Grundartangi Stóriðja á Grundartanga gæti sætt orkuskerðingum.
Grundartangi Stóriðja á Grundartanga gæti sætt orkuskerðingum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefur alvarlegar áhyggjur af stöðu raforkumála og þeirri stöðu sem frekari orkuöflun er í. Staðreyndin er að þegar eru skerðingar á orku, og skortur á orku er farinn að hafa áhrif á fyrirtæki sem veita hundruðum…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefur alvarlegar áhyggjur af stöðu raforkumála og þeirri stöðu sem frekari orkuöflun er í. Staðreyndin er að þegar eru skerðingar á orku, og skortur á orku er farinn að hafa áhrif á fyrirtæki sem veita hundruðum íbúa Akraness atvinnu og setur störf þeirra og lífsafkomu í hættu.“

Svo segir í ályktun bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar sem samþykkt var með atkvæðum allra bæjarfulltrúa á fundi bæjarstjórnarinnar sem haldinn var sl. þriðjudag, en tilefni ályktunarinnar er yfirvofandi raforkuskerðingar til stóriðju sem boðaðar hafa verið vegna yfirvofandi raforkuskorts í landinu.

Hefur bein áhrif

Í ályktuninni segir að um 20% af heildaratvinnutekjum íbúa Akraness komi til vegna framleiðslu fyrirtækja á Grundartanga, Norðuráls og Elkem og skortur á raforku, til skemmri eða lengri tíma, hafi bein áhrif á afkomu íbúa og sveitarfélagsins.

Núverandi ástand og horfur geti leitt til tapaðra starfa og minnkandi verðmæta sem leiða muni af sér samdrátt og lakari lífskjör.

Bæjarstjórnin skorar á stjórnvöld að leita allra leiða til að styðja við frekari orkuöflun og hraða uppbyggingu á virkjunum og endurbótum á flutningskerfi raforku.

„Í atvinnuteknagreiningu Byggðastofnunar eru um 20% atvinnutekna íbúa Akraneskaupstaðar vegna framleiðslu án fiskvinnslu og við vitum að langstærsti hlutinn af þeirri sneið er vegna starfseminnar á Grundartanga. Þar eru meðallaun góð, en ég ætla ekki að skjóta á neina upphæð, hvað þetta gæti þýtt í töpuðum útsvarstekjum ef samdráttur verður,“ segir Haraldur Benediktsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar í samtali við Morgunblaðið.

„Við eigum mjög mikið undir fyrirtækjunum og mörg þjónustufyrirtæki á svæðinu eiga gríðarlega mikið undir starfsemi fyrirtækjanna á Grundartanga. Á meðan þau eru í skerðingum erum við að ógna framtíð þeirra og vaxtarmöguleikum þeirra líka,“ segir Haraldur og bendir á að raforkuskerðing hafi bæði bein og einnig afleidd áhrif í tilviki þjónustufyrirtækjanna.

„Við erum að tala um fólk“

„Við göngum líka fram til að segja það, að þegar verið er að tala um raforku, orkuskort og forgangsröðun orku og að ein lausnin sé að minnka notkun stórnotenda, þ.e. stóriðjunnar, þá erum við í raun að tala um fólk, lungann úr heilu bæjarfélagi. Við óttumst þá umræðu að hægt sé að laga orkuskort í landinu með því að loka á raforkuafhendingu til álvera, en þar eru búin til mikil verðmæti og þar hefur fólk sitt lifibrauð. Það eru íbúarnir okkar,“ segir Haraldur.

Í greinargerð með ályktuninni segir m.a. að skapa þurfi skilvirkari lagaumgjörð um undirbúning og leyfisveitingar virkjana. Þar er bent á að endurbætt flutningskerfi hefði komið í veg fyrir fyrirhugaða orkuskerðingu, strönduð raforka og tap á flutningi raforku sé mikil sóun og finni neytendur fyrir því.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson