Birgir Breiðfjörð Valdimarsson fæddist í Efri-Miðvík í Aðalvík 30. júlí 1934. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 14. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Valdimar Þorbergsson frá Efri-Miðvík, f. 14. nóvember 1906, d. 7. september 2001, og Ingibjörg Guðrún Bjarnadóttir frá Flatey á Breiðafirði, f. 19. september 1908, d. 11. október 2002. Systkini Birgis voru Héðinn Breiðfjörð, f. 27. febrúar 1933, d. 11. september 2008, og Birna Unnur, f. 28 febrúar 1936, d. 14. nóvember 2021.

Hinn 20. júlí 1957 kvæntist Birgir eftirlifandi eiginkonu sinni, Maríu Erlu Eiríksdóttur frá Keflavík, f. 16. ágúst 1936. Foreldrar hennar voru Eiríkur Jóel Sigurðsson frá Keflavík, f. 21. mars 1895, d. 10. nóvember 1982, og Stefanía Dómhildur Guðmundsdóttir frá Hvalsnesi, f. 26. janúar 1900, d. 23. febrúar 1984.

Börn Birgis og Erlu eru: 1) Stefanía, f. 1. mars 1957. Maki hennar er Olgeir Hávarðarson, f. 4. ágúst 1955. Synir þeirra eru Olgeir Stefán, sem er látinn, Hávarður, Birgir og Valdimar. Dætur Hávarðar eru Hildur Kristín og Sóley Erla. 2) Oddný Bára, f. 4. apríl 1958. Maki hennar er Sigurjón Jóhann Sigurðsson, f. 10. apríl 1957. Börn þeirra eru Sæunn Sigríður. Maður hennar er Steingrímur Rúnar Guðmundsson. Dætur þeirra eru Svava Rún, Elma Katrín og Hildur Lóa. Birgir Örn Breiðfjörð. Sambýliskona hans er Sara Fönn Einarsdóttir. Börn Birgis eru Alexander Örn Breiðfjörð og Margrét Bára Breiðfjörð. Sambýliskona Alexanders er Aníta Ósk Logadóttir og eiga þau soninn Arnar Gauta Breiðfjörð. Kristín Ósk. Sambýlismaður hennar er Haukur Örn Gunnarsson. Þau eiga dótturina Hólmfríði Lilju. 3) Valdimar Breiðfjörð, f. 1. júní 1962. Maki hans er Sigríður Dögg Auðunsdóttir, f. 28. september 1972. Börn þeirra eru Bríet Erla Breiðfjörð og Birgir Marzilíus. Fyrir á Valdimar Aldísi Maríu, Matthías Má og Þorbjörgu Eddu. Dóttir Sigríðar Daggar er Diljá Björt Stefánsdóttir. Sambýlismaður hennar er Bjarni Rósar Gunnlaugsson. Synir Aldísar eru Róbert Blær og Valdimar Leó Bjarnasynir. Sambýliskona Matthíasar er Ásdís Eva Diðriksdóttir. 4) Erla Kristín Breiðfjörð, f. 16. ágúst 1969. Maki hennar er Sigdór Rúnarsson f. 17. febrúar 1964. Börn þeirra eru Indíana Breiðfjörð og Arnar Jóel. Synir Indíönu eru Kristófer Rúnar, Sigdór Vilhelm og Frosti Laufdal. Unnusta Arnars er Karolina Darnowska.

Birgir bjó í Aðalvík til 13 ára aldurs. Þá flutti hann með fjölskyldu sinni til Ísafjarðar og bjó þar til æviloka. Hann starfaði hjá Flugfélagi Íslands á Ísafirði og síðar sem flugumferðarstjóri á flugvellinum á Ísafirði. Hann vann um tíma sem skrifstofustjóri hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga eða þar til hann var ráðinn sem útgerðarstjóri hjá Útgerðarfélaginu Gunnvöru sem gerði út togarann Júlíus Geirmundsson ÍS. Síðar var hann útgerðarstjóri hjá Útgerð Hafþórs. Birgir tók síðan við starfi húsnæðisfulltrúa Ísafjarðarbæjar þar sem hann starfaði þar til hann fór á eftirlaun. Birgir var mikill fjölskyldumaður og stundaði íþróttir af kappi jafnt skíði, fótbolta, badminton, skák, bridge og golf.

Útförin fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 27. janúar 2024, klukkan 15.

Streymi frá útför:

https://mbl.is/go/y3hit

Það eru þung sporin fyrir okkur systkinin að skrifa minningarorð um pabba okkar. Þrátt fyrir söknuðinn þá er samt ljúfsárt að rifja upp sögurnar af honum. Við munum hvað pabbi var glaðvær og fékk fólk til að hlæja að hnyttnum tilsvörum sem munu lifa lengi. Hann var einstaklega orðheppinn. Hann var líka dásamlegur faðir og afi sem vildi allt fyrir okkur og börnin okkar gera, iðinn og verkglaður og alltaf boðinn og búinn til að aðstoða.

Pabbi fæddist í Efri-Miðvík í Aðalvík og bjó þar fyrstu æviárin. Á bænum bjuggu líka bræður Valdimars afa og fjölskyldur. Þar ólst pabbi upp með eldri bróður sínum, Héðni, og Birnu, yngri systur. Pabbi sagði að hann hefði verið í uppáhaldi hjá Oddnýju ömmu sinni og frændum. Hann var strax á barnsaldri djarfur og uppátækjasamur og ekki latur til verka. Þegar pabbi var aðeins fimm ára lagði hann með Héðni bróður sínum á heiðina frá Miðvík yfir á Hesteyri til að heimsækja pabba sinn sem vann í bræðslunni sem þar var. Saknaði pabba síns. Fjölskyldan bjó um tíma á Sæbóli þar sem hann kláraði barnaskólann en síðan fluttu þau til Ísafjarðar 1947 þegar pabbi var þrettán ára og lauk hann þar gagnfræðaprófi. Hann dró stundum þessi ár frá þegar hann var spurður um aldur og sagði að þetta væri eins og með bílana. Það væri ekki framleiðsluárið sem gilti heldur árið sem hann „kom á götuna“. Eftir gagnfræðaskólann fór hann til Keflavíkur að vinna. Þegar hann kom heim hóf hann störf hjá Flugfélagi Íslands. Á þeim tíma kynntist hann mömmu sem var við nám í Húsmæðraskólanum Ósk og hófu þau búskap stuttu seinna. Síðar var hann ráðinn sem framkvæmdastjóri hjá Gunnvöru hf. og síðan útgerðarstjóri Hafþórs RE. Á síðustu árum starfsævinnar starfaði hann sem húsnæðisfulltrúi Ísafjarðarbæjar og gegndi því starfi þangað til hann fór á eftirlaun. Mamma og pabbi bjuggu lengst af á Hjallavegi 8 og bjuggu þar til fallegt heimili sem var öllum opið.

Pabbi stundaði íþróttir alla tíð. Hann lærði ungur að tefla og vann til fjölda verðlauna í skák og bridge ásamt því að vera forseti Skák- og bridgesambands Vestfjarða um tíma. Hann stundaði skíði af kappi á yngri árum og fleiri íþróttir. Síðari ár var það hins vegar golfið sem átti hug hans allan. Þau mamma stunduðu þá íþrótt af ástríðu í fjölda ára. Það hefur verið okkur huggun hvað margt fólk hefur sagt okkur hversu góð kynni það hafi haft af pabba og hversu skemmtilegur hann var. Elsku pabbi, takk fyrir okkur og allt okkar.

Stefanía Birgisdóttir,
Oddný Bára Birgisdóttir, Valdimar Breiðfjörð Birgisson, Erla Kristín Breiðfjörð Birgisdóttir.

„Sæl Kristín, afi þinn, er ekki allt gott? Já flott. Du, du, du …“ Lengra náði þetta oftast ekki þegar afi var að hringja og taka stöðuna á sínu fólki og að athuga hvort við værum ekki örugglega í góðum málum. En alltaf fylgdist hann með.

Afi var ekkert að staldra við hlutina, hafði skýrar skoðanir og var ófeiminn við að tjá þær, hann var hnyttinn og alltaf með húmorinn í forgrunni. Ég hafði gaman af því að tala við afa og var alltaf jafn ánægjulega undrandi á því hversu fljótur hann var að svara mér og hvað hann hitti alltaf í mark. Hann kunni að skjóta á mig og gera grín svo að mér þætti það skemmtilegast sjálfri og það þótti mér vænt um.

Æskuminningar frá Hjallaveginum þar sem við barnabörnin í miðju-hollinu földum okkur inni á milli frakkanna í skápnum og máttum leika með öll fötin þín og sixpensarana. Að gjörbreyta sjónvarpsherberginu í nýjan ævintýraheim, alltaf var það jafn sjálfsagt. Minnisstæðast er þegar þú komst inn í eldhús og skelltir mér upp á eldhúsinnréttinguna og þar sat ég með yfirsýn yfir allt og þegar þú tókst okkur endalaust í kleinu og þegar ég fékk að gista og rúllaði milli ykkar ömmu í hlýju vatnsrúminu í hvert skipti þegar annað ykkar hreyfði sig.

Ég er þakklát fyrir að hafa í seinni tíð spilað með þér golf og að þú, fyrrverandi Vestfjarðameistarinn, hafir lagt þig allan fram við að kenna mér að tefla, læra leikinn og lingó-ið. Frammistaðan var ekkert á pari við þína og er mér minnisstæðast taflið þar sem þú hjálpaðir mér að sigra þig, í raun tefldir fyrir okkur bæði en fagnaðir mér eins og það væri ég sem væri Vestfjarðameistari í skák. Ég verð eilíflega þakklát fyrir að hafa átt vin í honum afa mínum og fengið að leika við hann golf og að „gentlemen's on the leather“ hafi fengið að vera aðeins lengra í mínu tilviki og það hafi bara verið betur gert hjá mér ef eitthvað var.

Síðar þegar ég kynnti þig fyrir Hauki þá varstu kominn með nýjan félaga í áhugamálunum, flugi og golfi. Og ó hvað honum þótti það gaman og vænt um að hitta þig. Þau voru ófá skiptin sem við komum út frá ykkur ömmu og héldum áfram að hlæja og tala um hvað þú hefðir sagt. Svo þegar þú kynntist Hólmfríði Lilju dóttur okkar og spurðir alltaf fyrst frétta af henni og sagðir þegar hún var ekki með „það vantar aðalstelpuna“ og það var ekki lengur ég heldur hún, þá hlýnaði mér í hjartanu að hún væri komin í gullmolasætið í hjarta þínu.

Elsku afi, ég var ekki tilbúin til þess að sjá á eftir þér núna. Þú átt sérstakan stað í hjartanu mínu og þar varðveiti ég þig. Góða ferð í draumalandið himinheiða – ég reyni að ná möndlunni í þinn stað.

Allt hið liðna er ljúft að geyma,

– láta sig í vöku dreyma.

Sólskinsdögum síst má gleyma,

– segðu engum manni hitt!

(Jóhannes úr Kötlum)

Þín

Kristín Ósk, Haukur og Hólmfríður Lilja.

• Fleiri minningargreinar um Birgi Breiðfjörð Valdimarsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.