<strong>Skemmtilegur</strong> Jürgen Klopp er engum líkur.
Skemmtilegur Jürgen Klopp er engum líkur. — AFP/Adrian Dennis
Enska úrvalsdeildin í fótbolta missir einn sinn mesta skemmtikraft á næstu leiktíð en Jürgen Klopp tilkynnti í gær að hann myndi hætta sem knattspyrnustjóri Liverpool eftir leiktíðina. Hvort sem maður er stuðningsmaður Liverpool eður ei er erfitt að bera ekki gríðarlega virðingu fyrir Þjóðverjanum

Jóhann Ingi Hafþórsson

Enska úrvalsdeildin í fótbolta missir einn sinn mesta skemmtikraft á næstu leiktíð en Jürgen Klopp tilkynnti í gær að hann myndi hætta sem knattspyrnustjóri Liverpool eftir leiktíðina.

Hvort sem maður er stuðningsmaður Liverpool eður ei er erfitt að bera ekki gríðarlega virðingu fyrir Þjóðverjanum.

Áður en hann hélt til Liverpool gerði hann Dortmund að þýskum meistara tvö tímabil í röð, sem er magnað afrek í dag þar sem Bayern München er yfirleitt með mikla yfirburði í Þýskalandi.

Þá gerði hann Liverpool að enskum meistara í fyrsta skipti í 30 ár árið 2020 og kom liðinu þrisvar í úrslit Meistaradeildarinnar. Varð liðið Evrópumeistari 2019.

Það verður öðruvísi að liggja í sófanum tímunum saman yfir enska boltanum um helgar og sjá ekki Klopp bregða fyrir. Ástríða hans er engu lík og verður líka til stórskemmtilegt sjónvarpsefni þegar hann fer yfir strikið.

Það var bráðfyndið þegar hann meiddist aftan í læri í æsingi við að mótmæla dómi. Þá er erfitt að hlæja ekki yfir hversu óhemju tapsár hann er eftir tapleiki og í mikilli fýlu í viðtölum. Svo er hann skellihlæjandi eftir sigurleiki og erfitt að hlæja ekki með. Enska úrvalsdeildin verður ekki eins gott sjónvarpsefni án hans.

Þvílíkur skemmtikraftur.