Já, en þið hafið átt dómsmálaráðherra síðan 2013!

Á tæpum sex árum sem dómsmálaráðherra kynntist sá sem þetta ritar því hve lítill skilningur var á kröfum um hert lagaskilyrði hér til að takast á við afbrot. Á alþingi var andstaða við að færa lögreglu heimildir eða tæki til að takast á við verkefni í síbreytilegum afbrotaheimi. Brotamenn fylgjast með gangi stjórnmálanna og verja hindrunarlaust fjármunum og hugviti til að standa feti framar en verðir laganna.

Undirheimamenn hafa í opnum lýðræðisríkjum sömu tækifæri og aðrir til að móta almenningsálit sér í vil. Þeir geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri undir margs konar yfirskini. Oft leyna fingraförin sér þó ekki.

Þegar deilt er um landamæravörslu og ferðir fólks landa á milli láta aðgerðahópar sem vilja opin og gæslulaus landamæri að sér kveða. Við hlið þeirra eru hópar eða félög sem berjast fyrir því að lög séu teygð og toguð til að koma til móts við kröfur hælisleitenda. Opinberir aðilar eiga einnig aðild að aðgerðum af þessum toga eins og birtist meðal annars í tjöldum á Austurvelli til stuðnings Palestínumönnum. Þar á meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur hlut að máli.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, gekk fram fyrir skjöldu fyrir viku og mótmælti tjaldbúðunum á Austurvelli. Þær hurfu síðan 24. janúar eftir að hafa staðið frá 27. desember 2023.

Bjarni benti meðal annars á að árin 2022 og 2023 hefðu borist á milli 4.000 og 5.000 umsóknir um alþjóðlega vernd, hælisumsóknir, hér hvort ár um sig. Fjöldinn kunni að verða svipaður í ár. Tölurnar jafnast á við heildaríbúafjölda í Vestmannaeyjum eða Grindavík.

Ráðherrann segir kostnað við að meðhöndla þessar beiðnir hafa verið um 15 milljarðar króna á ári. Um 2.800 umsækjendur séu í þjónustu á vegum Vinnumálastofnunar, og hafi m.a. þurft að leigja hótel til að finna pláss fyrir fólk. Gert sé ráð fyrir að bæta þurfi við 1.000-1.500 plássum í búsetuúrræðum á árinu 2024.

Í frétt Morgunblaðsins 24. janúar sagði að nú væru um 2.100 manns í búsetuúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar. Skoða má þessar tölur í ljósi fjölda Grindvíkinga sem neyðst hafa til að flytjast búferlum vegna jarðelda, gliðnunar lands og skjálfta.

Opinberar tölur sýna að íslensk útlendingalög virka eins og segull á hælisleitendur. Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ætlar enn að gera tilraun til að loka glufum og færa útlendingalögin nær því sem er annars staðar.

Bretar ákváðu árið 1985 að standa utan við Schengen-samstarfið. Þeir áttu hins vegar aðild að evrópska hælisleitendakerfinu (CEAS) en sögðu sig frá því við úrsögnina úr ESB (Brexit). Það leiddi til þess að Bretar eru ekki lengur bundnir af Dyflinnarreglugerðinni. Hún skyldar hælisleitendur til að sækja um hæli þar sem þeir koma fyrst inn á Schengen-svæðið. Sérstaða Bretlands hefur fjölgað þeim sem reyna að komast þangað ólöglega í smábátum yfir Ermarsund.

Eitt helsta fyrirheit þeirra sem börðust fyrir Brexit var að stöðva ólöglegan straum aðkomumanna til Bretlands.

Nýlega birtust fréttir um að í fyrra hefðu nálægt 16.000 hælisleitendur í Bretlandi, þar á meðal þeir sem komu á bátum yfir Ermarsund, fengið leyfi til að starfa í greinum þar sem skorti starfsmenn fyrir um 80% af meðallaunum í greininni. Séu launin hærri en vikuleg félagsleg greiðsla frá ríkinu missa þeir hana. Þeir geta fengið að búa í húsnæði á vegum innanríkisráðuneytisns greiði þeir eitthvað af kostnaði við það.

Þessar fréttir voru ekkert gleðiefni fyrir Brexit-sinna og sagði Nigel Farage, frægasti forystumanna þeirra, að þetta kallaði aðeins á fleiri hælisleitendur til Bretlands. „Þetta er hrikalegt. Um leið og smyglararnir geta auglýst störf og frítt húsnæði vilja jafnvel fleiri koma. Rúanda skiptir alls engu í samanburði við þetta.“

Rishi Sunak, forsætisráðherra Íhaldsflokksins, reynir nú með öllum ráðum að fá breska þingið til að samþykkja löggjöf sem heimilar breskum stjórnvöldum að kosta ferð fyrir hælisleitendur aðra leiðina til Rúanda í von um að með því verði dregið úr áhuga þeirra á að leita til Bretlands á smábátum.

Engir hælisleitendur koma hingað sjóleiðis enn þá. Íslenska útlendingalöggjöfin lokkar þá hingað í flugvélum sem sumar lenda hér án þess að flugrekendurnir verði við lögmætum kröfum um skil farþegalista. Þeir bera fyrir sig persónuverndarlög heimalands síns. Lögregla getur kært slík brot. Að tíunda nöfn þessara flugfélaga er aðeins í þágu smyglara.

Kjarni málsins er að löggjöfin sé skýr og afdráttarlaus og kerfið sem eftir henni starfar sé skilvirkt. Skorti lög og tæki verður framkvæmdin í samræmi við það.