Óaðfinnanleg „Leila Josefowicz sýndi svo ekki verður um villst að hún hefur fullkomið vald á hljóðfærinu. Tæknin var óaðfinnanleg og um var að ræða sjaldheyrða dýpt í túlkun á hvort heldur sem er samtímatónlist eða sígildri.“
Óaðfinnanleg „Leila Josefowicz sýndi svo ekki verður um villst að hún hefur fullkomið vald á hljóðfærinu. Tæknin var óaðfinnanleg og um var að ræða sjaldheyrða dýpt í túlkun á hvort heldur sem er samtímatónlist eða sígildri.“ — Ljósmynd/Tom Zimberoff
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa Portrett af Leilu Josefowicz ★★★★★ Tónlist: Matthias Pintscher (La linea evacativa: Teikning fyrir einleiksfiðlu), Johann Sebastian Bach (Partíta nr. 2 fyrir einleiksfiðlu í d-moll). Leila Josefowicz (einleikari). Tónleikar í Norðurljósum Hörpu 12. janúar 2024.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Bandarísk-kanadíski fiðluleikarinn Leila Josefowicz átti kvöldið á Föstudagsröð Sinfóníuhljómsveitar Íslands föstudagskvöldið 12. janúar síðastliðinn. Hún er staðarlistamaður hljómsveitarinnar á þessu starfsári og hefur þegar komið tvisvar fram sem einleikari með sveitinni, þar á meðal á frábærum tónleikum í nóvember þar sem hún lék annan fiðlukonsert Bartóks. Josefowicz hefur um árabil einbeitt sér að flutningi tónverka frá 20. og 21. öld og á tónleikum kvöldsins voru tvö verk fyrir einleiksfiðlu á efnisskránni, samin með um það bil 250 ára millibili: Annars vegar La linea evacativa: Teikning fyrir einleiksfiðlu eftir þýska hljómsveitarstjórann og tónskáldið Matthias Pintscher (f. 1971) og hins vegar partíta nr. 2 í d-moll eftir Johann Sebastian Bach (1685-1750).

Pintscher er afkastamikið samtímatónskáld og hefur þannig samið bæði óperur, hljómsveitarverk og kammertónlist. Eftir hann liggja einnig sex einleiksverk, þar á meðal verkið sem Josefowicz lék í Hörpu. Hún kom inn af krafti í þessu áleitna verki sem oft virtist leita í sama tóninn og Josefowicz sýndi mikil blæbrigði í leik sínum. Þannig hafði hún fullkomið vald á þessu tæknilega erfiða verki og tónmyndun var alltaf skýr og tónninn fallegur. Verkið er um það bil 15 mínútna langt og að mörgu leyti átakanlegt, skrifað fyrir öll raddsvið fiðlunnar og var mjög vel flutt.

Partíta nr. 2 fyrir einleiksfiðlu í d-moll eftir Bach er einn af hornsteinum í efnisskrá fiðluleikara um heim allan og verkið hefur verið hljóðritað ótal sinnum. Það er í sex dansþáttum, fimm stuttum og svo löngum lokaþætti, sjakonnu, og það var greinilegt frá upphafstónunum að túlkun Josefowicz var djúp. Hún dró seiminn og tempóið í öllum köflunum var frekar hægt eða kannski öllu heldur yfirvegað en alltaf afar sannfærandi. Blæbrigðin voru mikil og Josefowicz lét hvern og einasta tón hljóma (stundum með víbratói og stundum ekki). Þannig má kannski segja að túlkunin hafi verið „rómantísk“, fremur en í anda upprunastefnunnar en hún var úthugsuð.

Það var kannski einna helst áberandi í saraböndunni (3. kaflanum) og svo lokaþættinum. Sarabandan var glæsilega flutt í hægu tempói en túlkunin var hárfín og full af blæbrigðum (miklum styrkleikamun) og segja má að Josefowicz hafi teiknað upp myndir með túlkun sinni (þessi kafli er vinsælt aukalag meðal fiðluleikara). Upprunatúlkun á það einmitt til að hljóma býsna einhæf á köflum en því var ekki fyrir að fara hér, enda túlkun Josefowicz öll á dýptina en þó aldrei á kostnað heildarinnar. Ég man heldur ekki eftir að hafa heyrt lokaþáttinn (sjakonnuna) betur flutta á tónleikum. Josefowicz kom ákveðið inn og kaflinn var ákaflega vel fraseraður; skipti þá ekki máli hvort um var að ræða sterka spilamennsku eða hárfína, allt var á sömu bókina lært. Josefowicz notaði mikið rubato (hraðabreytingar) en myndaði ávallt langar línur í túlkun sinni. Túlkunin var kannski hæg en hún var alltaf smekkleg og gangandi.

Leila Josefowicz sýndi svo ekki verður um villst að hún hefur fullkomið vald á hljóðfærinu. Tæknin var óaðfinnanleg og um var að ræða sjaldheyrða dýpt í túlkun á hvort heldur sem er samtímatónlist eða sígildri. Þetta voru eftirminnilegir tónleikar. Brava!