Skóli Lögregla segir að svo virðist sem ungu mennirnir tengist ekki.
Skóli Lögregla segir að svo virðist sem ungu mennirnir tengist ekki. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þrír ungir menn, sem voru handteknir eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglunnar við Fjölbrautaskólann í Breiðholti í fyrradag, hafa verið látnir lausir. Þetta staðfesti Elín Agnes Kristínardóttir aðstoðarlögregluþjónn í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld

<autotextwrap>

Þrír ungir menn, sem voru handteknir eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglunnar við Fjölbrautaskólann í Breiðholti í fyrradag, hafa verið látnir lausir. Þetta staðfesti Elín Agnes Kristínardóttir aðstoðarlögregluþjónn í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld.

Einn mannanna var handtekinn á heimili sínu eftir að hafa haft uppi alvarlegar hótanir um ofbeldi á samfélagsmiðlum en hinir tveir voru handteknir í kjölfar þess að lögreglumenn veittu athygli tveimur mönnum í bifreið í hverfinu.

Rætt var við mennina í gær og í fyrradag. Tveimur þeirra var sleppt í fyrradag og þeim þriðja í gær. Það þótti ekki ástæða til að fara fram á gæsluvarðhald yfir þeim. Það virðast ekki vera nein tengsl meðal þessara aðila við þetta mál og það er bara enn til rannsóknar,“ sagði Elín Agnes við Morgunblaðið í gærkvöld.

Fjölbrautaskólanum var lokað eftir ábending barst um að fyrrverandi nemandi við skólann hefði hótað því að koma í skólann og beita alvarlegu ofbeldi. Settur var vörður við útidyr og engum hleypt þar inn nema hann ætti erindi þangað. Að sögn Guðrúnar Hrefnu Guðmundsdóttur skólameistara FB kom sá sem hótaði ofbeldinu aldrei inn í skólann.

„Tekið skal fram að enginn kom inn í skólann og að innan veggja skólans var allt með kyrrum kjörum. Meðal nemenda og starfsfólks spurðist það fljótt út að lögregla væri komin á staðinn og vöknuðu við það ýmsar spurningar eins og skiljanlegt er,“ sagði í orðsendingu frá Fjölbrautaskólanum.